Föstudagur 21.11.2014 - 23:46 - FB ummæli ()

Hanna Birna

Mál Hönnu Birnu Kristjánsdóttur er auðvitað langt frá því til lykta leitt.

Það er leiðinlegt að sjá fall hennar, því hún var að ýmsu leyti dugandi stjórnmálamaður og vildi vel á mörgum sviðum.

En einhverjir brestir hafa nú ráðið því sem orðið er.

Og þetta er ekki í fyrsta sinn sem þeir birtast.

Það var til dæmis erfitt að fylgjast með henni á stóli borgarstjóra.

Ekki af því hún stæði sig illa.

Þvert á móti, hún lagði sig augljóslega fram um að vinna vel og tók jafnvel áhættu innan síns flokks með því að vinna betur með stjórnarandstöðunni í borginni en margir gamalgrónir hundar í flokknum vildu.

En það var erfitt að hlusta á hana prédika samvinnu og opnari stjórnsýsluhætti og heiðarleika þegar maður vissi um leið að hún hafði hafist til valda með þeim ógeðfellda hráskinnaleik sem leikinn var með Ólaf F. Magnússon.

Ég hirði ekki um að fjalla um valdsmennsku hennar innan Sjálfstæðisflokksins enda veit ég minnst um það, en veit þó að einhverjir þar innanborðs hugsa henni þegjandi þörfina – eins og gengur.

En ráðherradómur hennar hlýtur að vera eitthvert furðulegasta drama sem íslensk stjórnmálasaga kann frá að greina.

Það er nefnilega hárrétt, sem ýmsir hafa bent á, að Hanna Birna ætlaði augljóslega að taka rækilega til í málefnum útlendinga og hælisleitenda – og var ekki vanþörf á.

Samt er það einmitt slíkt mál sem fellir hana.

En þó auðvitað ekki slíkt mál í sjálfu sér – heldur einhver ótrúlegur þvergirðingsháttur sem kom í veg fyrir að hún gæti viðurkennt mistök.

Ég veit ekki hvenær Hanna Birna gerði sín fyrstu mistök í málinu, sem sé hvenær hún vissi fyrst af aðild aðstoðarmannsins.

Kannski alveg frá byrjun, kannski ekki.

Þau Gísli Freyr verða bara að fyrirgefa: Maður hleypur ekkert upp til handa og fóta að trúa þeim um þessar mundir.

En þetta kemur vonandi í ljós.

Í öllu falli er ljóst að hún gerði fjölmörg mistök, gaf þjóð og þingi rangar upplýsingar (það heitir að ljúga) og hafði ekki vit á að hörfa meðan hún gat það ennþá með nokkrum sóma.

Ef hún hefði „vikið til hliðar“ snemma í þessari sorgarsögu allri, viðurkennt mistök sín og látið lögreglurannsóknina í friði, þá gæti vel verið að hún væri um þetta leyti að taka aftur við ráðherraembætti sínu og enginn hefði neitt upp á það að klaga.

Af því hún hefði brugðist hratt og heiðarlega við.

Þá væru heldur ekki til nein myndskeið af henni öskureiðri í ræðustól á Alþingi að halda því fram að „engin sambærileg skjöl væru til í ráðuneytinu …“ og svo framvegis.

Myndskeið sem munu nú fylgja Hönnu Birnu framvegis.

Sér í lagi af því meira að segja núna í kvöld – þegar hún heldur úr ráðuneyti sínu eftir að hafa setið á margra klukkutíma fundi með PR-mönnum sínum – þá getur hún ekki viðurkennt mistök.

„Nei,“ sagði hún blákalt við fréttamann.

Nema þá þannig að „við öll“ hefðum gert mistök í málinu.

Á þessari örlagastundu, þá heldur hún áfram að reyna að kenna öðrum um.

Og nú dugar ekki minna en kenna „okkur öllum“ um.

Jahérna.

Sorglegt, sorglegt.

(Og hvar er Henrik Ibsen þegar við þurfum á honum að halda?)

Ég á samt pínulítið erfitt með að vorkenna Hönnu Birnu mjög mikið.

Því í öllu málinu hefur hún verið svo fullkomlega skeytingarlaus um annað fólk.

Hún skilur hvarvetna eftir sig sviðna jörð.

Gísli Freyr er látinn troða upp með sorglegan leikþátt í Kastljósi sem hlýtur að fylgja honum ansi lengi.

Þórey er látin fara fram á fangelsisdóm yfir tveimur blaðamönnum.

Stefán Eiríksson hrökklast úr embætti.

Sigríður Björk lögreglustjóri gegnir einhverju mjög einkennilegu hlutverki sem á eftir að upplýsa en varpar nú þegar skugga yfir hana.

Ragnhildur Hjaltadóttir hinn vammlausi ráðuneytisstjóri þarf líka að svara ýmsum spurningum sem ég treysti að henni takist skilmerkilega.

Rauði krossinn var látinn biðjast afsökunar á að hafa vogað sér að bregðast illa við, þegar Hanna Birna reyndi (algjörlega gegn betri vitund) að blanda honum í málið.

Ræstingarkonum í ráðuneytinu var um tíma kennt um, án þess að Hanna Birna sæi ástæðu til að taka í taumana.

Brynjar Níelsson var látinn éta oní sig sannfæringu sína og allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins látnir tromma upp með stuðningsyfirlýsingu sem allir vissu að var flestum þeirra þvert um geð.

Og forysta Sjálfstæðisflokksins er uppvís að því að reyna í lengstu lög að styðja frekar ráðherra á fallbraut en skikkanlegt siðferði og stjórnsýslu.

Og í hinni ótrúlegu kveðjuyfirlýsingu sinni (hún hlýtur eiginlega að hafa verstu PR-ráðgjafa sem um getur) steig hún það leiðinlega skref að beita vanlíðan fjölskyldu sinnar fyrir sig.

En á þeim hremmingum á hún sjálf því miður alla sök.

Þær hremmingar voru ekki sök DV, ekki einhverra ónefndra „afla“ og allra síst „okkar allra“.

Og þá á ég ennþá eftir að nefna Tony Omos og konurnar tvær sem nefndar voru í lekapóstinum fræga.

Æjá, allt er þetta frekar leiðinlegt.

Eflaust á þessi sorgarsaga að parti til uppruna sinn í þeim dæmalausa móral sem hér hefur alltof lengi ríkt í pólitíkinni – að stjórnmálamenn megi aldrei viðurkenna mistök.

Og að það að þurfa að láta af ráðherradómi sé nánast ígildi þess að deyja – pólitískt.

En að öðrum parti til liggur uppruni hennar auðvitað í brestum Hönnu Birnu sjálfrar.

Kannski hafa hennar slæmu ráðgjafar og mentorar í pólitík alið þá upp í henni, hvað veit ég. Það eru samt hennar brestir.

Hanna Birna hefur boðað að hún ætli að halda áfram á þingi.

Kannski getur hún það, það kemur í ljós þegar fleiri kurl eru komin til grafar.

En það verður þó aðeins ef hún leggur af þann stóra ósið sem hefur nú orðið henni að falli.

Þetta er sá ósiður sem ég veit að er byrjað strax í leikskóla að reyna að venja af fólki.

En gengur misjafnlega.

Að kenna öðrum um.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!