Laugardagur 11.06.2011 - 10:00 - FB ummæli ()

Var þetta gert viljandi?

Í heita pottinum í gær hlýddi ég með öðru eyranu á tvo margfróða menn ræða kvótamál og frumvörp ríkisstjórnarinnar.

Ég skildi ekki bofs, og þótt mennirnir tveir hefðu greinilega víðtæka þekkingu á sjávarútvegi, þá voru þeir hreint ekki vissir um hvernig hitt og þetta í frumvörpunum myndi snerta hitt og þetta í sjávarútvegsmálunum eða atvinnumálunum eða hinum dreifðu byggðum landsins.

Og þá fór ég allt í einu að hugsa um hvort þetta væri eðlilegt.

Við Íslendingar búum svo vel að hér við landið eru einhver auðugustu fiskimið heimsins.

Sérstaklega miðað við að við erum ekki nema rétt rúmlega 300.000.

Einhvern veginn skyldi maður ætla að það hlyti að vera auðveldasta og einfaldasta mál í heimi að veiða fisk á Íslandi.

En í staðinn er búið að haga málum þannig að það sést aldrei útgerðarmaður í sjónvarpinu án þess að hann lúberji lóminn yfir því hvað líf hans sé erfitt.

Og hann sé einmitt á leiðinni þráðbeint á hausinn, og sé farinn að svipast um eftir súpueldhúsi.

Og það er búið að gera fiskveiðarnar og kvótakerfið í hugum almennings að einhverju óskiljanlegu tröllslegu bákni sem engin leið er að skilja nema maður sé prófessor í stöðu frá LÍÚ.

Skyldi þetta hafa verið gert með vilja?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!