Miðvikudagur 12.10.2011 - 08:29 - FB ummæli ()

Vangá við skráningu?!

Ég var fyrst núna að lesa yfirlýsingu sem barst frá Biskupsstofu í gær og eiga greinilega að vera einu viðbrögðin við sjónvarpsviðtalinu við Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur og útkomu bókar hennar og Elínar Hirst.

Karl Sigurbjörnsson biskup hefur orðið fyrir harðri gagnrýni, eins og allir vita. Það er því í meira lagi undarlegt að loksins þegar hljóð heyrist úr horni, þá kemur fram þessi yfirlýsing sem er ekki frá honum einum, heldur líka þeim Jóni Aðalsteini Baldvinssyni vígslubiskupi á Hólum og Kristjáni Val Ingólfssyni vígslubiskupi í Skálholti.

Og yfirlýsingin ber heitið „Frá biskupafundi“.

Þar segir meðal annars:

„Þjóðkirkjan hefur markað sér þá stefnu að standa með þeim sem brotið er á, hlusta á sögu þeirra af athygli og virðingu og vinna með þeim stofnunum og samtökum í þjóðfélaginu sem vinna að viðhorfsbreytingu í þessum efnum. En þar er enn langt í land, því miður.“

Engin ástæða er til að gera miklar athugasemdir við þetta. En svo segir:

„Við erum öll í sársaukafullu lærdómsferli.“

VIÐ? Hvað þýðir það? Jón Aðalsteinn og Kristján Valur? Eiga þeir margt ólært? Það kann svo sem vel að vera – furðu margir kirkjunnar þjónar virðast eiga furðu margt ólært á þessum sviðum.

En gagnrýni hefur samt ekki verið beint að þeim. Það er mergurinn málsins.

Af hverju stíga Jón Aðalsteinn og Kristján Valur fram og beina gagnrýni að sjálfum sér – eða þá kirkjunni í heild? Í bili beinist gagnrýni fyrst og fremst að einum manni, þeim manni sem hafði vald til að sýna skörungsskap og bregðast við strax upplýsingum Guðrúnar Ebbu af festu, en gerði það ekki.

Ég ítreka: Gerði það ekki.

Er Karl Sigurbjörnsson virkilega að reyna að fela sig milli þeirra Jóns Aðalsteins og Kristjáns Vals með þessari yfirlýsingu „af biskupafundi“?

Síðan segir í yfirlýsingunni að það sé „harmsefni“ að bréfi Guðrúnar Ebbu hafi ekki verið svarað strax, og biskup hafi beðist afsökunar á því í ræðu og riti og persónulega.

Jahá? Það var nú ef ég man rétt ansi dræm afsökunarbeiðni og lengi á leiðinni – að minnsta kosti var augljóst af sjónvarpsviðtalinu við Guðrúnu Ebbu að hún hafði ekki skilið þá afsökunarbeiðni.

En síðan segir: „Það skal þó skýrt tekið fram að vangá við skráningu erindis hennar hafði ekki áhrif á málsmeðferðina.“

VANGÁ VIÐ SKRÁNINGU?

Ætlar Karl Sigurbjörnsson að halda því fram að það sem gerðist í þessu máli – þegar bréfi um stórkostlega glæpi fyrirrennara hans á biskupsstóli var stungið oní skúffu og reynt að þaga það í hel en Guðrúnu Ebbu í engu svarað – hafi fyrst og fremst falið í sér „vangá við skráningu“?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!