Sunnudagur 03.03.2013 - 20:01 - FB ummæli ()

Verum meira eins og Sviss!

Í nýju stjórnarskránni, sem Alþingi afgreiðir vonandi innan skamms (þótt auðvitað eigi síðan eftir að setja aftan við hana endanlegan punkt á næsta þingi), þar eru ákvæði um rétt þjóðarinnar til að greiða atkvæði um umdeild lög – og líka ákvæði um að þjóðin sjálf (eða hlutar hennar) geti haft frumkvæði að nýrri lagasetningu.

Þetta eru sem sagt hugmyndir um stóraukið „beint lýðræði“ eins og það er kallað.

Ótrúlegt nokk, þá finnst mörgum þetta mjög hættulegt.

Sem allra minnstar breytingar eigi að gera á okkar gamalreynda fulltrúalýðræði – það geti beinlínis endað með ósköpum ef fólkið sjálft komi of mikið nálægt lagasetningu.

Jesús minn!

Úff – það geti endað með því að Ísland verði eins og Sviss – eins og það sé nú hættulegt!

Í fréttatíma Ríkisútvarpsins áðan var dæmisaga af beina lýðræðinu í Sviss.

Lagt var fram frumvarp af fulltrúum almennings þar sem málshefjendur kröfðust þess að strangar skorður yrðu settar við ofurlaunum, bónusum, starfslokagreiðslum og sjálftöku bankastjóra og kaupsýsluforkólfa.

Og nú var verið að samþykkja þetta frumvarp í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fulltrúalýðræðið hefði aldrei getað komið þessu máli í höfn.

Að minnsta kosti ekki hér á landi.

„Lögspekingar“ og „real-pólitíkusar“ hefðu nefnilega séð á því alla hugsanlega meinbugi.

Í mesta lagi að formenn stjórnmálaflokkanna hefðu náð í einhverju reyklausu bakherbergi útvötnuðu samkomulagi um hjákátlega útgáfu af þeim hugmyndum sem að baki liggja.

En með hjálp þess beina lýðræðis, sem Svisslendingar hafa lengi brúkað, og með mjög góðum árangri, þá tókst nú að setja þessar hömlur á græðgismenn þar í landi.

Nýja stjórnarskrá opnar á samskonar möguleika hér á Íslandi.

Við skulum ekki vera hrædd við slíkar breytingar.

Og við skulum fyrir alla muni ekki útvatna þær.

Verum alveg óhikað meira eins og Sviss!

Samþykkjum nýju stjórnarskrána.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!