Föstudagur 19.06.2015 - 08:43 - FB ummæli ()

Þegar ég varð hissa

Mín vitund og skilningur á jafnréttismálum mótaðist af tvennu.

Annars vegar er ég alinn upp af einstæðri móður, mikilli kjarnorkukonu, og það hvarflaði hreinlega aldrei neitt annað að mér í æsku en konur stæðu körlum algjörlega jafnfætis.

Enda var sama upp á teningnum hjá öfum og ömmum og í öðrum þeim hjónaböndum sem ég þekkti til í æsku; hvergi sá ég betur en jafnokar væru á ferð.

Hins vegar fór ég að lesa um það í Þjóðviljanum þegar ég komst á táningsár að víða væri pottur brotinn í þessum efnum.

Þjóðviljinn var – burtséð frá pólitíkinni sem blaðið rak – ansi merkilegt blað á þessum árum.

Og blaðið sinnti til dæmis mjög jafnréttismálum, áhrif Rauðsokka á blaðið voru sterk og sumt af því sem ég las í blaðinu kom mér alveg í opna skjöldu.

Til dæmis var þar fullyrt að konur hefðu alls ekki sömu laun og karlar, þótt fyrir sömu vinnu væri.

Þá varð ég hissa.

Ég man að ég fór til mömmu, sem var þá blaðamaður á Mogganum, og spurði hana hvort hún fengi ekki örugglega sömu laun og kátu strákarnir sem unnu þar með henni og tóku mér alltaf fagnandi þegar ég fór að heimsækja hana í vinnuna.

Hún sagðist ekki vita betur en svo væri.

En það gilti greinilega ekki alls staðar, að því er sagði í Þjóðviljanum.

Ég hrósaði þá happi að það skyldi vera búið að vekja athygli á þessu misrétti.

Þessu yrði þá náttúrlega kippt í liðinn á næstu tveim þrem árum.

Mikið væri ég heppinn að þegar ég færi út á vinnumarkaðinn nokkrum árum seinna, yrði búið að laga þetta. Ekki vildi ég fá hærri laun en stelpurnar í mínum bekk.

Fleira las ég í Þjóðviljanum. Til dæmis að maður ætti aldrei að nota orðið „maður“ þegar merkingin væri greinilega „karlmaður“. Maður ætti aldrei að segja „menn og konur“ heldur ævinlega „karlar og konur“.

Annað væri misnotkun á orðinu „maður“ og lítilsvirðing við konur.

Því konur væru jú líka menn.

Þetta tók ég mjög hátíðlega, og hef staðið við það síðan.

Það hefur hins vegar oft komið mér á óvart í áranna rás að ýmsar konur, jafnvel ungar konur, virðast ekki fara eftir þessu.

En svo ég rifji upp lærdóminn úr Þjóðviljanum, þá eru menn líka konur.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!