Fimmtudagur 08.01.2015 - 08:44 - FB ummæli ()

Þegar Kolbrún var skotin í kaf

Hrunveturinn mikla 2008-2009 horfðum við Íslendingar fram á eintómt svartnætti. Ljóst var að skuldir þjóðarbúsins yrðu gífurlegar næstu árin og jafnvel áratugina og risastórri stoð hafði verið kippt utan atvinnulífinu – bankastarfseminni – án þess að séð yrði að neitt kæmi í staðinn.

Þá reyndu menn talsvert að binda trúss sitt við væntanlega olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Þar myndi bullast upp olía í þvílíkum mæli að fyrr en varði yrðum við aftur ofsarík.

Rétt fyrir kosningarnar vorið 2009 heyrðist hins vegar nokkuð óvæntur tónn.

Kolbrún Halldórsdóttir hafði þá verið skipuð umhverfisráðherra í minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, og við eitthvert tækifæri sagði hún sem svo að það væri ekki víst að við ættum endilega að rjúka til og fara að dæla upp olíu á Drekasvæðinu, þótt þar fyndist olía.

Það gæti einfaldlega verið of skaðlegt umhverfinu.

Nú – skemmst er frá því að segja að Kolbrún var gjörsamlega skotin í kaf með þetta. Hún þurfti að þola endalausa gagnrýni um það hvernig þetta óþolandi umhverfisverndarfólk væri sífellt að „tala niður atvinnulífið“, „stöðva framfarir“, vildi helst koma alveg í veg fyrir að „hjól atvinnulífsins stöðvuðust“ en jarmaði í staðinn um „eitthvað annað“ eða „fjallagrös á heiðum“ og ég veit ekki hvað.

Ég man að sjálfum fannst mér þetta ansi mikill taktískur feill hjá Kolbrúnu. Olíuvinnslan var þrátt fyrir allt vonargeisli í þeirri dimmu sem hafði lagst yfir þjóðina, og mér fannst algjör óþarfi af henni að vilja svona hálfpartinn slá olíuna af, áður en einu sinni væri að fullu ljóst hvort þarna væri olía í vinnanlegu magni.

Þetta útspil kostaði Kolbrúnu alveg efunarlaust ráðherrastólinn, hún náði ekki árangri í prófkjöri VG fyrir kosningarnar, og enginn vafi á að þetta mál spilaði þar allmikla rullu. Jafnvel mörgum kjósendum VG – umhverfisverndarsinnunum þeim – fannst ímynd hennar of neikvæð.

Nú er komið í ljós að sjónarmið á borð við þau sem hún hreyfði eru orðin æ útbreiddari.

Sjá til dæmis þetta yfirlit hér úr Guardian.

Hér er líka skjáskot af fyrirsögninni:

 

Screen shot 2015-01-08 at 8.17.49 AM

 

Nú vitum við ekki enn hvort olíuvinnsla á Drekasvæðinu sé yfirleitt raunhæf, eða hvort sérfræðingarnir sem Guardian vitnar til hafi endilega fullkomlega rétt fyrir sér.

En virðing mín fyrir stjórnmálamanninum Kolbrúnu Halldórsdóttur hefur hins vegar aukist. Vissulega var þetta kannski ekki alveg heppilegasti tímapunkturinn til að orða efasemdir um olíuvinnslu á Drekasvæðinu, en raunar var Kolbrún samt bara að sinna því merkilegasta hlutverki sem stjórnmálamenn eiga að hafa – taka hluti til umræðu, velta vöngum, horfa fram á veginn, byrja að leggja drög að langtímasýn – en ekki ana strax af stað með jarðýturnar þegar öflugir hagsmunaaðilar heimta.

Það mættu ýmsir taka sér til fyrirmyndar.

 

– – – –

Mig hefur greinilega misminnt að því leyti að hin opinberu ummæli Kolbrúnar féllu ekki fyrir prófkjörið eða forval VG, eins og mig skrifa hér að ofan. Heldur í fréttum nokkrum dögum fyrir kosningarnar sjálfar. Hvort þessi sjónarmið, sem vafalaust hafa verið kunn áður, og sér í lagi innan VG, hafi samt haft áhrif á forvalið, það get ég ekki fullyrt um.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!