Miðvikudagur 08.02.2012 - 11:51 - FB ummæli ()

Eru engir speglar í innanríkisráðuneytinu?

Það sem ég dáðist að Helga Seljan Kastljóssmanni í gærkvöldi þegar hann tók viðtalið við Ögmund Jónasson.

Hann gerði allt rétt – var vel undirbúinn, hafði ákveðnar spurningar, vissi hvert hann ætlaði og hvikaði ekki frá því.

Og þótt hann mætti þarna svo vel smurðum vélbyssukjafti að furðu sætti, þá hélt hann ró sinni, virðingu og sóma.

Lét hvorki slá sig út af laginu, eins og þó virtist augljóslega ætlun viðmælandans, né fyrtist við.

Gott góurinn!

En Ögmundur hins vegar … æ, Ögmundur!

Í mörg herrans ár var Ögmundur Jónasson uppáhaldsþingmaðurinn minn.

Ég var kannski ekki nærri alltaf sammála honum um allt, en mér fannst hann hreinskiptinn og ærlegur og baráttuglaður.

Þau stefnumál hans sem ég var helst sammála fannst mér bera vitni um djúpa réttlætiskennd og sannfæringu – og jafnvel þau sem ég var helst ósammála fannst mér samt alltaf eiga mjög vel skilið að koma fram.

Mér fannst því í sannleika sagt mikið tilhlökkunarefni þegar þessi hugdjarfi baráttuþjarkur réttlætisins settist í ríkisstjórn.

En núna … æ, ég veit það ekki.

Skyldu engir speglar vera í innanríkisráðuneytinu?

Það mætti ætla. En ef þeir eru þar þrátt fyrir allt, þá myndi ég ráðleggja Ögmundi að nema staðar við einn þeirra.

Og horfast djúpt í augu við sjálfan sig.

Vita hvort hugsanlega geti verið að einhvers staðar djúpt í augnkrókunum leynist merki um að hann kynni að hafa smitast af því sem Gagga heitin Lund kallaði svo skemmtilega máttsýki.

Það er alla vega eins og eitthvað hafi komið fyrir hann einhvers staðar á leiðinni.

Núna finnst honum mikilvægara að vernda möguleg mannréttindi eins fyrrverandi valdamanns en að vernda þau mannréttindi íslensku þjóðarinnar að fá að vita hvort sjálfur forsætisráðherrann kunni að hafa gerst brotlegur við lög um ráðherraábyrgð.

Núna fimbulfambar hann og alhæfir um ferðafíkn opinberra starfsmanna í þeim tilvikum sem það hentar í hans pólitísku baráttu. Hann baðst svo að vísu afsökunar á því, en hinn gamli réttsýni Ögmundur hefði aldrei látið sér slíkt fimbulfamb um munn fara.

Og þegar hann er kallaður í sjónvarpið til að svara mjög réttmætum spurningum um gríðarlegt tap lífeyrissjóðanna, þá grípur hann til gamalreyndra vopna sem valdhafar allra tíma hafa áður beitt.

Ögmundur Jónasson á að vita það manna best, að það eina sem íslenska þjóðin þarf á að halda núna, eru valdhafar sem geta svarað af einlægni, hreinskipti og umfram allt auðmýkt – valdhafar sem ekki snúast af offorsi gegn þeim sem spyrja spurninga, og ekki sýna yfirgang þeim sem gagnrýna.

Valdhafar sem eru tilbúnir til að hugleiða að minnsta kosti hvort þeir beri einhverja sök á einhverju – en hrökkvi ekki bara strax í baklás: Nei, ekkert getur hugsanlega verið mér að kenna, allir hinir bera sökina, ég er svo góður.

Og sem gamall fréttamaður á Ögmundur að vita að það er hlutverk fjölmiðla að spyrja ágengnra spurninga um það sem menn vita ekki – en það er ekki hlutverk fjölmiðla að leyfa valdamönnum að mumpa ánægjulega um það sem allir vita nú þegar.

Það er meira að segja allt í lagi þó spurningar séu vitlausar og ósanngjarnar (sem þær þó alls ekki voru í þessu tilfelli) – valdamaðurinn hefur enga heimild til að snúast með hroka gegn fréttamanninum og gera úr honum einhvers konar persónulegan andstæðing sem þarf að koma á kné.

En þetta gerði Ögmundur í viðtalinu í gær – mér til óblandinnar sorgar.

Hann reyndi að taka yfir viðtalið. Setja ofan í við fréttamanninn. Skjóta sendiboðann.

Hann skammaði meira að segja Helga Seljan fyrir að voga sér að spyrja sig svona spurninga – hann sem alltaf hefði barist af svo mikilli hörku gegn alheimskapítalismanum!

Æ, Ögmundur, æ!

En kannski gerir maður bara of miklar kröfur til hans.

Af því hann var jú svo réttsýnn og rogginn.

Og af því hann er gamall fréttamaður, eins og alltaf er tekið fram.

Kannski skiptir sú staðreynd minna máli en fjölmiðlamenn vilja vera láta, þegar þeir reyna að hugsa sér Ögmund sem „einn af þeim“ í einhverjum skilningi.

Því hann hljóti að skilja þá og hlutverk þeirra og þarfir betur en flestir aðrir.

Hann var vissulega fréttamaður í áratug fyrir um 30 árum.

En miklu lengur hefur hann verið valdamaður á verkalýðskontór, og svo alþingismaður í sextán ár.

Og nú er eins og hann hafi verið ráðherra svo óóóóóógurlega lengi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!