Fimmtudagur 04.08.2011 - 15:09 - FB ummæli ()

Verndar Gandhi valdastéttina?

Jón Magnússon lögmaður svarar hér pistli sem ég hafði skrifað um orð sem hann lét falla á Pressunni.is um starf stjórnlagaráðs.

Það sem mér fannst aðfinnsluverðast við skrif Jóns var dálítið yfirlætisleg ábending hans um að þeir sem sátu í stjórnlagaráði föttuðu ekki hvað starf þeirra skipti litlu máli.

Um það snerist minn pistill – það má lesa hann hér.

Ég verð að svara þessu örfáum orðum.

Í fyrsta lagi skil ég ekki hvað Jón á við með „fúkyrðum í [sinn] garð“.

Í pistlinum lýsi ég því ósköp kurteislega að mér þyki hin upprunalegu skrif Jóns vera dæmi um „hrokann í valdastéttinni“ andspænis stórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs.

Hvergi er að finna eitt einasta fúkyrði í garð Jóns Magnússonar.

Þaðan af síður get ég heimfært upp á minn hógværlega pistil að ég sé „svo illa haldinn“ að „djöfullinn [sé] laus“.

Ég kann mjög illa við þessar ásakanir, því ég legg mig reyndar fram um að skrifa um menn og málefni án „fúkyrða“ og að mestu æsingalaust.

Mér þætti því jafnvel ástæða fyrir Jón Magnússon að draga þessi orð sín til baka, svo fjarri öllum sanni finnst mér þau vera.

Í öðru lagi skil ég ekki almennilega orð Jóns Magnússonar um valdastéttina á Íslandi.

Í pistlinum mínum hafði ég bent ég að valdastéttin í landinu hneigðist til að vera á móti stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs.

En það kæmi ekki á óvart, því þetta væri frumvarp handa þjóðinni, ekki valdastéttinni.

Þessi sakleysislegu orð verða Jóni Magnússyni tilefni til að líkja mér við „alræðisflokka í byrjun og um miðja síðustu öld“!

Jamen herregud!

Og svo kemur setning þar sem hann gefur í skyn að með því að tala um valdastétt í einu landi, þá sé maður að setja sig sérstaklega upp á móti mannréttindabaráttu Gandhis og Martin Luther Kings.

Manna sem einmitt vörðu ævi sinni í að berjast gegn valdastéttinni í sínum löndum!

Ég skil að vísu ekki röksemdafærslu Jóns – en ef valdastéttin á Íslandi á nú svo bágt að hún telur sig mundu njóta sérstakrar verndar Gandhis og Kings, þá er óhætt að segja að upp séu runnir nýir og áður óþekktir tímar á Íslandi.

Ég botna sem sagt ekki almennilega í aðfinnslum Jóns.

En það verður svo að vera – bara ekki saka mig um að ganga erinda nasista og kommúnista þó ég minnist á að nýja stjórnarskrárfrumvarpið sé skrifað fyrir þjóðina, ekki valdastéttina.

Því við í stjórnlagaráði höfðum aðeins eitt markmið – en það var einmitt að „tryggja grundvallarmannréttindi allra borgara og mannúðlega stjórnun þjóðfélagsins líka fyrir alla“.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!