Miðvikudagur 30.11.2011 - 15:57 - FB ummæli ()

Ekki svarthvítur heimur

Þegar ég var svona tíu ellefu ára var ég í sveit á sumrin norður á Ströndum.

Einu sinni kom kona í heimsókn sem mér fannst vera býsna gömul en hefur líklega verið bara rétt á miðjum aldri. Hún var fjörug og skemmtileg og taldi ekki eftir sér að skeggræða við barnið um flest milli himins og jarðar.

Ég man ekki hvernig það vildi til, en einu sinni datt upp úr henni að hún teldi Ísland ekki vera sjálfstætt ríki.

Mér hnykkti svolítið við, enda var þá enn sú tíð að börn fóru prúðbúin í skrúðgöngur með íslenska fána á 17. júní til að fagna sjálfstæði landsins.

Svo ég spurði hana hvað hún ætti við, af hverju í ósköpunum við værum ekki sjálfstæð.

Og hún svaraði: „Ekki meðan hér er útlenskur her. Þá erum við ekki sjálfstæð.“

Hún átti sem sagt við ameríska herinn á Keflavíkurflugvelli.

Svo sagði hún mér nánar frá því hvað hún meinti – hún sagði mér frá sjálfstæðisbaráttunni sem hefði náð hámarki sínu á Þingvöllum 17. júní 1944 og hún sagði mér frá gleðinni sem hefði hríslast um brjóst sitt og annarra Íslendinga þegar fáninn okkar var dreginn að húni í fyrsta sinn.

Því þar var hún stödd og söng þjóðsönginn af raust.

Og hún sagði mér frá þeim vonum sem hefðu gegnsýrt sérhvern Íslending þegar sjálfstæði og frelsi voru fengin.

Svo dimmdi yfir svip hennar þegar hún sagði mér frá inngöngunni í hernaðarbandalagið NATO, sem flestir máttu vita að myndi óhjákvæmilega hafa í för með sér að hingað kæmi aftur útlenskur her.

Hún sagði mér frá því að hún hefði ásamt stórum hópi farið niður á Austurvöll til að mótmæla inngöngunni í NATO 30. mars 1949, en allt hefði komið fyrir ekki. Kröfur um þjóðaratkvæðagreiðslu voru hunsaðar, lögreglan umkringdi Alþingishúsið, sumir köstuðu grjóti og það kom til óeirða, sem enduðu með því að mótmælendur voru hraktir brott.

Og ég get svo svarið það að það voru tár í augum hennar þegar hún endurtók: „Við erum ekki sjálfstætt ríki meðan hér er útlenskt herlið. Á þessum degi var sjálfstæði okkar svívirt.“

Mér varð hugsað til þessarar konu þegar herinn fór fyrir nokkrum árum, ég veit ekki hvort hún var enn á lífi en vafalaust hefur brottförin glatt hana.

Og mér varð líka hugsað til hennar um daginn þegar ég las kafla um inngöngu Íslands í NATO í bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, Íslenskir kommúnistar 1918-1998.

Ég ætla ekki að skera upp einhverja herör gegn bók Hannesar. Að mörgu leyti er hún alveg prýðileg, hún rekur söguna á greinargóðan og skilmerkilegan hátt og Hannes hefur víða leitað fanga. Sjálfsagt verða fræðimenn ekki endilega sammála um túlkun höfundar á því hversu skeinuhættir kommúnistar voru íslensku samfélagi, en það er þá bara umræða sem fer fram í rólegheitum.

Og það er fullt af skemmtilegum myndum í bókinni, einkum frá fyrstu áratugum 20. aldar.

Og ég skil ekki þá gagnrýni að Hannes megi ekki skrifa um kommúnismann þó hann hafi hamast gegn honum alla sína tíð.

Einhverjir hafa nefnilega sagt sem svo að Hannesi væri skömminni nær nú eftir hrunið að skrifa um kapítalismann, ekki kommúnismann.

En það er nær náttúrlega ekki nokkurri átt. Það á aldrei að reyna að segja fólki fyrir hvað það á eða má skrifa um. Og sumir gætu jafnvel sagt að Hannes hefði nú þegar skrifað alltof mikið um kapítalismann – sjá til dæmis hér!

Nú – í seinni hluta bókarinnar þykir mér Hannes vissulega fara út í ansi mikinn sparðatíning þegar hann leitar uppi lofsamleg ummæli íslenskra vinstrimanna um foringja kommúnista og þau lönd þar sem þeir réðu ríkjum. Það má alveg halda þessu til haga, en þetta verður svolítið staglkennt og dregur úr flæði bókarinnar sem fram að því hafði verið ágætt.

Sum ummælin sem Hannes þefar uppi eru vissulega ansi vandræðaleg, en það er þá bara svoleiðis. Sumt er kannski ekki alveg rétt hjá Hannesi – til dæmis spruttu um daginn blaða- og bloggskrif um þá fullyrðingu hans að Sigfús Daðason skáld hefði „verið ófáanlegur“ til að gagnrýna innrás Sovétríkjanna í Ungverjaland, en það reyndist rangt.

Hins vegar verður að viðurkennast að gagnrýni hins góða skálds var því miður ekki beinskeyttari en svo að þetta var svona næstum því rétt hjá Hannesi.

Og í framhaldi af upptalningu Hannesar á hrósyrðum vinstrimanna um erlenda kommúnistaleiðtoga, þá finnst mér óneitanlega svolítið billegt af honum að nefna ekki einu sinni þó nokkur tilfelli þar sem Matthías Johannessen ritstjóri Morgunblaðsins fór fögrum orðum um Maó formann í Kína, jafnvel eftir að glæpir hans hefðu átt að vera orðnir öllum ljósir.

Ég meina ekki að þetta hefði átt að gera til að spæla Matthías, heldur hefði aðdáun Moggaritstjórans á kommúnistaleiðtoganum í Kína getað orðið Hannesi tilefni til að fjalla um að jafnvel á myrkustu dögum kalda stríðsins, þá hefði heimurinn verið ögn flóknari en áróðursmeistarar hinna svarthvítu stórvelda vildu vera láta.

Mantran „hægrimenn góðir, vinstrimenn vondir“ (eða öfugt) hefði stundum ekki dugað öllum!

En það sem ég vildi sagt hafa – og það sem varð til þess að ég hugsaði til konunnar sem ég hitti á Ströndum – það var kaflinn „Árás á Alþingi“ í bók Hannesar.

Einmitt af því að bók Hannesar er í rauninni alveg ágætt yfirlitsrit um vinstrihreyfinguna framan af 20. öld, þá fannst mér sá kafli þeim mun ergilegri.

Því ef bókin verður lesin sem heimild um þennan part sögunnar á 20. öld, þá vantar konuna á Ströndum alveg í þennan kafla.

Í kaflanum kemur aðeins fram að mannfjöldi hafi safnast saman á Austurvelli samkvæmt fyrirskipun leiðtoga sósíalista og kommúnista sem hafi ætlað að hindra inngönguna með valdi. Síðan er einvörðungu talað um „upphlaupsmenn“ og „óeirðaseggi“ og skal ekkert dregið úr því – vissulega varð það þarna upphlaup, grjóti kastað og ofbeldi beitt – en reyndar af beggja hálfu.

En í þeirri heimsmynd sem þarna er dregin upp er ekkert rúm fyrir konuna af Ströndum, og félaga hennar. Hún var enginn kommúnisti. Þetta var háborgaraleg dama, og hefur áreiðanlega kosið Sjálfstæðisflokkinn alla sína tíð, ef andstaða við herinn hefur þá ekki komið í veg fyrir það.

En hún mætti á Austurvöll, ekki að fyrirskipan kommúnista og alveg áreiðanlega ekki heldur til að gera „árás á Alþingi“. Hún og vinir hennar höfðu áhyggjur af hinu nýfengna sjálfstæði Íslands – þau töldu að það væri í hættu með þátttöku í hernaðarbandalaginu.

Hvort þau höfðu rétt fyrir sér eða ekki, það skiptir ekki öllu máli.

En þau eiga alla vega betra skilið en að enda uppi sem andlitslaus massi „óeirðaseggja“ sem var mættur á Austurvöll af eintómri hlýðni við alheimskommúnismann.

Jafnvel á Austurvelli 30. mars 1949 var heimurinn ekki svarthvítur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!