Föstudagur 01.03.2013 - 14:36 - FB ummæli ()

Þúsund lemúrar: Castro fær sér pylsu í New York

Veftímaritið Lemúrinn hóf göngu sína 8. október 2011.

Það var óumdeilanlega merkasti atburðurinn þann daginn.

Að minnsta kosti er eini atburðurinn frá þessum degi sem hefur ratað inn á alfræðiritið Wikipedíu að þá hafi Brendan nokkur Dolan unnið eitthvert afrek í heimsmeistarakeppninni í pílukasti sem ég kann ekki að skýra.

Fyrir Brendan Dolan var það ábyggilega mjög merkilegt en fyrir okkur hin er fæðing Lemúrsins á sama degi óneitanlega mun gleðilegri viðburður.

Það voru Vera dóttir mín og Helgi Hrafn Guðmundsson sem stofnuðu Lemúrinn og ritstýra honum, og hafa reyndar að undanförnu fengið nokkra knáa liðsmenn sér til styrktar.

Á Lemúrnum ægir öllu saman, eins og í lífinu sjálfu, en þar er að finna fróðleik um allt milli himins og jarðar.

Um furður og fegurð heimsins og forna tíma og fáránleika og ýmislegt fleira sem ekki byrjar á eff.

Hér er forsíða Lemúrsins – hægra megin eru nokkrar vinsælar greinar og efni þeirra sýna vel hve fjölbreytt efni er að finna á síðunni.

Lemúrinn hefur ekki síst helgað sig birtingu á frábærum ljósmyndum og ljósmyndaseríum.

Hérna eru stórmerkilegar myndir hollensks ljósmyndara frá Íslandi frá því í byrjun fjórða áratugarins, hérna eru umhugsunarverðar myndir frá Reykjavík áttunda áratugarins, og hérna er svo makalaus myndasería frá Taívan.

Því er ég að nefna þetta að nú rétt í þessu var að birtast á Lemúrnum þúsundasta greinin frá því þennan eftirminnilega októberdag.

Og hún er mjög dæmigerð fyrir þetta bráðskemmtilega veftímarit.

Falleg mynd af Fídel Castro að fá sér pylsu í New York.

Ég hvet fólk til að kynna sér Lemúrinn reglulega – þar er alltaf eitthvað skemmtilegt á seyði.

Svo má geta þess að á bókamarkaðinum sem nú er hafinn í Perlunni er meðal annars að finna Svörtu bókina eftir þau Veru og Helga Hrafn þar sem þau fara sínum skemmtilegu höndum um allskonar voðaverk úr sögunni, fornri og nýrri. Þar vantar nú ekki fjörið!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!