Mánudagur 08.08.2011 - 08:15 - FB ummæli ()

Það sem þarf …

Það er verið að setja saman fjárlög, það vitum við.

Og það hefur þegar komið fram að þau verða ekkert fagnaðarefni.

Við erum enn að súpa seyðið af „veislunni“ svokölluðu. Var það ekki Árni Mathiesen þáverandi fjármálaráðherra sem kallaði bóluna það?

En nú stefnir sem sé þriðja haustið í röð í miklar deilur um hvora leiðina eigi að fara, niðurskurð eða skattahækkanir.

Sjálfsagt þarf að gera sitt lítið af hvoru – þetta var náttúrlega heljarinnar „veisla“ sem við þurfum nú að borga!

En má ég upplýsa stjórnmálamenn okkar um eitt?

Ég – og nú held ég að mér sé óhætt að fullyrða að ég tali fyrir munn ansi margra – ég get sem sagt varla horft upp á eitt haustið enn af mannskemmandi rifrildi sem í orði kveðnu snýst um leiðir út úr kreppunni, en snýst í rauninni um völd og áhrif.

Og hver mígur á sína þúfu.

Ég sat í stjórnlagaráði.

Burtséð frá því frumvarpi sem við skiluðum, þá sönnuðu vinnubrögð okkar í ráðinu að hópur af fólki sem kemur saman og ÆTLAR að ná árangri, sá hópur getur vel náð árangri.

Ef fólk sýnir hvert öðru virðingu – og hugsar ekki fyrst um að koma sjálfu sér einhvern veginn á oddinn.

Heldur hugsar eingöngu um að ná árangri sem allir eða flestir geta skrifað upp á.

Þá næst árangur – sem þó er ekkert miðjumoð, og sem þó hefur ekki haft í för með sér að einn hafi vaðið yfir annan.

Ég legg til að stjórnmálamenn okkar reyni að draga svolítinn lærdóm af þessu, áður en þeir hefjast handa um sínar hefðbundnu spælingar og niðurrif.

Og annað:

Ríkisstjórnin hefur náð mjög markverðum árangri nú þegar.

Það fer að verða búið að spúla út brotnum glösum og matarleifum og öðru rusli eftir „veisluna“.

En nú þarf að stíga næsta skref.

Við þurfum sýnileg og jákvæð merki um að uppbygging sé að hefjast á fullum krafti.

Ekki bara þriðja haustið af niðurskurði og/eða skattahækkunum.

Heldur uppbyggileg merki um að nýir tímar séu í vændum.

Það er líka hægt að nota vinnubrögð stjórnlagaráðs til að ná samkomulagi um slíkt!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!