Fimmtudagur 01.12.2011 - 14:08 - FB ummæli ()

Tveir strákar

Menn tala um að nú séu góð bókajól.

(Ætli það hugtak sé til einhvers staðar annars staðar en hér? Hvernig er bókaútgáfa í Færeyjum?)

Það eru að minnsta kosti óvenju margar hnýsilegar skáldsögur á ferð.

Ég held að engum blöðum sé um að fletta að Konan við 1.000 gráður sé veigamesta og djúpskreiðasta skáldsaga Hallgríms Helgasonar.

Ef málið snýst um hvort megi stytta texta hans, þá finnst mér það, já, það má stytta á stöku stað svo hinir best skrifuðu kaflar og hinir allra fimlegustu orðasprettir fái notið sín enn betur – en orðgnóttin dregur þó ekki úr spennu frásagnarinnar.

Þó það sé kannski bjánalegt að segja það um mann sem er svosem ekkert kornungur lengur, þá finnst mér Hallgrímur sýna með þessari bók að hann sé ört vaxandi höfundur! Persónulýsingar hans í þessari bók taka fram því sem ég hef áður séð í bókum hans.

Guðmundur Andri Thorsson gefur út einstaklega fallega bók sem heitir Valeyrarvalsinn – þetta er safn samtengdra smásagna, sem lýsa mannlífi í sjávarþorpi.

Hann er eflaust orðinn hundleiður á lofi og prísi um stíl sinn – og það má þá koma fram að mér finnst stíllinn ekki það besta við bækur Guðmundar Andra, heldur samlíðan hans með Ástu Sóllilju á jörðinni.

Mannskilningurinn altso.

Sem hann málar að vísu svo fallega upp með stílnum.

Mjög eftirminnilegt verk, Valeyrarvalsinn – það er örugglega mjög úthugsað, samspil sagnanna innbyrðis, vísanir í tónlist, etc., en bestur er hugurinn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!