Þriðjudagur 11.10.2011 - 18:08 - FB ummæli ()

Hvenær ætla valdsherrar að þekkja sinn vitjunartíma?

Karl Sigurbjörnsson situr á sínum ólympstindi við Laugaveginn og ansar ekki spurningum fjölmiðla um háværar kröfur um að hann segi af sér vegna vægast sagt linkulegra viðbragða hans við Ólafsmálum Skúlasonar.

Segir ekki orð.

Nú síðdegis mætti aftur á móti Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir frá Biskupsstofu á Rás 2 og gerði tilraun til að skýra málið frá hans sjónarhóli.

Hún er kynningarstjóri Biskupsstofu eða hvað það nú heitir.

Í mínu ungdæmi var sá maður kallaður skræfa sem beitti öðrum fyrir sig, sér til varnar, en látum það vera.

Steinunn Arnþrúður stóð sig vissulega hetjulega, og sýndi áreiðanlega fyllstu einlægni að því marki sem staða hennar og þetta vandræðalega mál leyfði.

En gallinn var auðvitað sá að hún gat ekki svarað af fullkominni hreinskilni af því hún þurfti alltaf að hafa bak við eyrað að orð hennar máttu ekki skiljast sem gagnrýni á herra biskupinn.

Hvað ætlum við lengi að sætta okkur við að umræður um erfið og viðkvæm mál á Íslandi þurfi alltaf að fara að snúast um persónur þeirra valdamanna sem verða fyrir gagnrýni?

Og hvort þeim þóknist ef til vill hugsanlega kannski að segja af sér?

Hvenær ætla valdsherrar á Íslandi að þekkja sinn vitjunartíma?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!