Fimmtudagur 13.10.2011 - 08:45 - FB ummæli ()

Þýskir öfgamenn kenna sig við Heklu!

Ef eitthvað er að marka fréttir sem berast úr Þýskalandi eru það ekki aðeins ákafir bókmenntaáhugamenn sem hafa áhuga á íslenskum fyrirbærum þar í landi þessa dagana.

Einhver vinstri sinnaður hópur í Berlín hefur verið að koma fyrir sprengiefni á lestarteinum síðustu daga, og kennir sig við Heklu. Hópurinn telur sig vera að mótmæla innrásinni í Afganistan fyrir réttum tíu árum, en Þjóðverjar tóku þátt í henni.

Sjá þessa fréttatilkynningu hér.

Að því er virðist stafar Heklu-nafnið af því íslensk eldfjöll trufli líka samgöngur, enda kallar hópurinn sig fullu nafni „Heklu móttökunefndin – fyrir fleiri félagslegum eldgosum“.

Orðalag í fréttatilkynningu hópsins bendir raunar ekki til að hann hafi ýkja mikla þekkingu á íslensku eldfjöllunum – því þar kemur fram að Hekla sé komin langt fram yfir áætlaðan gostíma.

Þar hlýtur að vera átt við Kötlu.

En orðrétt segir að hópurinn vilji feta í fótspor íslensku eldfjallanna sem vonandi munu aftur gera „okkur“ mjög hamingjusöm, með því að hægja á hjólum efnahagslífsins á ný.

Hópurinn tekur mjög skýrt fram að ætlun hans sé alls ekki að valda manntjóni.

En það er óvenjulegt að vinstri sinnaðir öfgamenn kenni sig við íslensk fyrirbæri – yfirleitt voru það hægri öfgamenn sem þóttust svo hrifnir af íslenskri menningu, goðafræði og náttúru að þeir skreyttu sig íslenskum eða altént fornnorrænum nöfnum og frösum.

Þetta er skrýtið – en meira veit ég heldur ekki um þetta.

Sjá þó líka hérna og hérna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!