Miðvikudagur 04.01.2012 - 12:55 - FB ummæli ()

Svokallaðir húmoristar?

Forystumenn Sjálfstæðisflokksins eru skrýtnir.

Þeir voru við stjórnvölinn á Íslandi samfleytt frá 1991 og undir þeirra stjórn varð fyrst það „góðæri“ sem reyndist vera bóla, og síðar hrunið.

Og meðan þeir stýrðu landinu spratt upp allskonar illgresi spillingar og krókamaks.

Þetta ættu sjálfstæðismenn að viðurkenna.

Við getum aðhyllst hitt og þetta úr stefnu Sjálfstæðisflokksins og kunnað að meta margt og mikið sem flokksmenn hafa gert gegnum tíðina, en þetta er nú samt staðreynd og það þýðir ekki fyrir forystumenn Sjálfstæðisflokksins að láta eins og það sé bara eintómur áróður illra andstæðinga þegar bent er á hvar flokknum skjöplaðist á siðferðissviðinu síðustu tvo áratugina.

En það virðist vera orðin opinber stefna forystumanna Sjálfstæðisflokksins.

Láta eins og ekkert hafi gerst.

Tala um „hið svokallaða hrun“.

Sem svo hafi bara verið vondum útlendingum að kenna – og svo Samfylkingunni!

Þar eru sjálfstæðismenn núna á vegi staddir í uppgjöri við sjálfa sig að þeir telja sér sæma að verða móðgaðir þegar gárungar henda gaman að þeim í Áramótaskaupinu.

Sjá hér.

Ja, hugsa sér!

Íslenskt samfélag í sárum eftir 20 ára stjórnartíð þeirra – og svo verða þeir ægilega sárir þegar þeir fá á baukinn í Áramótaskaupinu!

Horfast í augu við hlutina? – neeeeeeei, það eru bara vondir húmoristar að ráðast á flokkinn góða.

Örugglega svokallaðir húmoristar.

En ætli sé þá ekki best að rifja upp atriðið þeirra í Skaupinu sem oftast?

Athugasemd, vegna upphafsins á atriði Áramótaskaupsins – það er náttúrlega ekki rétt að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafi fengið einhverjar stórar summur afskrifaðar eins og þarna er fullyrt, heldur er þar í raun verið að vísa til eiginmanns hennar sem starfaði í einum hinna föllnu banka. Rétt skal að sjálfsögðu vera rétt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!