Sunnudagur 08.12.2013 - 21:38 - FB ummæli ()

Ég neita að trúa því að við eigum þetta skilið

Ríkisstjórninni stóð auðveld leið til boða ef hún vill auka peninga til heilbrigðismála – eins og vissulega er þörf á.

Mjög einföld og góð leið, sem hefði ekki kostað nokkurn mann nokkrar raunverulegar þjáningar.

Hún gat hætt við að lækka gjöldin á sægreifana.

Þeir hefðu varla tekið eftir því, svo mjög moka þeir inn peningum þessi misserin.

Og hún gat framlengt auðlegðarskattinn.

En nei, hún ætlar ekki að gera það.

Auðkýfingarnir tveir sem stýra ríkisstjórninni hafa fundið heppilegri leið til að afla heilbrigðiskerfinu fjár.

Venjulegt barnafólk í þessu landi.

Og hinir örsnauðu í útlöndum.

Sjá hérna – nú á að lækka barnabætur og skerða þróunaraðstoð verulega.

Þið fyrirgefið, gott fólk, óbreyttir flokksmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins … en finnst ykkur þetta hægt?

Finnst ykkur ganga að Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð fái að hlaða undir sægreifa og auðkýfinga en skerða hag barnafjölskyldna og svipta okkar snauðustu bræður og systur í útlöndum þeirri hjálp sem við ætluðum að veita – og var svo sannarlega engin ofrausn?

Finnst ykkur þetta í alvöru hægt?

Það er sagt að hver þjóð fái þau stjórnvöld sem hún á skilið.

En ég neita að trúa því að við eigum þetta skilið.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!