Mánudagur 21.11.2011 - 11:12 - FB ummæli ()

Mikið verk Gísla

Ekki dettur mér í hug að við sem sátum í stjórnlagaráði höfum endilega skilað  fullkomnu verki og þaðan af síður óumdeilanlegu.

Og það er sjálfsagt og eðlilegt að fólk setji fram sínar skoðanir, athugasemdir og gagnrýni.

Ég skal á hinn bóginn viðurkenna að það fer ööööööörlítið í taugarnar á mér þegar gagnrýnendur tala um að þeir hafi uppgötvað „hnökra“ eða eitthvað alveg óttalega „vanhugsað“ í frumvarpi stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár.

Ég held ég geti nefnilega fullyrt með góðri samvisku að í frumvarpinu okkar sé afar fátt „vanhugsað“.

Ég hef til dæmis ennþá ekki heyrt neina athugasemd sem hefur komið mér á óvart – í þeim skilningi að ég hafi hugsað: „Vá, að við skyldum ekki hafa hugsað út í þetta!“

Þvert á móti verð ég æ sáttari með verk okkar eftir því sem umræðu um frumvarpið vindur fram, einmitt af því þar virðist ekki vera um „vanhugsaða hnökra“ að ræða.

Ég ítreka að í því felst ekki að allt sem við gerðum hafi verið fullkomið.

Það getur verið umdeilanlegt og það getur hugsanlega líka verið rangt, en það er ekki sett fram í fáti og vanhugsuðu fljótræði.

Þess vegna þætti mér vissulega skemmtilegra ef þeir sem hafa athugasemdir fram að færa tali ekki of yfirlætislega um „hnökra“ þó þeir séu ekki sammála einhverju sem í frumvarpi okkar stendur.

Þótt menn séu ekki sammála einhverju þýðir það nefnilega ekki að viðkomandi atriði sé vanhugsað eða sett fram af einskærri fávisku.

Gísli Tryggvason félagi í stjórnlagaráði hefur nú lokið miklu og gagnlegu verki sem er að fara yfir hverja einustu grein frumvarpsins okkar á bloggi sínu og birta þar skýringar og frekari útlistanir á því hvað liggur að baki hverri grein.

Ég mæli eindregið með að áhugasamir kynni sér þetta góða verk hans af kostgæfni. Það getur útrýmt ýmsum misskilningi um hvað fyrir okkur vakti og hvaða leiðum öðrum við höfum velt fyrir okkur.

Og þannig gert umræðuna um verk okkar gagnlegri og dýpri en ella.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!