Föstudagur 14.06.2013 - 17:33 - FB ummæli ()

Lélegur brandari?

Til skamms tíma hefði ég talið það lélegan brandara að það yrði einn af allra fyrsta verkum nýrrar ríkisstjórnar að skipa Jónas Fr. Jónsson fyrrum forstjóra Fjármálaeftirlitsins í ábyrgðarstarf á vegum ríkisins.

En nú hefur það gerst, sjá hér.

Jónas er orðinn stjórnarformaður Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Sko.

Ég efast ekki um að Jónas sé hinn mætasti maður. Og mörgum góðum hæfileikum gæddur.

En hann fór ekki beinlínis með himinskautum í starfi sínu sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Svo kurteislega sé nú að orði komist.

Það er nú bara svoleiðis.

Hvort sem Jónasi sjálfum og vinum hans og velunnurum líkar betur eða verr, þá er hann einn af holdgervingum hrunsins – einn þeirra sem áttu að standa vaktina en gerðu það ekki.

Nú er ég ekki í vafa um að í sjálfu sér veldur Jónas vel þessu nýja starfi.

En það myndu líka mjög margir aðrir gera.

Og sumir eflaust betur en Jónas.

Það var því engin þörf á að skipa einmitt hann.

Og að skipa einmitt hann eru því fyrst og fremst skilaboð.

Skilaboð til almennings, og pólitísk yfirlýsing.

Þau hljóða svo í mínum eyrum: „Við skipum hann til að sýna að við getum það. Til að sýna að við erum komnir aftur. Og þess munu vinir okkar nú njóta, hvað sem líður hinu svokallaða „hruni“. Og okkur er svoleiðis alveg skítsama hvað ykkur kann að finnast.“

Þetta gerir sú ríkisstjórn sem fyrstu dagana kvakaði sem mest um samvinnu og sættir.

Samvinnan virðist eiga að vera við sægreifana.

Og sættirnar við hrunvaldana.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!