Fimmtudagur 13.10.2011 - 16:22 - FB ummæli ()

Höfum dyrnar áfram opnar

Það hefur ekki farið mikið fyrir því en í tuttugu ár hefur verið rekið við Hverfisgötu í Reykjavík athvarf sem heitir Vin. Þangað hafa komið einstaklingar með stór og smá geðræn vandamál og hefur Vin verið griðastaður þeirra allan þennan tíma. Athvarfið hefur sinnt þörfum þeirra af kostgæfni, gefið þeim kost á hvíld frá amstri dagsins og vandamál hafa engin fylgt rekstrinum.

Vin er því nákvæmlega heimili af því tagi sem gerir mikið gagn á hljóðlátan hátt.

Heimilið hefur verið rekið af Rauða krossinum, en Reykjavíkurborg lagt til húsnæðið. En nú eru blikur á lofti. Rauði krossinn telur sig ekki geta rekið Vin lengur og til stendur að loka athvarfinu.

Það væri ansi blóðugt ef loka þarf svo góðu og gegnu athvarfi.

Í kvöld klukkan 19 verður því haldinn stofnfundur Vinafélags Vinjar, og er markmið félagsins er að safna árlega þeirri upphæð sem þarf til rekstrar Vinjar, fyrir utan starfsmannahald. Í Vin eru fjórir starfsmenn og heildarkostnaður við rekstur rétt um 20 milljónir króna.

Samhliða stofnfundinum er efnt til stórmóts í skák, í tilefni Alþjóðlegs geðheilbrigðisdags. Að því stendur Skákfélag Vinjar, í samvinnu við TR, Helli, Skákakademíu Reykjavíkur og fleiri. Taflmennska hefur einmitt verið stunduð af sérlegum þrótti í Vin.

Forsvarsmaður Vinafélags Vinjar er Björn Ívar Karlsson, en margir aðrir munu koma við sögu . Meðal þeirra eru Magnús Matthíasson kennari og skákfrömuður, Styrmir Gunnarsson ritstjóri, Vigdís Grímsdóttir rithöfundur, Jón Kristjánsson fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Þráinn Bertelsson alþingismaður og fleiri.

Stofnfundurinn og skákmótið hefjast sem sé kl. 19 í kvöld í Faxafeni 12, húsnæði Taflfélags Reykjavíkur. Allir eru velkomnir, og það er veruleg ástæða til að hvetja fólk til að annaðhvort mæta í kvöld eða skrá sig síðan í félagið og taka þátt í að gera Vin kleift að hafa áfram opnar dyr fyrir það góða fólk sem þangað hefur leitað sér athvarfs og lífsgleði undanfarin tuttugu ár.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!