Miðvikudagur 07.03.2012 - 16:45 - FB ummæli ()

Vill einhver hafa samband við Mervyn King?

Hérna er að finna mjög góða samantekt Ingimars Karls Helgasonar á einu gríðarlega mikilvægu atriði í aðdraganda hrunsins.

Mervyn King seðlabankastjóri Bretlands neitaði Íslendingum um peníng en bauð einlæglega fram aðstoð sína við að vinda ofan af íslenska bankaerfinu í apríl 2008.

Í bréfi til Davíðs Oddssonar.

Davíð afþakkaði aðstoðina.

Hann sagði að íslensku bankarnir væru vel fjármagnaðir en ættu við ímyndarvanda að stríða.

Ímyndarvanda!!

Orðrétt: „The Icelandic banks are well capitalised but they are dealing with a problem of perception.“

Á sama tíma og hann segist hafa verið eins og landafjandi út um allt að vara við og reyna að finna ráð til björgunar.

„Æ, nei takk.“

Aðstoð frá Seðlabanka Bretlands á þessum tíma hefði vafalítið ekki getað komið í veg fyrir hrun bankanna að öllu leyti, en hefði getað mildað áhrif þess stórkostlega.

Fyrir íslensku þjóðina.

Það hefði ekki orðið neitt Icesave-mál; það má eiginlega fullyrða.

En Davíð afþakkaði.

Mjög er óljóst – þrátt fyrir skýrslutöku fyrir landsdómi – hvort Geir Haarde fékk eitthvað að koma nálægt þeirri ákvörðun.

Þetta atriði var það merkilegasta sem um var fjallað í vitnaleiðslunni yfir Davíð Oddssyni fyrir landsdómi.

En hlaut litla athygli.

Allir voru svo önnum kafnir við að skella sér á lær yfir stórfenglegri hnyttni Davíðs (les=lélegum fimmaurabrandara) um faðerni Björgólfs Thors.

Ahahahahaha! Je, alltaf jafn flottur sá gamli!

Úff!

Og nú er Hannes Hólmsteinn kominn í rústabjörgunina og segir að tilboð breska seðlabankastjórans hafi verið „kurteisishjal“.

Vill einhver fjölmiðill gera mér þann greiða að hafa samband við Mervyn King og spyrja hann?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!