Laugardagur 15.10.2011 - 10:45 - FB ummæli ()

Er viljinn allt sem þarf?

Fyrir fáeinum dögum sköpuðust umræður á Facebook um það að ríkisstjórnina skorti dug til að leysa efnahagsvandann.

„Vilji er allt sem þarf!“ sögðu reiðir menn og vildu fá dugmikla og viljasterka framkvæmdamenn til að drífa í þessu!

Æjá. Ég fer alltaf undan í flæmingi þegar menn byrja að vitna til þess að vilji sé allt sem þarf.

Þetta er úr ljóði eftir Einar Benediktsson og þó hann gæti stundum orðað hlutina á tilkomumikinn hátt, þá er saga hans sjálfs eiginlega hin endanlega sönnun þess að vilji er EKKI allt sem þarf.

Því flestöll hans uppátæki fóru gersamlega út um þúfur.

Og hann valtaði með offorsi yfir fólk þegar hann var að reyna að böðlast áfram með viljann að vopni.

Hann gætti þess ekki að aðgát skyldi höfð í nærveru sálar – en sá frasi er, ótrúlegt nokk, líka úr ljóði eftir Einar Ben!

Sem sýnir hve varlegt getur verið að trúa skáldum!

En ég man alltaf eftir því þegar ég heyrði frasann um að „vilji sé allt sem þarf“ fyrst. Það var í áramótaávarpi Gunnars Thoroddsens sem var forsætisráðherra í nokkur ár um 1980.

Gunnar hóf ávarp á þessum mikilúðlegu orðum og flutti þau á dramatískan hátt – ríkisstjórn hans stóð þá frammi fyrir erfiðum efnahagsaðgerðum, sem Gunnar virtist þó telja vel viðráðanleg ef viljinn væri fyrir hendi.

En eins og í tilfelli Einars Ben sjálfs reyndist viljinn EKKI allt sem þarf.

Efnahagur landsins fór til andskotans og verðbólgan mældist um tíma meira en 100 prósent.

Æ síðan hef ég haft illan bifur á þessum frasa.

Og ekki minnkaði andúðin þegar íslenskir bankamenn tóku hugsun hans upp á sína arma.

Er nokkur búinn að gleyma þessu ódauðlega myndbandi um „sigur viljans“??

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!