Laugardagur 08.10.2011 - 11:49 - FB ummæli ()

Hver er lemúrinn?

Ég byrjaði í blaðamennsku í byrjun apríl 1979. Tíminn sem liðinn er síðan jafngildir næstum sex og hálfri heimsstyrjöld.

Vitanlega hefur það verið mismerkilegt sem ég hef fengist við öll þessi ár, og mjög misskemmtilegt líka.

En ég held ég geti þó fullyrt að það allra skemmtilegasta var að stofna og móta tímaritið SKAKKA TURNINN árið 2008.

Þetta var tímarit sem Birtíngur gaf út og bar það hógværlega mottó: „Tímarit um allt.“ Þarna var fjallað um hvaðeina milli himins og jarðar – gjarnan um ýmislegar furður mannlífsins, vísindanna, sögunnar, náttúrunnar, menningarinnar, trúarbragðanna, sálarinnar …

SKAKKI TURNINN vílaði ekki fyrir sér að fjalla um jafnvel hinar svörtustu síður mannlífsins en gerði það þó ævinlega á furðu léttan hátt. Ísmeygilegur húmor átti að vera aðal SKAKKA TURNSINS og ég held að það hafi lukkast alveg prýðilega.

Elín Ragnarsdóttir þáverandi framkvæmdastjóri Birtíngs hleypti þessu skemmtilega skipi úr vör með mér, Ólafur Gunnar Guðlaugsson hannaði útlit blaðsins fyrsta kastið og mín gamla og góða vinkona Ragnheiður Gyða Jónsdóttir var vitanlega munstruð í áhöfnina.

Það voru þó ungu blaðamennirnir tveir á SKAKKA TURNINUM sem strax urðu sál blaðsins, þau Helgi Hrafn Guðmundsson og Vera dóttir mín.

Þau „föttuðu konseftið“ um leið – og unnu svo vel með það að unun var með að fylgjast!

Seinna bættist svo Bryndís Ósk Ingvarsdóttir í hópinn og ekki eftirbátur þeirra tveggja.

Því miður varð SKAKKI TURNINN ekki langlífur. Kreppan skall á áður en blaðið hafði náð að festa sig almennilega í sessi. Það seldist ágætlega en auglýsingamarkaðurinn hrundi og nýtt blað eins og SKAKKI TURNINN, með ekki mjög skýrt skilgreindan markhóp, leið sérlega illa fyrir það.

Nýir forráðamenn Birtíngs skildu ekki hvað þeir voru með í höndunum, og treystu sér ekki til að styðja hann gegnum verstu öldudali kreppunnar.

Svo við vorum rekin í árslok 2009 og SKAKKI TURNINN lagður niður.

Ég hef alltaf séð eftir þessu skemmtilega tímariti og mundi stofna það á ný á augabragði ef einhverjir vildu vera með mér í því.

En nú hafa þau Helgi Hrafn og Vera, sálin í SKAKKA TURNINUM, stofnað veftímarit sem er af svipuðu tagi og SKAKKI TURNINN var. Það kallast meira að segja „Veftímarit um allt“ eins og SKAKKI TURNINN hét „tímarit um allt“. Og Bryndís Ósk er komin til liðs við þau, og von á fleirum jafnvel.

Þetta veftímarit stefnir nú þegar (á fyrsta degi!) í að verða skemmtilegasta vefsíða á netinu, að minnsta kosti hinum íslenska afkima þess.

Ég hvet fólk til að skoða.

Tímaritið heitir Lemúrinn og hefur aðsetur hér.

Gefið ykkur góðan tíma – Lemúrinn er sneisafullur af efni!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!