Sunnudagur 21.08.2011 - 08:47 - FB ummæli ()

Menningarnótt eða útihátíð

Ég fór vissulega ekki um allan bæ í gær, en mín tilfinning er sú að þessi menningarnótt hafi verið ein sú best heppnaða til þessa.

Hið frábæra veður átti auðvitað sinn þátt í því, en þegar ég fór um bæinn í gær var líka afar notalegt og skemmtilegt andrúmsloft yfir öllu saman.

Mér sýnist að tekist hafi að snúa við þeirri slæmu þróun sem var í uppsiglingu fyrir fáeinum árum – að menningarnótt yrði eins konar eftiröpun af Listahátíð – það er að segja að mest áberandi væru fremur fáir „stórir“ viðburðir, oftar en ekki á snærum stórra stofnana eða fyrirtækja.

Sem íbúi í miðbæ Reykjavíkur hafði ég að minnsta kosti á tilfinningunni fyrir nokkrum misserum eða árum að þetta væri að þróast í þá átt.

En hafi sú tilfinning mín verið rétt, þá hefur þeirri þróun alla vega verið snúið við.

Og það er vel – og takk fyrir það.

Menningarnótt á jú að vera samsafn af litlum viðburðum út um allt, helst þannig að maður viti aldrei alveg á hverju er von.

Og maður skynjaði það í mannfjöldanum í gær – einmitt þetta var fólk komið til að upplifa.

Það var einhver tilgangur í loftinu.

Ólíkt 17. júní, en eins og ég þreytist ekki á að fjalla um, þá finnst mér hátíðahöldin á 17. júní orðin gjörsamlega stefnu- og tilgangslaus.

Fólk safnast niður í bæ til að kaupa rándýrar hálfkaldar pulsur úr sölutjöldum og þessar andstyggilegu gasblöðrur í líki amerískra og japanskra teiknimyndafígúra.

Af því maður er manns gaman og af því þetta er hefð.

En það er enginn tilgangur með 17. júní lengur, maður finnur svo glöggt stefnuleysið í mannfjöldanum. Enginn veit almennilega til hvers hann er kominn.

Ég hef margoft mælt fyrir því að hátíðahöldin í Reykjavík á þjóðhátíðardaginn verði látin hafa íslenska sögu að þema, líkt og menningin er þema menningarnætur – kannski verður það einhvern tíma að veruleika.

(En fyrst ég minntist á gasblöðrurnar – þá tók 10/11 búðin upp á þeim skratta að fara að selja þessar ömurlegu gasblöðrur sínar líka í gær, rétt eins og á 17. júní. Í guðs bænum hætta því. Það er nóg að japanskir pokémonar hafi lagt undir sig einn íslenskan hátíðisdag!)

En sem sagt – þetta var snotur og fallegur og mjög skemmtilegur dagur.

Svo tók auðvitað við útihátíðin um kvöldið, en hún er að verða býsna klassísk.

Ég hef mörgum sinnum skrifað um það áður en mér finnst „stórtónleikar Rásar 2“ vera farnir að spila alltof mikla rullu á menningarnótt.

Þeir leggjast yfir allt kvöldið með sínum alltumlykjandi hávaða.

Á endanum fer manni að líða eins og öll hátíðin með sínum skemmtilegu litlu atriðum hafi bara verið upptaktur að „stórtónleikum Rásar 2“.

Það er eins og sá hugsunarháttur sé orðinn rígnegldur inn í fólk að svona skemmtun verði að enda með einhverjum ógnarlegum dúndrandi klímax!

En ef hverju í ósköpunum þarf að enda menningarnótt svona?

Af hverju má hún ekki bara líða út af í lágróma gleði og menningu?

Í staðinn fyrir þetta lokapöns – og svo hefst unglingafylleríið fyrir alvöru!

Ég veit að Óli Palli vinur minn hefur fjarska gaman af að skipuleggja tónleikana, en getur hann ekki bara haldið tónleikana sína á einhverju öðru kvöldi?

Og best að taka fram að ég er svo sannarlega ekki að kvarta undan framlagi Bubba Morthens í gærkvöldi – ég er ódrepandi aðdáandi Bubba og hann skilaði sínu mjög vel í gærkvöldi.

Það er bara konseptið – á akkúrat þessu kvöldi – sem ég efast um.

Hefur einhver staldrað við og spurt hvort þessi endapunktur á menningarnótt sé endilega æskilegur?

Jájá, það mætir massi af fólki, en er það endilega eftirsóknarvert?

Hvað með það þó aðeins færri kæmu í bæinn – en væru þá komnir til að njóta listviðburða og raunverulegrar samveru með fólki en ekki bara til að hlusta á glymjandi rokk – jafnvel þó það sé af bestu gerð?

Alveg eins og á 17. júní?

Má ekki menningarnótt vera öðruvísi?

Af hverju þarf hún að breytast í útihátíð?

– – – – –

Ég birti þennan pistil á Facebook og þar svaraði Óli Palli á þessa leið:

„Skemmtilegur pistill Illugi vinur minn!
Músík er menning – hún er vinsælasta listformið og stærsta og það eina sem við Íslendingar erum jú þekktir fyrir. Menningarnótt er eina tækifærið sem við höfum til að safnast saman – mikill fjöldi af fólki og upplifa SAMAN músík! Tónleikar eru ekki það sama og tónleikar – ég hef verið á þeim nokkrum og það sem er skemmtilegt við þessa tónleika er mannfjöldinn. Með mannfjöldanum skapast stemmning sem fæst ekki á minni tónleikum. Ég sá ekki tónleikana – var baksviðs allan tímann en mikið vona ég innilega að fólk hafi almennt haft gaman af þessu. Menningarnótt er frábær fyrir allt það sem hún – alla litlu sjálfsprottnu hlutina og uppákomurnar um alla borg allan daginn og svo eru tónleikarnir líka skemmtilegir – amk. er ekki hægt að skilja málið öðruvísi þegar maður skoðar fjölda þeirra sem mætir. Mín skoðun er þessi: Leyfum fólkinu að velja hvernig Menningarnóttin er – og það fór ekkert á milli mála hvað það valdi í gær. Fólki finnst gaman að vera á stórum tónleikum og fólki finnst gaman að sjá flugeldasýningu. Gleðilegt sumar!“

Ég svaraði þessu svo svona:

„Já þakka fyrir Óli minn Palli, og sömuleiðis! Ég hef ekkert á móti stórum tónleikum. Þetta er bara spurning um stað og stund. Á endilega að gera allt í einu? Segjum að það sé Beckett-hátíð í miðbænum – hans hljóðlátu leikrit sett upp utandyra fyrir þá sem vilja. Svo kemur einhver og setur upp bílabíó við hliðina þar sem nýjasta Hollywood-myndin er sýnd á fullu blasti. Væntanlega munu mun fleiri mæta en á Beckett. Eigum við þá að segja að þetta sé allt í fína og það sé bara verið að „leyfa fólkinu að velja“?“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!