Mánudagur 11.11.2013 - 16:33 - FB ummæli ()

Afrek ríkisstjórnarinnar

Að ýmsu leyti virðist þessi ríkisstjórn einkennilega duglaus.

En einhver þar innandyra er þó að vinna sína vinnu, og það með óvæntum árangri.

Ríkisstjórnin byrjaði á því að losa sægreifana við milljarða veiðigjöld, ekki af því þeir þyrftu á því að halda, heldur bara af því að ríkisstjórnin vill vera góð við sægreifa.

Svo lagði hún af auðlegðarskatt, af því hún vill líka vera góð við þá sem eiga pening.

Það er skiljanlegt, því þeir sem standa að ríkisstjórninni eiga einmitt pening.

En með því að svipta ríkið öllum þessum tekjum, þá varð ljóst að ekki tækist að leggja aukið fé í heilbrigðiskerfið, eins og þarf þó svo sárlega að gera.

En einhvern veginn er ríkisstjórninni nú að takast að telja furðulega mörgum trú um að ástæðan fyrir því að heilbrigðiskerfið fær ekki sína peninga sé ekki gjafmildin við sægreifana og ríka fólkið.

Nei, heldur sé það fégræðgin í íslenskri menningu.

Til að breiða yfir hvert ætti auðvitað að sækja peningana sem heilbrigðiskerfið þarf á að halda, þá hefur þessari ríkisstjórn tekist að efna til ófriðar um íslenska menningu.

Það er líklega einhvers konar afrek.

Nú eiga allir að fjasa um peninga sem fara til Þjóðleikhússins meðan sægreifarnir telja peningana sína í friði.

Æltum við að láta blekkjast?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.11.2013 - 11:39 - FB ummæli ()

Fíllinn í herberginu

Hér er skemmtileg ljósmynd:

Elefant

Ég tel að myndin sýni íslenska ráðamenn reyna að klóra sig fram úr því hvernig við eigum að losna úr gjaldeyrishöftunum. Í herberginu er risastór fíll sem alltof margir vita af en þykjast ekki sjá.

Fíllinn er sú staðreynd að við munum ekki losna úr þessum gjaldeyrishöftum eða skuldakreppunni nema taka upp brúklega mynt og ganga í ESB (að því gefnu að við fáum skikkanlegan sjávarútvegssamning auðvitað).

Og ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þetta viti bæði Bjarni Benediktsson og nafni minn Gunnarsson, og líka að þetta viti Steingrímur J. Sigfússon líka og með passlegri léttúð trúi ég að það viti eflaust Katrín Jakobsdóttir sömuleiðis.

Samt grúfa þau sig oní pappírana sína og látast ekki sjá kvikindið.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.10.2013 - 15:49 - FB ummæli ()

Samtal á skrifstofu KSÍ

Undanfarin sex sjö ár höfum við sonur minn ungur mætt á svo til hvern einasta heimaleik íslenska landsliðsins í fótbolta.

Við höfum setið þarna á öllum tímum árs, horft á vondan fótbolta og upp á síðkastið bara glettilega góðan fótbolta, og allt saman í von um að einhvern tíma kæmi að því að þetta skipti máli.

Og nú var loks komið að því.

(Já, þetta skiptir máli.)

Við ætluðum að sjálfsögðu að mæta og styðja okkar lið.

Ég vissi ósköp vel að það var ekkert öruggt að við fengjum miða.

En ég hélt að við fengjum alla vega „fighting chance“ á við hvern annan. Án þess að vera í einhverri klíku eða rekast af tilviljun inní tölvu á einhverjum mjög óvæntum tímum sólarhringsins.

En nei – við fengum ekki þann möguleika.

Takk KSÍ.

Eins og margir hafa bent á – þá hlýtur það að vera einhvers konar heimsmet hjá KSÍ að hafa getað klúðrað öllum þeim vilvilja og áhuga sem Króatíuleikurinn hefur notið.

Og maður situr eftir með fúlt bragð í munninum – eins og maður hafi verið hafður að fífli.

Og ekki bætir afsökunarbeiðni Þóris Hákonarsonar úr skák.

Ef eitthvað er að marka hana, þá voru ákvarðanir um miðasölu á þennan mikilvæga leik bara teknar í einhverju rugli og fáti án þess að hugsað væri út í neitt.

Nú á maður sem sagt að trúa því að eftirfarandi samtal hafi átt sér stað á skrifstofu KSÍ:

GEIR ÞORSTEINSSON: Jæja Þórir, þurfum við ekki að fara að ákveða hvernig við högum sölunni á þennan eftirsótta leik? Þú veist að allir vilja fá miða.

ÞÓRIR HÁKONARSON: Hei, já, ég var einmitt að fá hugmynd. Hvernig væri að byrja söluna klukkan fjögur að nóttu? Heldurðu ekki að þá verði bara allir sáttir?

GEIR ÞORSTEINSSON: Þórir, þú ert snillingur! Auðvitað er þetta málið! Þetta verður frábært! Alveg hreint steinliggur!

x x x

Ég veit eiginlega ekki hvort er verra, að trúa því að þetta ótrúlega heimskulega samtal hafi í rauninni átt sér stað.

Eða að trúa því ekki.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.10.2013 - 23:43 - FB ummæli ()

Hvers vegna er refsiramminn fyrir nauðganir ekki notaður?

Nú þurfa dómarar landsins að setjast niður og hugsa sinn gang.

Og þeir þurfa síðan að skýra málið fyrir þjóðinni.

Maður nokkur nauðgaði barnungri stúlku á einstaklega grófan hátt. Brotavilji hans var einbeittur og ógeðslegur.

Sjá hér.

Nú er ég yfirleitt ekki mjög refsiglaður maður, og langir fangelsisdómarar skila örugglega sjaldan betri mönnum út í samfélagið.

En fyrir alvarleg og útspekúleruð ofbeldisbrot, tala nú ekki um gegn börnum, á að loka menn inni svo lengi sem kostur er, samkvæmt fyrirfram gefnum reglum samfélagsins.

Og alveg sérstaklega ef um er að ræða kynferðisbrot, því svo mikil hætta er á að slíkir ofbeldismenn og nauðgarar endurtaki brot sín.

En þessi maður fékk sem sé sjö ára dóm.

Og það sem dómarar þurfa að skýra – og EIGA að skýra, og fjölmiðlamenn eiga að spyrja þá um og hætta ekki fyrr en þeir fá svör – það er þetta:

Nú er refsiramminn fyrir morð sextán ár.

Hann er nær alltaf notaður til fulls.

En refsiramminn fyrir nauðganir er líka sextán ár.

Hann er aldrei notaður til fulls.

En hvers vegna ekki?

Til hvers að hafa sextán ára refsiramma ef ekki á að nota hann í svona hræðilega alvarlegu máli?

Maður svívirðir barn á svona hrottalega hátt, og dómarar nota ekki einu sinni hálfan refsirammann.

Hvers vegna?

Sem borgari í þessu samfélagi tel ég mig eiga rétt á að fá svör við þessari spurningu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.10.2013 - 15:45 - FB ummæli ()

Sami hráskinnaleikurinn, sömu trixin

Sjálfstæðismenn vinna nú af kappi að því að svæfa endanlega samþykkt Alþingis frá síðasta kjörtímabili um skipan rannsóknarnefndar til að skoða einkavæðingu bankanna fyrir rúmum tíu árum.

Ástæðan er auðvitað sú að komist sú rannsóknarnefnd á legg og vinni verk sitt vel, þá er ansi mikil hætta á að gusurnar muni ganga yfir orðstír margra úr Sjálfstæðisflokknum – og Framsóknarflokknum raunar líka.

Frá Davíð og Halldóri og niðrúr.

Nú þegar hefur hinn knái forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, ákveðið með sínu fólki að „fresta“ skipan rannsóknarnefndarinnar, meðan starf fyrri rannsóknarnefnda er metið.

Og fer ekki milli mála að tilgangurinn er sá að svæfa hugmyndina um þessa rannsóknarnefnd endanlega.

Til öryggis hafa nú 13 þingmenn Sjálfstæðisflokksins lagt fram tillögu um rannsóknarnefnd til að skoða Icesave-málið.

Tilgangurinn er augljóslega sá að espa Samfylkingu og Vinstri græna til að vera á móti slíkri Icesave-nefnd, svo vísa megi í það þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsókn kasta rekunum á rannsóknarnefndina um bankana.

Eða kannski á jafnvel að víla og díla um það við stjórnarandstöðuna að draga tillöguna um Icesave-nefndina til baka á heppilegum tíma, gegn því að ekki verði miklum mótmælum hreyft þegar hugmyndin um bankanefndina geispar endanlega golunni.

Þetta verður deginum ljósara, þegar tillaga sjálfstæðismannanna um Icesave-nefndina er skoðuð.

Sjá hér.

Orðalagið er bara eins og upp úr pólitískri áróðursgrein í Mánudagsblaðinu, nei afsakið Morgunblaðinu, en ekki eins og ætti að orða tillögu um alvörumál sem flutningsmenn gerðu sér í alvöru von um að ná einhvers konar sátt um og fá jafnvel samþykkta með þorra atkvæða á þingi.

Þetta er bara pólitískur hráskinnaleikur, sá sami gamli – og fyrir sjálfstæðismönnunum 13 vakir enn sem fyrr að verja orðstír forkólfa flokksins fyrir rúmum áratug.

Af hverju gera þeir það? Hvað á þetta að ganga lengi?

Það skal svo að lokum tekið skýrt að ég hef ekkert á móti rannsóknarnefnd um Icesave. Mér finnst það bara mjög fín hugmynd.

En ég vil að rannsóknarnefndin um einkavæðingu bankanna taki fyrst til starfa og ljúki sínu verki.

Og ég þoli ekki lengur að horfa upp á svona billeg pólitísk trix.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.10.2013 - 15:33 - FB ummæli ()

Stjórnin hefði átt betra skilið

Ótrúlegar eru þær tölur sem birtast í Fréttablaðinu í dag að 62.000 manns hafi lent á atvinnuleysisskrá einhvern tíma á tímabilinu frá hrunárinu 2008 og til dagsins í dag.

Það er einn þriðji af öllu vinnandi fólki á landinu.

Það má vafalítið lesa margt út úr þessum tölum, og það er rétt hjá Runólfi Ágústssyni stjórnarformanni Vinnumálastofnunar að brýnt er að koma í veg fyrir að annað eins ástand skapist aftur.

En ég verð að viðurkenna að þegar ég las þetta hugsaði ég nú fyrst til síðustu ríkisstjórnar, sem var hrópuð af í apríl síðastliðnum, væntanlega af því að fólki þótti hún hafa staðið sig svo illa.

Ríkisstjórn sem situr í svona ægilegu árferði, og tekst að koma í veg fyrir niðurbrot samfélagsins og tekst að minnka atvinnuleysið jafnt og þétt (jafnvel þótt með skammtímaaðgerðum sé að töluverðu leyti) – hún hefði nú eiginlega dálítið gott hrós skilið frekar en þurfa að „skila lyklunum“ eins og sumir orðuðu það.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.10.2013 - 08:41 - FB ummæli ()

Hvað gerði Brynjar í sumar?

Það var óneitanlega merkilegt að sjá og heyra Brynjar Níelsson stökkva fram í gær, alveg heiðan í framan, og halda um það heita ræðu að niðurskurðurinn á Landspítalanum bara gengi ekki lengur.

Það yrði að finna fé til að halda honum gangandi.

Í orðum Brynjars lá að það yrði þá bara að skera frekar niður á öðrum sviðum.

En í sumar tók hann þátt í því sem einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins þátt í því að afsala ríkinu miklum tekjum af óbreyttu auðlindagjaldi og auðlegðarskatti og hinni blómstrandi ferðaþjónustu.

Þá peninga hefði mátt – og átti – að nota í langþráða uppbyggingu á Landspítalanum.

Auðvitað er gott að beita sér fyrir að Landspítalinn fái meiri peninga.

En ansi er hart ef það þarf að kosta enn frekari niðurskurð í nauðsynlegri þjónustu sem alltaf mun koma illa við þá verst settu.

Meðan vasar hinna forríku þyngjast sífellt af meira klinki frá Brynjari og félögum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.10.2013 - 21:52 - FB ummæli ()

Það næsta sem gerist

Hei, nú eru Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn komnir aftur til valda, haftakerfið er aftur komið á, við eigum aftur að fara að skreyta okkur þjóðlegu flírubrosi á 17. júní og nú ætlar utanríkisráðherra aftur að fara að skipa afdankaða pólitíkusa í vel launuð sendiherraembætti.

Það næsta verður örugglega að það verður aftur hægt að fara að fá sjoppuleyfi ef maður þekkir réttu kallana.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.10.2013 - 09:16 - FB ummæli ()

Ísland er Las Vegas í augum Breta, en Helvíti í augum Vatíkansins

Svona er Ísland í augum Breta, samkvæmt vefsíðu einni:

europe-according-to-britain

Ísland er Las Vegas.

Hér er Evrópa aftur á móti í augum Búlgara, Ísland er „Hei Björk!“

europe-according-to-bulgaria

Hér er svo linkur á fleiri svona skemmtileg kort, þar meðal annars má sjá Evrópu (og Ísland!) í augum Frakka, Svisslendinga, Vatíkansins og margra fleiri þjóða. Þar kemur meðal annars fram að Ísland sé Helvíti í augum hinna 800 íbúa Vatíkansins. Og ekki virðast Grikkir heldur hafa mikið álit á okkur, því þar um slóðir líta menn á Ísland – samkvæmt þessari vefsíðu – sem Hades, eða ríki hinna dauðu.

Auðvitað er þetta til gamans gert, og fyrst og fremst leikur með „stereótýpur“ og fordóma.

En það er áreiðanlega sitthvað til í ýmsu sem þarna kemur fram!

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.10.2013 - 12:41 - FB ummæli ()

Eru sjúklingar á spítölum pólitískt vopn?

„Legugjaldið“ sem ríkisstjórnin ætlar að taka af sjúklingum á spítölum er ömurleg hneisa.

Upphæðin sem þarna á að ná inn nemur samtals einhverjum örlitlum hluta af arðinum sem sægreifarnir raka saman af sameiginlegri auðlinda þjóðarinnar, ekki síst eftir að ríkisstjórnin hefur lækkað auðlindagjaldið á þá.

Þeir myndu ekki einu sinni taka eftir því, skyldi maður ætla, en sjúklinga munar um þetta.

Nema hvað það virðist nú komið rækilega í ljós að sægreifarnir taka svo sannarlega eftir hverri einustu krónu sem á að taka af þeim í sameiginlega sjóði landsmanna.

Og væla einsog stungnir grísir, þótt þetta séu upphæðir sem þá munar ekkert um.

En nú sé ég að margir spá því að þetta legugjald muni aldrei koma aldrei til framkvæmda.

Því hafi bara verið ýtt úr vör til að draga athyglina frá öðru, eða kannski öllu heldur til að ríkisstjórnin muni síðan fá lof og prís fyrir góðvild sína með því að draga þetta fljótlega til baka.

Litlu skárra er, þótt þetta reynist rétt.

Ríkisstjórn sem notar sjúklinga á spítölunum sem pólitískt vopn – eða „decoy“ – hún er lágkúrulegri en leyfilegt er.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!