Sunnudagur 13.05.2012 - 18:23 - FB ummæli ()

Að búa til andstæðinga

Ég skrifaði um daginn pistil hér á Eyjuna þar sem ég agnúaðist út í sægreifaauglýsingarnar alræmdu.

Sjá hér.

Þessi pistill hefur orðið tilefni nokkurra umræðna á vef Eyjafrétta í Vestmannaeyjum.

Í þágu umræðunnar er kannski ástæða til að halda þeim til haga.

Þessar umræður eru kannski lýsandi fyrir bæði mínar skoðanir og annarra.

Sigursveinn Þórðarson skrifaði þetta hér og sakaði mig um að vilja stjórna því hverjir mættu hafa skoðun:

 

„Síðustu daga hafa auglýsingar frá aðilum sem eru á móti stórhættulegu kvótakerfi núverandi ríkisstjórnar verið áberandi á öldum ljósvakans. Um leið hafa skæruliðar ríkisstjórnarinnar sett sig í stellingar og hrópað hversu ógeðfelldar auglýsingarnar eru.

 

Allir sem þar koma fram hljóta að vera á launaskrá LÍÚ. Vibbalið …

 

Hrópherrar Jóhönnu eru duglegir að benda á þetta og setja alla undir sama hatt. Hvort sem um er að ræða verkstjóra í Grindavík eða sjómann að vestan. Allir hljóta þeir/þau að tala máli mafíunnar. Enginn hefur sjálfstæða skoðun …. nema þau.

 

Einn af þeim sem hefur gengisfellt sig hvað mest þegar kemur að pólitískum skrifum er Illugi Jökulsson. Hann hefur manna harðast gagnrýnt „málþóf“ sjálfstæðisfólks á þingi undanfarna daga.

 

Nýverið var birtur listi yfir lengstu ræður á Alþingi síðustu tvo áratugi. Þingmenn (núverandi og fyrrverandi) Vinstri grænna og Samfylkingar raða sér þar í efstu sætin, töluðu jafnvel í yfir 5 klukkustundir!  Jóhanna forsætisráðherra var í topp 20 með ræðu upp á rúmar 4 klukkustundir. Þetta sýnir þá sorglegu staðreynd að það fólk/flokkar sem hneykslast hvað mest á þeirri „taktík“ sem nú er í gangi er í raun það fólk sem fann upp málþóf. Þá vaknar upp sú spurning hver er sorglegur í þessum efnum?

 

Nú hefur Illugi skrifað nýja grein til stuðnings „sínu“ fólki en um leið gerir hann lítið úr öðru fólki. Talar um að það jaðri við siðleysi að fólk segi sína skoðun. Hann lætur að því liggja að þeir sem tala hafi ekki sjálfstæða skoðun, heldur sé allt matað ofan í þau. Og jafnvel hefur fólk fengið greitt fyrir að segja það sem sagt er! Um er að ræða kvótafrumvarpið.

 

Ömurlegt til þess að hugsa að Illugi Jökulsson hafi ekki meiri trú á fólkinu í landinu en svo að fólk þurfi að fá borgað fyrir að tala …“

 

Ég ákvað að svara þessu kurteislega, svona:

 

„Sæll Sigursveinn. Fáeinar athugasemdir.

 

Já, ég hef gagnrýnt málþóf sjálfstæðismanna nú. Listi yfir lengstu ræður á Alþingi síðustu 20 árin kemur því máli ekkert við. Það er til hugtak í rökræðu sem nær yfir þá billegu leið að sé einhver gagnrýndur, þá hrópi hann: „Iss, þú eða þið eruð ekkert skárri!“

 

Ég man ekki hugtakið í augnablikinu.

 

Í öðru lagi, ég hef aldrei og hvergi „gert lítið úr fólki“ í sambandi við auglýsingarnar frá sægreifunum. Ég hef allra síst látið að því liggja að það jaðri við siðleysi að fólk „segi sína skoðun“.

 

Ég vakti athygli á að fólkið sem kemur fram í auglýsingum sægreifanna er fólk sem á lífsviðurværi sitt undir einmitt þeim sömu sægreifum.

 

Að sægreifarnir etji einmitt því fólki fram í auglýsingum, það er það sem jaðrar við (svo kurteislega sé að orði komist) siðleysi – ekki að fólkið lýsi skoðunum sínum.

 

Ef menn ætla í rökræðu, dugir ekki að breyta orðum þess sem maður ætlar að rökræða við og fara svo að glíma við það sem maður sjálfur bjó til, en ekki hitt sem „mótstöðumaðurinn“ sagði í raun og veru.

 

Með bestu kveðju …“

 

Þessu svaraði Kristján Ingi Sigurðsson, svona:

 

„Auðvitað kemur það málinu við hvort þú ákveður bara að gagnrýna einn stjórnmálaflokk fyrir eitthvað sem annar flokkur hefur sjálfur gert í áratugi. Stjórnmálaflokkar vinna bara fyrir sína eigin hagsmuni, það hefur ekkert breyst sama hver er við völd.

 

Nú hef ég ekkert sérstakt álit á þessum auglýsingum en eitthvað þarf að vekja þessa þjóð til lífsins að það eru ekki bara sjávarútvegsfyrirtæki sem njóta góðs af auðlindum okkar í sjónum. Það eru allir á landinu í formi skatta og útflutningstekna. Þú passar þó að nota orðið sægreifi svona 20 sinnum í hverjum pistli í tilraun í að skíta út greinina, en ekki sérðu mig kalla þig listamannaspíru-afætu?

 

Að lokum getur þú með góðri samvisku sagt að þú hafir aldrei þegið nein laun í einhverskonar formi við skrif þín fyrir vinstri „öflin“? Ef svo er hver er munurinn á því og þessa fólks sem kýs að tjá sig um lífviðurværi sitt og það sem þú gerir ?“

 

Og fyrst ég var byrjaður að svara, þá fannst ég þurfa að svara þessu líka.

 

Það svar er hér:

 

„Ef ég væri ekki einstaklega gæflyndur maður, þá liggur við að ég móðgaðist. En ég geri nú samt ekki.

 

Hins vegar verð ég sóma míns vegna að benda þér á villur þíns vegar. Í fyrsta lagi – það er óskaplega billeg leið að hlaupa alltaf til og gagnrýna gagnrýnandann.

 

Ég held að þú hafir ekki minnstu hugmynd um hvort ég hef bara gagnrýnt einn stjórnmálaflokk fyrir málþóf. Þá skaltu heldur ekki fullyrða það sem þú veist ekkert um.

 

Ég hef flutt pistla af ýmsu tagi í [meira en] 20 ár og alltaf og ævinlega gagnrýnt slæm vinnubrögð á Alþingi, þar með talið málþóf.

 

(Hitt er annað mál að málþófi hefur aldrei verið beitt af annarri eins hörku og núna. Það hefur verið notað í einstökum málum, af sérstökum ástæðum í hvert sinn, og tekur þá fáeina daga – það hefur aldrei verið beinlínis uppleggið í þingstörfum neins flokks, fyrr en Sjálfstæðisflokksins núna.)

 

Í öðru lagi, viltu vera svo elskulegur að gera mér ekki upp hvatir? Ég nota ekki orðið „sægreifi“ „í tilraun til að skíta út greina“. Ef þú telur svo vera, skaltu finna þeim orðum stað, takk fyrir.

 

Af hverju í veröldinni ætti ég að „skíta út greinina“?

 

Það er mjög mikil þörf á að bæta „umræðuna“ hér á landi, og eitt það gagnlegasta sem hægt væri að gera væri ef fólk hætti að búa sér til andstæðinga – það er að segja leggja mótstöðumönnum sínum orð í munn, og slást svo við ímyndaða andskota, í stað þess að takast með rökum á við það sem mótstöðumaðurinn segir.

 

Vitanlega ber ég fyllstu virðingu fyrir öllum sem í sjávarútvegi starfa, bæði sjómönnum og útgerðarmönnum og þeim sem í landi starfa.

 

Annað hvort væri nú – þetta er jú undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar í ýmsum skilningi. Og ég skal trúa þér fyrir því að ég er hreint enginn sérfræðingur í hinum allra fínustu blæbrigðum kvótakerfisins núgildandi, né heldur í frumvörpum ríkisstjórnarinnar.

 

En það sem ég hef þó alveg á hreinu, og mun berjast gegn fram í rauðan dauðann, það er að rúmlega 70 útgerðarmenn [sjá hér] geti litið á fiskinn í sjónum nánast sem sína eign og ekki borgað af honum sanngjarna rentu til samfélagsins, sem þeir eiga þó að vera sprottnir úr.

 

Og þegar reynt er að breyta því, þá nota þeir milljarðana „sína“ til að reka hatramma auglýsingaherferð þar sem allir sem eru annarrar skoðunar eru sakaðir um að vilja ganga af sjómönnum dauðum!

 

Brandarann þinn um ég megi þakka fyrir að vera ekki kallaður „listamannaafæta“ sendi ég til föðurhúsanna – með skömm.

 

Í fyrsta lagi hef ég ekki fengið nein listamannalaun (kannski 6 mánuði fyrir 20 árum, mig minnir það en er ekki alveg viss), og í öðru lagi finnst mér ekkert voðalega vel til fundið að líkja saman listamanni sem kann að þiggja algjör lágmarkslaun frá samfélaginu öðruhvoru og sægreifa sem rakar saman milljónum og milljörðum á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

 

Og loks – já, ég get með mjög góðri samvisku sagt að ég hafi aldrei þegið nein laun í einhvers konar formi „við skrif mín fyrir vinstri „öflin“.“ Þetta er svo billeg pilla að það er eiginlega sorglegt.“

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!