Mánudagur 12.12.2011 - 14:38 - FB ummæli ()

Verstu hrunin

Átjánda öldin var einhver merkilegasti tími Íslandssögunnar, en það kemur reyndar ekki til af góðu einu.

Sjaldan hafa fleiri og verri hrun dunið yfir íslensku þjóðina á einni öld.

Litla ísöldn hélt landsmönnum enn í heljargreipum, svo veðurfar var mun verra en við myndum nú telja bærilegt.

Miklar farsóttir gengu yfir – verst var sjálf Stóra bóla í byrjun aldarinnar.

Á ofanverðri öldinni gaus svo í Lakagígum sem hafði í för með sér móðuharðindin og allan þann ólýsanlega hrylling.

Jafnframt þurftu landsmenn lengst af að þola illt stjórnarfar, makráða og spillta yfirstétt og gífurlega misskiptingu auðs.

En á þessari öld voru líka á kreiki allskonar framfaramenn sem reyndu að vísa hinum illa beygðu landsmönnum leiðina til ögn skárri lífshátta.

Nú fyrir jólin koma út bækur um tvo þeirra – en reyndar mjög ólík verk.

Bókmenntafélagið gefur út bók um Ólaf Stefánsson stiftamtmann eftir Jón Sigurðsson. Þetta er gagnlegt og fróðlegt og vel skrifað kver, sem maður vildi þó helst að væri töluvert lengra – svo meira rúm gæfist til að lýsa samtíma Ólafs.

Ólafur varð ættfaðir Stephensenanna, sem voru mestir valdamenn á Íslandi í hátt í öld eftir dag Ólafs. Sonur Ólafs var t.d. Magnús Stephensen etasráð, sem var spaugilega hégómagjarn, eins og margir hinna fyrstu Stephensena, en hann var líka ósvikinn framfaramaður á mörgum sviðum.

Ólafur sjálfur var umdeildur, og sat að lokum uppi með ekki alltof góðan orðstír. Í bók Jóns er reynt að skakka leikinn.

Hin bókin er Gestakomur í Sauðlauksdal eftir Sölva Björn Sigurðsson, verk allt annars eðlis. Það er skáldsaga um framfaramanninn séra Björn í Sauðlauksdal, sem reyndi að kenna Íslendingum að rækta kartöflur og fleira hollt af því tagi.

Sölvi skrifar af miklum tilþrifum, og tekst mjög skemmtilega að draga upp mynd af hugsun og anda átjándu aldarinnar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!