Þriðjudagur 11.02.2014 - 12:52 - FB ummæli ()

Bjarni Benediktsson kemur upp um sig

Þegar Bjarni Benediktsson stóð í pontu á Alþingi á síðasta kjörtímabili og galaði til Jóhönnu Sigurðardóttur að „skila lyklunum“, þá trúði ég því og treysti að um klaufaskap hefði verið að ræða.

Bjarni hefur stundum verið svolítið seinheppinn í orðavali, og ekki kannski síst þegar honum finnst mikið liggja við að vera töff eða sniðugur.

Eins og þegar hann sagðist vera eins og skyr eftir eitthvert formannskjörið í Sjálfstæðisflokknum.

En orð Bjarna um lyklana – í besta falli vonaði ég að þau ættu að merkja að Jóhanna ætti að skila lyklunum til þjóðarinnar, sem síðan gæti ráðstafað þeim upp á nýtt.

En umfram allt vonaði ég að þau merktu ekki það sem þó virtist liggja beinast við:

Að Bjarni liti svo á að Sjálfstæðisflokkurinn „ætti“ stjórnarráðið en formaður Samfylkingarinnar hefði komist yfir lyklana að því með einhverjum óeðlilegum hætti.

Ég vildi ekki trúa slíkum dómadags hroka upp á Bjarna.

Ég kunni nefnilega býsna vel við hann, þrátt fyrir allt.

Ég skrifaði meira að segja heila þrjá pistla honum til stuðnings í fyrra, þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir sótti að honum með lúalegum hætti. Sjá hérna og hérna og hérna.

Því vildi ég sem sagt trúa því að orð Bjarna um lyklana hefðu verið mistök.

En því miður – ég hef eina ferðina enn reynst hafa rangt fyrir mér þegar málið snýst um óbilandi trú mína á mannfólkinu.

Í viðtali við Austurfrétt í gær kastaði Bjarni af sér sauðargærunni, er ég hræddur um.

Og sýndi sitt rétta andlit.

Sjá hérna.

Bjarni segir þarna orðrétt: „Það var eitthvað rangt þegar við vorum ekki í ríkisstjórn. Eitthvað öfugt við það sem ætti að vera.“

Ef þetta væri ekki svona ömurlega hrokafullt, þá væri þetta næstum fyndið.

Þeir sem áttu sök á hruninu, sem hefur valdið stærstum hluta landsmanna allskonar þjáningum, stórum og smáum, og auðvitað helst þeim sem minnst máttu sín – þeir voru nálega allir (fyrir utan framsóknarmenn) flokksbræður Bjarna – stjórnmálamenn, bankamenn, kaupsýslumenn.

Margir þeirra voru meira að segja nánir vinir og venslamenn Bjarna sjálfs.

Og þetta gerðu þeir innblásnir af hugmyndafræði flokksins eftir að klíka Davíðs og Hannesar náði þar völdum.

Samt finnst honum „eitthvað rangt“ við að þeir félagarnir hafi ekki verið í ríkisstjórn eftir þessi ósköp.

Hvar er auðmýktin gagnvart þjóðinni?

Og því verkefni sem þjóðin taldi sig vera að kjósa Bjarna til að taka að sér.

Sú auðmýkt er greinilega ekki til í fari Bjarna Benediktssonar.

Hann var augljóslega bara að hrifsa aftur lyklana „sína“.

Enda hefur hann – nú þegar lyklunum hefur verið náð – bara hugsað um eitt.

Skítt með þær rjúkandi rústir sem hrunavinir hans skilja eftir sig.

Nema hvað, jú, hann er vissulega að vinna á fullu við að bæta kjörin.

Að bæta kjörin hjá sægreifunum og ríka fólkinu.

Flokksbræðrum sínum, vinum og venslamönnum.

Valdamenn, sem trúa því í raun og veru að þeir eigi sjálfkrafa skilið að fara með lyklavöldin í samfélaginu, og allt annað sé „öfugt“ – þeir eiga ekki að hafa völd.

Verst er auðvitað að það var þjóðin sjálf sem lyfti þessum flokki hans Bjarna til þeirra valda sem hann meðhöndlar síðan af slíkri forakt á henni.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!