Fimmtudagur 02.07.2015 - 08:37 - FB ummæli ()

„Eitthvað standard prógramm sem menn þylja upp“

Ég veit – það á víst ekki að „fara í manninn“ eins og það heitir núorðið.

Það er bara svolítið erfitt að sleppa því í tilfelli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar vegna þess að persónulegir dyntir hans, fordómar og þráhyggjur spila greinilega stórt hlutverk í því undarlega leikriti sem stjórnmálaferill hans er að verða.

Þingi lýkur loksins, eftir að allt hefur verið upp í loft vikum og mánuðum saman.

Hið stóra mál ríkisstjórnarinnar – samningar við kröfuhafa föllnu bankanna – hefði átt að verða lárviðarkrans Sigmundr Davíðs en nú er komið í ljós að kannski voru samningarnir ekki svo góðir sem boðað var með lúðrablæstri í byrjun.

Meira að segja InDefence hópurinn, sem segja má að hafi skapað Sigmund Davíð sem stjórnmálamann, og getur aldrei flokkast til óvina hans, hann telur að ná hefði mátt 400 milljörðum í viðbót út úr þeim samningum. (Sjá hér.)

Og peningatilfærslan mikla („Leiðréttingin“) stendur brátt berstrípuð eins og keisarinn í sögu H.C.Andersens.

Þetta var ekki almenn aðgerð, margir hópar fengu ekkert og fáránlega stór hluti peninganna fór til miðaldra fólks í góðum efnum.

Og jafnvel til hinna forríku.

Komandi kynslóð mun borga brúsann.

Í flestum tilfellum verður ábatinn af þessari tilfærslu horfinn á fáeinum misserum í mesta lagi – í stað þess að nota hefði mátt þessa peninga til að borga niður skuldir ríkissjóðs eða í einstök brýn verkefni eins og Landspítalann.

Þannig er nú komið um helstu mál ríkisstjórnarinnar.

En einmitt á þeim degi eyðir forsætisráðherrann þriðjungi af blaðagrein sinni í Fréttablaðinu í að ráðast með dæmalausum og raunar óskiljanlegum hætti á tvo blaðamenn blaðsins, fyrir að skrifa ekki af nægilegri undirgefni um Sigmund Davíð sjálfan og verk hans.

Sjá hér.

Þessi ótrúlega uppákoma lýsir ekki bara heimskulegum vanskilningi Sigmundar Davíðs á eðli fjölmiðlunar (já, ég veit að hann var einu sinni fréttamaður), heldur er þetta líka ruddaleg tilraun til að „siða“ alla blaðamannastéttina til – og fá hana til að umgangast Sigmund Davíð framvegis af tilhlýðilegri virðingu.

Svo vogar þessi maður sér að grenja undan „ofsóknum“ gegn sér!!

(Meðal annarra orða – af hverju er Blaðamannafélag Íslands ekki búið að senda frá sér harðorða ályktun til stuðnings þeim Kolbeini og Snærósu? Það á ekki að gefa með þögninni til kynna að svona árásir æðstu valdhafa séu eðlilegur hlutur.)

En svo að lokum – þá mætir Sigmundur Davíð í sjónvarpsviðtal og gasprar náttúrlega í hástigi eins og venjulega um „árangursríkasta þing síðari ára, ef ekki áratuga“.

Skyldi hann trúa þessu sjálfur? Ég er mest hræddur um það.

En þegar hann er svo spurður um þær gríðarlegu deilur sem ríktu á þinginu um mörg grundvallarmál samfélagsins – svo sem makrílfrumvarpið sem snýst um eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum, um rammaáætlun, sem snýst um meðferð okkar á náttúru okkar og umhverfi – þá segir Sigmundur Davíð:

„[Þ]etta er eitthvað standard prógramm sem menn þylja upp.“

Þetta er skilningur forsætisráðherra Íslands á lýðræðislegri umræðu um mestu alvörumál samtímans.

Ég ætla að endurtaka þetta:

„[Þ]etta er eitthvað standard prógramm sem menn þylja upp.“

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rásHleð...

Eingöngu gamlar fréttir!