Miðvikudagur 06.07.2011 - 22:37 - FB ummæli ()

Með hroka

Ekki veit ég hver ráðleggur Lýð Guðmundssyni um það hvernig hann eigi að tala þjóðina á sitt band.

Því það og ekkert annað er hann vitaskuld að gera með grein sinni í Fréttablaðinu í dag.

Og væntanlega hefur hann einhverja vel launaða PR-menn sér til ráðleggingar.

Sé svo, þá ætla ég hér með að veita Lýð Guðmundsson eitt ráð alveg ókeypis.

Ég veit að vísu svo sem ekkert um mál Exista í sjálfu sér, og ætla ekki að tjá mig um þau.

En ég veit að hann talar EKKI íslensku þjóðina á sitt band með því að saka þá fjölmiðlamenn sem skrifa gagnrýnið um hann og hans „ævintýri“ í útrásinni um „illgirni … og mannfyrirlitningu“.

Þaðan af síður er það vænlegt til árangurs að segja rannsóknarmenn vera „hatursfulla ákæruþrjóta“.

Lýður minn.

Það er ágætt ráð þegar maður ætlar að tala til einhvers, að reyna að setja sig stundarkorn í hans spor til að vita hvernig honum líður og hvað sé líklegt til að ná eyrum hans.

Og ef þú hefðir minnstu hugmynd um hvernig fólki á Íslandi líður nútildags, eftir hrunið, þá myndirðu ekki tala svona.

Nema þér sé alveg hjartanlega skítsama.

Eða hálaunuðu PR-mennirnir þínir séu svona slappir.

Fjölmiðlamenn og rannsóknarmenn gera vafalítið sín mistök en hrunið hér á landi er ekki þeim að kenna.

Og ekki heldur það að þú hafir því miður tapað „lunganum af eignum“ þínum.

Beiskja og reiði og gikksháttur eins og birtist í grein þinni í Fréttablaðinu mun ekki vekja samúð með málstað þínum hjá nokkrum manni.

En það verður reyndar æ meira áberandi að svona ætla hrunverjar að haga málsvörn sinni.

Með hroka.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!