Föstudagur 07.02.2014 - 08:49 - FB ummæli ()

Drykkjuhrúturinn

Eitt af því skemmtilegra sem ég hef gert undanfarið er að halda námsskeið hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands um ýmisleg söguleg efni. Þau eru fyrir almenning, enda er ég sjálfur bara almenningur í þessum fræðum, og markmiðið er fyrst og fremst að kynna fyrir fólki svolítið af þeirri dramatík og furðum öllum sem sagan býður upp.

Í næstu viku byrjar nýtt svona námsskeið. Það fjallar um Býsansríkið svokallaða, öðru nafni Austurrómverska ríkið, sem hélt velli í 1.000 ár eftir að Rómveldi í vestri var fallið í duftið. Ég ætla að segja sögu keisaranna í Miklagarði og þegna þeirra frá svona árinu 800 og fram til hinna beisku endaloka þegar Tyrkir náðu höfuðborg ríkisins um miðjan fimmtándu öld og gerðu að Istanbúl.

Og athyglinni verður sérstaklega beint að væringjunum svokölluðu, norrænum mönnum sem mynduðu lífvarðasveitir keisarans hluta af þessum tíma. Og væringjasveitirnar blönduðust jafnvel keisaraættinni, eins og lesa má um hérna og svo kemur framhaldið hérna.

Keisarinn sem gegndi því athyglisverða nafni Mikael drykkjuhrútur gerði danskættaða væringjaprinsessu að hjákonu sinni og þurfti að finna leið til að óskilgetinn sonur þeirra gæti erft ríkið. Það tókst en með mjög óvæntum afleiðingum fyrir keisarann sjálfan.

Hérna eru svo allar upplýsingar um þetta námsskeið, það er enn hægt að skrá sig á það – það eru fjögur kvöld, tveir tímar í senn – sjálfum finnst mér æ skemmtilegra eftir því sem fleiri mæta.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!