Föstudagur 08.07.2011 - 23:14 - FB ummæli ()

Óheft net

Þessi frétt hér gladdi mitt gamla hjarta.

Að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu teldi að skilgreina ætti netaðgang sem mannréttindi og hluta tjáningarfrelsis. Ennfremur að allir „ættu að eiga rétt á að taka þátt í upplýsingasamfélaginu og ríki heims bera ábyrgð gagnvart þegnum sínum að tryggja aðgang að netinu“, eins og segir í nýrri skýrslu samtakanna.

Jafnframt kemur fram að Finnland hafi nú þegar skilgreint netaðgang sem mannréttindi og Noregur sé að íhuga slíkt hið sama. Og fleiri ríki.

Þetta gladdi mig vegna þess að í þeim stjórnarskrárdrögum sem stjórnlagaráð hefur verið að setja saman er einmitt fjallað um netaðgang í mannréttindakaflanum.

Þar segir í drögum að grein um – einmitt – tjáningarfrelsið:

„Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu, svo sem óheftan aðgang að netinu og upplýsingatækni.“

Í mörgum einræðisríkjum heims, og nefnum bara Kína, yrði ákvæði af þessu tagi fagnað sérstaklega. Því þar hafa stjórnvöld lagt sig í líma við að hefta aðgang að netinu.

Til að hefta aðgang fólksins að upplýsingum, þekkingu og frelsi.

En jafnvel í gamalgrónum lýðræðisríkjum hafa ýmis stjórnvöld uppi tilburði til ritskoðunar á netinu, auðvitað alltaf í þágu einhverrar göfugrar allsherjarreglu og siðgæðis, en mjög mikilvægt er að sporna sem ákafast gegn slíku.

Við vonumst eftir mörgum bandamönnum til að koma í veg fyrir minnstu möguleika á slíku hér á Íslandi.

Sumir hafa leikið sér að því að misskilja þessi drög okkar í stjórnlagaráði þannig að þau merki að stjórnvöld skuli tryggja rétt hvers og eins til að hanga á netinu hvar og hvenær sem er og sér að kostnaðarlausu.

Því setji ákvæðið í raun þá skyldu á hendur ríkinu að koma ókeypis háhraðanettengingu í hvert hús, eða eitthvað ámóta.

Þetta er auðvitað ekki meiningin með ákvæðinu, eins og liggur væntanlega í augum uppi.

Í stjórnarskránni verður líka kveðið á um skyldu ríkisins til að halda uppi heilbrigðisþjónustu, en vitaskuld hvarflar ekki að neinum að það eigi að þýða að ríkið skuli koma upp ókeypis spítala í hverju húsi.

Ákvæðið um hinn „óhefta netaðgang“ eru bara ósköp einfaldar, en mjög mikilsverðar, skorður gegn ritskoðun.

Vonandi geta sem flestir verið sammála okkur um það markmið.

Aðrir hafa lýst efasemdum um að rétt sé að nefna orðið „net“ í stjórnarskránni, þar sem engin leið sé að vita nema netið sé skammlíf uppfinning og gæti verið orðið úrelt áður en við er litið.

Við í stjórnlagaráði höfum rætt þennan möguleika í þaula. Til að „dekka“ alla hingað til óþekkta tækni til tjáskipta og upplýsingamiðlunar, sem hugsanlega gæti leyst netið af hólmi, þá höfum við orðalagið „óheftan aðgang að netinu og upplýsingatækni.“

Sérfræðingar okkar í tæknimálum segja okkur hins vegar að það sé í meira lagi ólíklegt að netið sem slíkt verði orðið illilega úrelt innan 25-30 ára, en ég ætla að vona að þá verði búið að endurskoða þá stjórnarskrá sem við í stjórnlagaráði erum (vonandi) að leggja drög að.

Þá er átt við netið almennt, sem rafræna tækni til tjáskipta, en ekki til dæmis veraldarvefinn, sem er allt annar hlutur, og gæti vel verið orðinn úreltur áður en mjög langt um líður.

Þar sem netið er svo mikilvægt núna, og stjórnarskráin er þrátt fyrir allt skrifuð fyrir samfélag okkar núna, en ekki fyrst og fremst fyrir fjarlæga framtíð, þá ákváðum við að nota orðið „netið“ í þessum drögum.

Í því sambandi má geta þess að í núverandi stjórnarskrá er minnst á bæði póst og síma. Hvortveggja má kalla tæki til tjáskipta, rétt eins og netið.

En orðið „net“ er hins vegar ekki heilagt. Ef okkur verður sýnt fram á að það sé líklegra en hitt að netið sjálft, sem tæknilegt fyrirbæri, verði brátt úr sögunni, þá kemur alveg til greina að fella orðið brott og notast eingöngu við orðið upplýsingatækni.

En við munum hins vegar ekki snúa aftur með orðið „óheft“.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!