Laugardagur 07.01.2012 - 22:12 - FB ummæli ()

Dýpra oní skotgrafirnar

Eyjan skýrir hér frá því að von sé á vantrauststillögu gegn ríkisstjórninni þegar þing kemur saman.

Nú er það vitaskuld í alla staði heimilt að treysta ekki þessari ríkisstjórn.

En stöðugar vantrauststillögur finnst mér vera að verða skot út í loftið.

Væntanlega stendur stjórnin af sér vantrauststillöguna, en naumlega þó. Og hverju verðum við þá bættari?

Svosem engu, nema að í ákveðinn tíma á eftir grafa stjórnmálamenn sig dýpra oní skotgrafir sínar – í stað þess að mætast á einskis manns landinu og reyna að vinna saman.

Stjórnlagaráð leggur til breytingu á reglum um vantraust sem ég held að mikil bót væri að.

Samkvæmt tillögu stjórnlagaráðs verður ekki hægt að leggja fram vantrauststillögu á forsætisráðherra nema jafnframt fylgi sögunni hver vantraustsmenn telji að ætti að taka við.

Þarna gengum við stjórnlagaráðsmenn í smiðju til ýmissa gamalreyndra lýðræðisríkja í nágrannalöndum okkar.

Hugmyndin er sú að vantraust verði ekki lagt fram nema í fullri alvöru.

Ef vantraustsmenn hafa tilbúinn kandídat sem þeir telja að minnsta kosti einhverjar líkur á að gæti sest í stól forsætisráðherra.

Vantrauststillögur væru sem sé ekki marklitlar Morfís-æfingar, heldur alvöru tilraunir til að breyta um stjórn og stjórnarstefnu.

Þessi tillaga, eins og margar fleiri í stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs, held ég væri mjög til bóta.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!