Þriðjudagur 15.11.2011 - 19:47 - FB ummæli ()

Hverju fagnaði umboðsmaður barna?

Áðan heyrði ég á Rás 2 viðtal við formann Sjómannasamtakanna þar sem hann var spurður um hið viðbjóðslega dómsmál sem frá hefur verið greint í dag í fjölmiðlum, og ég hef ekki andlegt þrek til að rekja hér.

Þegar viðtalinu lauk, þá þökkuðu dagskrárgerðarmennirnir á Rás 2 fyrir, og formaður Sjómannasamtakanna sagði kurteislega:

„Það var lítið.“

Og það var rétt hjá honum. Það var mjög lítið á honum að græða í þessu viðtali.

Jú, auðvitað fordæmdi hann sjómennina, en hafði annars mjög lítið um þetta að segja.

Nú veit ég að sem betur fer, þá tíðkast svona viðbjóður eins og á þessu tiltekna skipi ekki meðal sjómanna almennt.

Vonandi er þetta einsdæmi, eða nánast einsdæmi.

En ég hefði nú samt kosið að formanni Sjómannasamtakanna væri aðeins meira niðri fyrir heldur en raun bar vitni í þessu viðtali.

Og má ég svo líka spyrja: Hverju í ósköpunum var umboðsmaður barna að FAGNA í sambandi við þann fáránlega dóm sem níðingarnir á skipinu fengu fyrir illvirki sín?

Sjá hér.

Dómurinn er reyndar óskiljanlegur.

Skilorðsbundin fangelsi fyrir að gera líf lítils drengs að hreinu helvíti í tíu daga samfleytt – því finnst mér ekki ástæða til að FAGNA.

Það sem er lofsvert í þessu máli er að drengurinn og móðir hans skuli hafa haldið því til streitu að kæra. Ég efast ekki um að allur þrýstingur hefur verið á þeim að láta málið niður falla.

Enda málið bara „grín“!!!!

En þau gáfu sig greinilega ekki, og það er líka lofsvert að lögregla og saksóknari hafi komið málinu áfram.

Það verður vonandi til þess að svona hryllingur endurtaki sig ekki.

En umboðsmaður barna ætti að hugsa sinn gang, og það mjög alvarlega, ef svona dómur þykir lofsverður á þeim bæ.

Reyndar minnist ég þess ekki að hafa heyrt hósta né stunu til umboðsmanns barna í mörg herrans ár.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!