Miðvikudagur 08.02.2012 - 00:58 - FB ummæli ()

Hættum við!

Eina réttlætingin fyrir því að taka þátt í Evróvisjón sönglagakeppninni er að þetta sé græskulaus saklaus skemmtun.

Því menningarlegt gildi keppninnar er vitanlega ekki mikið.

En græskulaus saklaus skemmtun getur alveg átt rétt á sér – jafnvel þó hún kosti stundum skildinginn, skildinginn sem í raun væri rökréttara að nota í eitthvað gagnlegra.

En þegar þessi græskulausa saklausa skemmtun er hvorki græskulaus né saklaus, þá er engin ástæða til að vera með.

Og það má kveða sterkar að orði – þá eigum við bara alls ekki að vera með.

Páll Óskar Hjálmtýsson söngvari og Evróvisjón gúrú hefur tekið af skarið með hvatningu til Páls Magnússonar útvarpsstjóra um að draga Ísland út úr þessari keppni, því ekki verður betur séð en yfirvöld í Aserbædjan fremji skelfileg mannréttindabrot í því skyni að koma keppninni á koppinn.

Látum vera þótt keppendur í sönglagakeppninni láti sig stundum litlu varða ýmislegt misjafnt sem almennt kann að vera á seyði í löndunum þar sem keppnin fer fram.

Það er ekki gott við slíkt að eiga.

En þegar keppnin sjálf verður beinlínis átylla mannréttindabrota, þá er ástæða til að staldra við – eins og Páll Óskar hefur nú gert.

Pistill hans af þessu tilefni er hér. Þar segir hann líka frá framferði stjórnarinnar í Aserbædjan.

Ég tek undir hvert orð hjá Páli Óskari.

Nú gildir að hafa bein í nefinu, og standast þann þrýsting að sópa óþægilegum málum undir teppið.

Geta keppendur Íslands stigið á svið í Bakú höfuðborg Aserbædjan vitandi að fátækt fólk var rekið á hrottalegan hátt frá heimilum sínum til að reisa glitrandi sviðið?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!