Laugardagur 03.01.2015 - 20:10 - FB ummæli ()

Nú þarf kirkjan pening fyrir sjálfa sig – safnar ekki fyrir spítala

Í byrjun árs 2013 eða fyrir réttum tveimur árum tilkynni Agnes Sigurðardóttir biskup með heilmikilli viðhöfn að þjóðkirkjan ætlaði nú að starta söfnun fyrir tækjum og starfsemi Landspítalans.

Sjá frétt um þessa ágætu söfnun hér.

Það er sama hvernig ég klóra mér í kollinum, ég get ekki munað hvort eitthvað varð af þessari söfnun.

Var einhverju safnað? Voru einhver tæki keypt?

Eða var þetta bara gaspur út í loftið.

Fróðlegt væri að heyra af þessu.

Það fór þá alla vega ekki eins mikið fyrir niðurstöðu þeirrar söfnunar og upphafi hennar.

En hvað sem því líður!

Nú liggur kirkjan mjálmandi á dyrum Sigmundar Davíðs og vill pening.

Hvorki meira né minna en 660 milljónir.

Ekki fyrir heilbrigðiskerfið – heldur fyrir sig sjálfa.

Nú á að „bæta upp“ þá skerðingu sem kirkjan varð fyrir í hruninu – eins og við öll.

Og leggja peninginn í sjóði kirkjunnar – smíða hús, sauma þessar skikkjur sem prestar ganga einlægt í, og bæta aðstöðu prestanna.

(Þeir hafa reyndar góð laun, hærri byrjunarlaun en læknar, til dæmis.)

Nú á ekki að kaupa tæki fyrir Landspítalann, eða bæta heilbrigðiskerfið.

En hefur það skánað mikið síðustu tvö árin? Þarf heilbrigðiskerfið allt í einu ekkert meiri pening?

Kirkjan alla vega meira þurfandi, ha?

Og viti menn – Sigmundur Davíð hefur heyrt mjálm þetta – og einmitt fundið alveg gommu af pening sem hann ætlar að senda kirkjunni.

Heilbrigðiskerfið, ha, nei?

Prestar þurfa pening!

 

– – –

Mér hefur borist ábending um að þau sóknargjöld sem nú er talað um að „endurgreiða“ fari ekki í að borga laun presta. Hafið það í huga. Ég breytti setningunni „borga laun presta“ því í „bæta aðstöðu prestanna“.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!