Mánudagur 21.11.2011 - 23:35 - FB ummæli ()

Þeir sem risu upp

Guðný Ýr Jónsdóttir ekkja skáldsins Sigfúsar Daðasonar skrifaði grein í Fréttablaðið í gær þar sem hún kvartaði undan því að í nýrri bók Hannesar Hólmsteins um íslenska kommúnista væri því haldið fram að hann hefði „verið ófáanlegur“ til að mótmæla innrás Sovétríkjanna í Ungverjaland 1956.

Hún bendir á að það hafi hann einmitt gert með athugasemd í Tímariti Máls og menningar.

Sigfús var eindreginn vinstrimaður á dögum kalda stríðsins og margt í skrifum hans um pólitík og samfélagsmál í víðum skilningi bar þess merki, annaðhvort væri nú.

En hann var þó fyrst og fremst frábært skáld. Hann var reyndar mitt skáld, ekkert skáld hefur talað meir til mín um dagana, og fjöldinn allur af ljóðlínum úr kvæðum hans hafa gert sér hreiður í huga mér og skjótast þaðan fram þegar minnst varir og taka flugið.

Og þó ljóðin hans séu aldrei pólitískur áróður, þá er pólitík eða öllu heldur hugleiðingar um hugmyndir og hugmyndafræði mjög oft nærri. Og eins og stundum gerist um hin allra bestu skáld, þá sá Sigfús oft lengra og dýpra en aðrir.

Í einu ljóðanna í bókinni Hendur og orð frá 1959 fjallar hann furðu opinskátt um spillingarþjóðfélag sem verður að þjóðfélagi kúgunar og þöggunar – eða þannig má skilja það.

Það er líka um þá sem rísa upp gegn kúguninni, eins og Ungverjar gerðu 1956.

Og um alla þá sem rísa upp, jafnvel þótt við ofurefli sé að etja.

Ég ætla að taka mér það bessaleyfi að slá hér inn þetta ljóð og vona að það segi öðrum jafn mikið og það segir mér. Lesið það upphátt!

Sigfús Daðason, gjörið svo vel:

„Fyrrum var sagt: þú skalt sundra og drottna síðan –

en vér höfum nýtt og ljúfmannlegra boðorð.

Vort boðorð er stórfenglegt

einfalt og snjallt

og tært eins og sjálft dagsljósið.

Drottnun er ekki samræmanleg vorum hugsjónum:

undirokaðar þjóðir

eiga sér öruggan samastað

í hjarta voru.

Vér berum friðarorð sundruðum

og vér flytjum huggun fátækum.

Vér erum málsvarar frelsis:

frjálslyndi vort er svo yfirtak víðtækt

að það krefst frelsis handa kúgaranum

friðar handa rústunum

lífsréttar handa dauðanum.

*

Þjóð yðar er spillt

þjóð yðar er spillt í dýpsta eðli sínu.

En vér höfum einstakt lag og sjaldgæfa þolinmæði

til að leika við spillingu þjóðar yðar.

Sá leikur er oss auðveldur

en raunar ekki mörgum öðrum hentur.

Í trúnaði sagt: væri þjóð yðar ekki fullspillt

gætum vér látið henni í té

ögn af spillingu

því vér trúum á spillingu

nærum og nærumst á spillingu.

Eftir á skulum vér segja við yður með blíðu:

kæru vinir

spilling þjóðar yðar er svo róttæk

að jafnvel vér eigum fullt í fangi

að tæta um hana.

Og þá munum vér einnig sanna yður tölfræðilega

að vér en ekki þér

höfum krafta til að gæla við

hina óumflýjanlegu meðsköpuðu og óbreytanlegu spillingu.

Vér sem nú tölum eru hinir alefldu krossfarar gegn spillingunni

vér erum að sjálfsögðu persónugervingar siðferðisins.

*

Hér birtist frumleiki vor og djúpsæi

hér klýfur snilli vor björgin

innsýn vor lýsir yfir höfin.

Sjálfgerðir fjötrar

eru traustastir fjötra

Þegar vér leggjum ástfólgna vini vora í fjötra

setjum vér vanalega að skilyrði

að þeir hafi sjálfir grátbænt oss um þá

oss sýnist að sá einn háttur sé oss sæmandi

og þeim samboðinn.

Vér þurfum ekki að beita afli voru

vér sýnum ekki hnefann

(nema í ýtrustu undantekningum

og á þeim stöðum

þar sem hnefaafl vort helgast af sögulegum rétti):

þér skuluð koma skríðandi þér skuluð koma grátandi

og biðja oss að varðveita yður fyrir sjálfum yður.

Slíkur er töfrakraftur vors einfalda boðorðs

aldrei hafði fyrirrennurum vorum

lærzt jafn-vel og oss

að hálsinn sem sjálfkrafa laut undir okið

er tryggilegast beygður.

Já vér trúum á guð spillingarinnar

– en á illum stundum

nagar laumuleg hjátrú taugar vorar

og óútreiknanlegir misreikningar

læðast að söguminni voru.

Þetta eitt gengur fram af skilningi vorum:

vér trúðum guði spillingarinnar

vér sáum hann ríkja almáttugan

í sama vetfangi og þeir risu upp

og þeir risu upp.

Þetta eitt gengur fram af djúpsæi voru:

hvar höfðu þeir leynzt fyrir guði vorum

þeir sem risu upp?“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!