Fimmtudagur 13.06.2013 - 10:38 - FB ummæli ()

Býr fullveldið á Ártorgi 1? – Opið bréf til utanríkisráðherra

Komdu margblessaður Gunnar Bragi Sveinsson.

Ég var að lesa skörulegar yfirlýsingar frá þér um að aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði „illa haldið áfram, eiginlega bara alls ekki“, meðan þú gegnir embætti utanríkisráðherra. Sjá hér.

Og þetta þykir mér slæmt að heyra.

Aðild að Evrópusambandinu er einn þeirra kosta sem við stöndum frammi fyrir til að bæta okkar hag á næstu árum og áratugum.

ESB er ekki eini kosturinn og alls ekki endilega rétti kosturinn, en hefur þó upp á svo margt að bjóða að mér finnst hreinasta glapræði að ætla að svipta þjóðina tækifæri til að taka afstöðu til þess.

En það ætla þú og félagar þínir þó að gera – að því er mér sýnist helst í nafni fullveldis þjóðarinnar.

Fyrirgefðu Gunnar Bragi, en getur þú útskýrt fyrir mér hvernig það eflir fullveldi þjóðarinnar að fá EKKI að greiða atkvæði um augljósasta og nærtækasta kostinn í gjaldmiðilsmálum Íslands – svo bara einn þáttur í hugsanlegri ESB-aðild sé nefndur?

Það er alveg sama hvernig ég mölbrýt á mér heilann, ég fatta þetta bara ekki.

Plís, útskýrðu það fyrir mér!

Svo er annað, Gunnar Bragi.

Ég var líka að lesa nærmynd af þér sem DV birti á mánudaginn var.

Og hvað heldurðu?

Þar er farið um persónu þína hinum snotrustu orðum, og ég efast ekki um að það sé allt rétt.

En – og þá fer að versna í því – þar er því líka haldið fram fullum fetum að þú „taki[r] enga ákvörðun án þess að ráðfæra [þig] við Þórólf Gíslason, kaupfélagsstjóra [Kaupfélags Skagfirðinga]“.

Þetta er haft eftir mörgum viðmælendum í DV, og ég skal líka trúa þér fyrir því, Gunnar Bragi, að ég hafði heyrt þetta áður.

Ekki veit ég hvort þetta er satt, en það skrýtna er að ég hef aldrei séð neinn bera á móti þessu – hvorki þig, Þórólf Gíslason né nokkurn annan.

Né heldur að heilmikill partur af ESB-andstöðu þinni sé máske runninn þaðan.

Gunnar Bragi.

Þú hefur nú þegar gert ein frekar kjánaleg mistök í hinu nýja starfi, þegar þú ruglaðir saman hagsmunum íslensku þjóðarinnar annars vegar og hins vegar hagsmunum hvalveiðifyrirtækisins Hvals hf. af því að skipa hvalkjöti gegnum Rotterdam. Sjá hér.

Þetta frumhlaup hefur þegar kostað þig háð og spott frá Hannesi Péturssyni skáldi, sjá hér.

Ekki vildi ég að Hannes Pétursson gerði gys að mér í blöðunum, það segi ég satt. Ég vona að þú þurfir ekki að þola það aftur.

Hannes, sá er nú ekki síðri Skagfirðingur en Þórólfur Gíslason!

En það sem ég vildi sagt hafa – nú sýnist mér þú reyndar í þann veginn að gera önnur mistök og töluvert mikið stærri en axarskaftið með hvalkjötið í Rotterdam.

Sem sé þegar þú ætlar að slíta viðræðum við ESB án þess að við, íslenska þjóðin eins og hún leggur sig, fáum sjálf að ákveða hvað við viljum í þessu hagsmunamáli okkar.

Hvort sem við komumst á endanum að þeirri niðurstöðu að aðild henti okkur, eða ekki.

Hérna er svolítil undirskriftasöfnun fyrir þá sem eru sammála því að klára dæmið og leyfa þjóðinni að ráða. Það væri gaman að sjá nafnið þitt þar.

Þetta er nefnilega mergurinn málsins.

Margir eru í fyllstu einlægni sannfærðir um að aðild að ESB þjóni ekki okkar hagsmunum.

Þeir eiga fullan rétt á þeirri skoðun. Og kannski hafa þeir rétt fyrir sér.

En þeir hafa engan rétt til að svipta okkur hin tækifærinu til að ákveða þetta sjálf.

VIÐ eigum að fá að ráða þessu – ekki ég, ekki þú, ekki Sigmundur Davíð, ekki Davíð Oddsson, ekki sægreifarnir og ekki einu sinni Þórólfur Gíslason.

Hversu ágætur maður sem hann kann að vera.

En þú ætlar að slíta viðræðum í nafni fullveldisins.

Gunnar Bragi, ég get ekki annað en ítrekað: viltu útskýra fyrir mér hvernig þú kemur því heim og saman að það varðveiti fullveldi íslensku þjóðarinnar að fá EKKI að greiða sjálf atkvæði um svo mikið hagsmunamál sitt?

Varla býr fullveldið á Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki?

Ég held ekki.

Ég held það búi í brjóstum okkar allra.

Ég vonast eftir svari sem fyrst og mun með mestu ánægðju birta það hér,

bestu kveðjur …

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!