Föstudagur 10.06.2011 - 08:54 - FB ummæli ()

„Öll erum við jöfn …“ Á stjórnarskráin að hljóma svona?

A-nefnd stjórnlagaráðs, sem ég á sæti í, hefur ákveðið að gera tilraun með að skrifa hluta stjórnarskrárinnar í fyrstu persónu fleirtölu.

Dæmið sem við höfum búið til er hér, en það hljóðar svo:

„Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

Þetta er sjálf jafnræðisreglan, ein allra mikilvægasta grein stjórnarskrárinnar.

Gaman væri að fá álit sem flestra á þessu.

Athugið að það er ekki hugmyndin að skrifa alla stjórnarskrána í þessum stíl, heldur einungis þar sem það á við og gengur ekki í berhögg við málvitund fólks.

Í reynd myndu kannski  fyrst og fremst sumar mannréttindagreinar vera skrifaðar á þennan hátt, og kannski inngangsgreinar í öðrum köflum.

Tilgangurinn er bæði sá að minnka hið útbreidda karlkynsmiðaða orðalag, sem víða kemur fram í hefðbundnum lagatextum, þar sem yfirleitt er talað um „menn“ og „hann“.

En þó ennþá fremur að leggja áherslu á að stjórnarskráin er plagg sem við Íslendingar skrifum sjálf og fyrir okkur. Hún telur ekki upp réttindi sem einhver utanaðkomandi hefur af náð sinni veitt okkur, heldur er þetta okkar sáttmáli við okkur sjálf.

Og velkist menn í vafa um hvað „við“ þýðir, þá á það að þýða nákvæmlega hið sama og orðið „allir“ gerir í núverandi stjórnarskrártexta, en það þýðir samkvæmt skilgreiningu „allir sem staddir eru hverju sinni á íslensku yfirráðasvæði“.

Það þýðir til dæmis að öll almenn mannréttindi á Íslandi gilda sjálfkrafa um útlendinga, en síðan á stór hluti stjórnarskrárinnar auðvitað fyrst og fremst við um íslenska ríkisborgara.

En endilega myndið ykkur skoðun á því hvernig ykkur fellur breytingin. Þetta er ekki formleg tillaga ennþá, heldur vonumst við til þess að fá sem mest viðbrögð, áður en við ákveðum hvort við leggjum þetta fram formlega eður ei.

Það má punkta niður viðbrögð hér, en líka fara á hinn ágæta veg stjórnlagaráðs (hérna semsagt) og skrifa umsagnir þar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!