Þriðjudagur 5.2.2013 - 13:41 - FB ummæli ()

Þessi mynd er tekin 2013

Hér er mynd af því þegar formenn (og í einu tilfelli sérstakur talsmaður) stjórnmálaflokkanna ræða eitt mikilvægasta mál samtímans, aðildina að Evrópusambandinu.

Lengst til hægri er reyndar fundarstjóri.

En hvað vantar á myndina?

 

Það skal tekið fram, ef einhver skyldi halda að þetta væri gömul mynd af Þjóðminjasafninu, að myndin var tekin í dag, 5. febrúar 2013.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.2.2013 - 10:04 - FB ummæli ()

Töffarar FBI mæta í smábæinn Reykjavik, Iceland

Við þekkjum þetta svosem úr ótal amerískum bíómyndum.

Glæpur hefur verið framinn í smábæ eða þorpi og löggan á staðnum er að glíma við málið.

Þá birtast heldur betur töffaralegir FBI-menn og taka yfir rannsóknina, oft í óþökk heimamanna.

Kannski FBI-menn sjálfir séu búnir að horfa á of mikið af bíómyndum af þessu tagi.

Að minnsta kosti virðast þeir hafa talið sér heimilt að koma askvaðandi í smábæinn Reykjavik, Iceland og taka yfir rannsóknina á …

Ja, rannsóknina á hverju?

Það er nú það.

Það er mikil og stór spurning.

Þessi heimsókn FBI hingað til lands virðist vera hið dularfyllsta mál.

Það fer eiginlega að verða nauðsynlegt að fram fari rannsókn á þessari rannsókn sem Alríkislögreglan ameríska taldi sér heimilt að standa fyrir hér í fásinninu.

Og skýringar ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara, sem birtust í yfirlýsingu þeirra í gær, urðu nú ekki beinlínis til að skýra málið.

Enda hafnar Össur Skarphéðinsson þeim algjörlega í Fréttablaðinu í morgun.

Ögmundur Jónasson svarar fáu ennþá, enda er hann í Kína.

(Meðal annarra orða – hvað eru innanríkisráðherra og allir æðstu menn ráðuneytis hans að gera í Kína? Hvað geta þeir lært í innanríkismálum í Kína?)

Eru ríkislögreglustjóri og ríkissaksóknari bara að bulla einhverja vitleysu til að breiða yfir eitthvert furðulegt samkrull sitt við FBI?

Smábæjarlöggæslan í Reykjavik, Iceland að reyna að afsaka að hafa látið töffarana frá USA vaða yfir sig?

Það er að minnsta kosti sú spurning sem vaknar.

Þetta þarf að upplýsa.

Og úr því fréttamenn munu sjálfsagt spyrja Ögmund spjörunum úr um þetta mál, þegar hann kemur frá Kína, þá mætti kannski bæta við einni spurningu.

Ríkislögreglustjórinn … hann heitir sem kunnugt er Haraldur Johannessen og er vægast sagt umdeildur maður.

Þetta er ekki fyrsta málið sem vekur furðu og Haraldur kemur nálægt.

Spurningin er þessi:

Hvernig stóð á því að fyrir aðeins örfáum vikum framlengdi Ögmundur Jónasson skipun hans í embætti í fimm ár enn í stað þess að nota tækifæri og auglýsa stöðu hans?

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.2.2013 - 09:53 - FB ummæli ()

Friðurinn góði

Það er rétt, nauðsynlegt og sjálfsagt að mæla fyrir aukinni samvinnu, sátt og friði í íslenskum stjórnmálum.

Vonandi tekst að koma því á.

Þjóðin örþreytt eftir hrun, skuldaklafa, brimskafla, öldurót, málþóf og lamandi rifrildi þarf á því að halda.

En þó er því miður líka nauðsynlegt að hafa eitt í huga.

Að þau öfl eru til í samfélaginu sem líta ekki við samvinnu nema hún sé á þeirra forsendum.

Og telja sátt snúast um það eitt að aðrir beygi sig undir þeirra sjónarmið.

Og hafa svipaða afstöðu til friðar og Skotinn Calgacus sagði um Rómverja:

„Þeir leggja allt í eyði og kalla það svo frið.“

Ég mun alltaf og ævinlega mæla fyrir auknum friði og sátt í samfélaginu, enda þoli ég ekki meiri rifrildi. En höfum þetta samt bak við eyrað.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.2.2013 - 22:55 - FB ummæli ()

Græðgi Steinunnar og Páls

Græðgi útrásarvíkinga og bankabésa fyrir hrun var mikil, en líklega héldu þeir í fúlustu alvöru að alltaf yrði skítnóg til af peningum. Græðgi þessara skötuhjúa í hrundum rústum samfélagsins sem ól þau og menntaði og fóstraði er af öðru tagi – og enn ógeðfelldara. Við skulum reisa Steinunni Guðbjartsdóttur og Páli Eiríkssyni einhvers staðar styttu og kalla hana Græðgi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.1.2013 - 18:08 - FB ummæli ()

Fagnaðarefni, bara fagnaðarefni

Það hefur tekið áratugi að koma kynferðisbrotamálum út úr skuggasundunum þar sem glæpamennirnir og níðingarnir vilja halda þeim.

Nú hefur stíflan loksins brostið og fólk er í stórum stíl tilbúið að stíga fram og segja sína sögu og benda á hina seku.

Þetta er mjög, mjög gleðileg þróun og löngu tímabær.

Ég vona að bæði lögreglu og saksóknurum og öllum öðrum aðilum sem rannsaka þessi mál og annast um fórnarlömbin verði gert kleift að bregðast við nú þegar.

Og því finnst mér ekki að þeir ættu nú að lýsa því hver af öðrum hversu vinnuálagið á þá sé gífurlegt og voða mikið að gera og sumir jafnvel með í maganum af álagi, eins og segir í Fréttablaðinu í morgun.

Fólk sem er að glíma við að stíga það skref að opinbera skelfileg leyndarmál þarf held ég ekki á slíku að halda.

Þessi þróun nú er fagnaðarefni, bara fagnaðarefni.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.1.2013 - 15:15 - FB ummæli ()

Merkilegar myndir: Ísland fyrir hundrað árum

Veftímaritið Lemúrinn hefur á síðustu mánuðum fundið mikið af gömlum ljósmyndum af Íslandi frá gömlum tímum.

Nú birtir Lemúrinn frábærar myndir af síðu Landmælinga Íslands sem teknar voru af dönskum landmælingamönnum á fyrsta áratug 20. aldar.

Það er full ástæða til að vekja athygli á þessu, sjáið hérna.

Lemúrinn birtir aðeins hluta myndanna, en birtir líka tengil yfir á síðu Landmælinga, þar sem ennþá fleiri myndir er að finna.

Þessar myndir gefa mjög merkilega mynd af íslenskum veruleika fyrir rétt rúmlega hundrað árum.

Hérna er ein:

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.1.2013 - 10:43 - FB ummæli ()

Þjóðsaga verður til

Þjóðsögur eru eðli málsins samkvæmt yfirleitt sprottnar upp á fyrri tíð og sjaldnast vitum við hvenær þær urðu til eða hverjir hleyptu þeim fyrst af stokkunum.

Það er hins vegar skemmtilegt að fá að verða vitni að sköpun nýrrar þjóðsögu.

Nú er nefnilega að verða til þjóðsagan um „hið veika íslenska flokkakerfi“. Það hversu veikt íslenska flokkakerfið sé beri í sér rót flestra vandamála okkar, og einkum og sér í lagi hrunsins.

Yfirleitt fylgir sögunni að hinar hógværlegu tillögur í nýja stjórnarskrárfrumvarpinu um möguleika á svolítið auknu persónukjöri séu einmitt stórvarasamar, af því þar með veikist hið veika íslenska flokkakerfi enn.

Og íslensk pólitík verði líklega ofurseld frægu sjónvarpsfólki úr 101 Reykjavík, eins og stundum fylgir sögunni.

Rétt eins og hið veika íslenska flokkakerfi náði ekki að standa gegn útrásarvíkingunum vondu. Betur að það hefði verið mun sterkara!

Þessi þjóðsaga, sem nú er að verða til, er merkileg af því hún er röng.

Íslenska flokkakerfið hefur aldrei veikt verið. Þvert á móti hefur það verið firna öflugt og lagt lamandi hönd sína yfir allt íslenskt þjóðlíf, bæði fyrr og síðar.

Það er nú ekki eins og það hafi farið mikið milli mála gegnum tíðina.

Þau áhrif sem útrásarvíkingar og bankamenn náðu hér, þau náðust ekki vegna þess að flokkakerfið væri svo veikt, heldur vegna þess að flokkakerfið var svo sterkt.

Það var (og er) beinlínis allsráðandi.

Og þeir kaupsýslubankavíkingar voru skilgetin afkvæmi íslenska flokkakerfisins.

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson gátu ekki fært vildarvinum sínum íslensku bankana af því þeir voru svo persónulega vinsælir, þótt Davíð hafi vissulega verið vinsæll á sínum tíma.

Heldur vegna þess að þeir höfðu flokksmaskínur sem lágu yfir samfélaginu eins og mara og réðu bókstaflega öllu, og þeir voru sjálfir afsprengi hins gríðarsterka íslenska flokkakerfis.

Nei, ég held það sé engin ástæða til að hafa þungar áhyggjur af lýðræði í landinu þótt fólk fái að hafa örlítið meira um það að segja hverjir setjist á Alþingi.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.1.2013 - 15:58 - FB ummæli ()

Líka fyrir framsóknarmenn og sjálfstæðismenn

Hörður Torfason stóð fyrir útifundi á Austurvelli áðan þar sem Alþingi var hvatt til að afgreiða nýju stjórnarskrána. Þrátt fyrir að ekki viðraði vel til útifunda var þarna góður hópur af fólki samankominn. Ég flutti eftirfarandi pistil:

Gott fólk.

Hér erum við aftur samankomin, líkt og veturinn fyrir fjórum árum þegar stjórnvöld í landinu ætluðu að hunsa kröfu svívirtrar þjóðar um að þau hypjuðu sig frá völdum – eftir að hafa, ásamt næstu stjórnum á undan, lagt hér allt í rúst, og valdið hér svo miklu og snöggu efnahags- og siðferðishruni að þess eru fá dæmi í sögunni.

Samt sáu stjórnvöldin enga ástæðu til að þau færu frá, nei, raddir fólksins skyldu að engu hafðar, fólkið átti ekki að vera með puttana í þessu, látum sérfræðingana um að stjórna, farðu heim, alþýða, þú hefur ekkert vit á þessu.

En gott fólk, það tókst um síðir að leiða hinni óhæfu ríkisstjórn fyrir sjónir að hún gæti ekki og mætti ekki stjórna lengur, hún hefði enga siðferðilega burði til þess, hún yrði að fara frá.

Það tókst með því að standa hér á Austurvelli á útifundum mánuðum saman, efla samstöðu og samhug, sýna fram á að svívirt fólk lætur ekki bjóða sér hvað sem er.

Og nú stöndum við hér aftur. Tilgangurinn er svolítið annar, formerkin ólík, en það er samt ýmislegt skylt með þessum fundi, og þeim sem við mættum hér á fyrir fjórum árum.

Aftur höfum við uppi kröfur á hendur stjórnvöldum, nú gegn sjálfu Alþingi frekar en endilega ríkisstjórninni, nú gegn stjórnarandstöðunni ekkert síður en stjórnarflokkunum – þær kröfur að þingið afgreiði án umtalsverðra tafa það frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem nú hefur verið lagt fram, eftir langan og merkilegan undirbúning, frumvarp sem er reyndar einn helsti afraksturinn af öllum fundahöldunum okkar hérna fyrir fjórum árum síðan.

Þessi nýja stjórnarskrá er vafalaust ekki fullkomið plagg – ekkert plagg er alveg alfullkomið – og endilega, ef hægt er að betrumbæta orðalag og skýra merkingu, þá gerið það, en drífið í því, því það er þrátt fyrir allt ekkert svo flókið, en ekki fara að fabúlera og fjargviðrast um hvert einasta smáatriði, sem flestöll eru reyndar löngu útrædd – ekki eyða tímanum bara til þess eins að eyða tímanum, svo ekki verði neitt úr neinu.

Það mun nefnilega ekki gleymast svo glatt, ef þau vinnubrögð verða ofan á. Því þótt hún sé kannski ekki fullkomin, þá eru þó í þessari nýju stjórnarskrá svo miklar umbætur fyrir okkur – fólkið í landinu – að það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að hún fái að koma, efnislega óbreytt, í stað þeirra gömlu og úreltu sem Alþingi og öllum sérfræðingum þess hefur ekki tekist að betrumbæta svo miklu nemi í sjötíu ár.

Af hverju skyldi það aldrei hafa tekist? Jú, alveg áreiðanlega vegna þess að þeir sem settir voru til verksins ráku sig alltaf á hagsmuni einhverra valdastétta eða valdablokka – það mátti ekki hrófla við valdinu, klíkunum og hinum makráðu valdsherrum við kjötkatlana – því var ekkert gert.

En um stjórnlagaráð, sem lagði með fyrirsögn frá þjóðfundi og dyggri aðstoð sérfræðinga og ekki síst fólksins í landinu, grunninn að hinni nýju stjórnarskrá – um það má segja að hvað sem öðru líður og hvaða skoðun sem menn hafa á því ráði, þá settust stjórnlagaráðsmenn á rökstóla til að semja betri grunnlög fyrir fólkið í landinu, allt fólkið í landinu, ekki fyrir hagsmunaaðila, ekki fyrir valdastéttirnar, og ekki fyrir klíkurnar.

En að við þurfum svo að koma hér saman á útifund til að heimta fullnaðar-afgreiðslu málsins af alltof tregu Alþingi, það er vissulega ansi sorgleg staðreynd.

Gott fólk.

Ég skil ekki þann andróður sem stjórnarskrárfrumvarpið hefur lent í á þinginu.

Ég hreinlega skil hann ekki. Ég botna ekki í því af hverju allur þorri þingmanna í þinghúsinu hér við Austurvöll er ekki akkúrat núna ískrandi kátur að ganga kannski frá nokkrum lausum endum við þetta frumvarp, snurfusa svolítið orðalagið svo það verði enn skýrara og betra, en fyrst og fremst, af hverju eru þingmennirnir ekki nú þegar að búast til atkvæðagreiðslu um þetta frumvarp, sem mun marka tímamót í sögu þjóðarinnar.

Þegar hún fær nýja stjórnarskrá sem verður svo miklu miklu betri en sú gamla.

Ég skil ekki og mun aldrei skilja af hverju nánast hver einn og einasti þingmaður telur sig ekki fullsæmdan af því að taka þátt í því verki, sem þó hefur farið fram í einu og öllu samkvæmt ákvörðun Alþingis sjálfs, og hlaut síðan skýra blessun þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu í október síðastliðnum.

Nei, ég skil ekki af hverju þingmenn telja sig ekki fullsæmda af því að taka þátt í þessu. Mér finnst jafnvel að þeir ættu fremur að líta á það sem nokkurt hrós í sitt heldur snjáða hnappagat að geta greitt atkvæði nýrri stjórnarskrá, sem samin var í fylgd þjóðarinnar sjálfrar, og á þann hátt að vakið hefur athygli og aðdáun langt út fyrir landsteinana.

Það má alveg fylgja sögunni, það er því miður ekki of oft sem eitthvað úr íslenskri stjórnsýslu þykir afreksverk í útlöndum.

En nei, svona líta ekki allir þingmenn á málið, því miður. Furðulega stór hluti þingmanna virðist ekki sjá sóma sinn og skyldu í því að fara að skýrri niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar í október síðastliðnum.

Sá hluti þingmanna situr ekki við borðið sitt glaðbeittur að ljúka við að snurfusa þetta og gera hvaðeina sem verða má til að frumvarpið verði sem fyrst að lögum.

Nei, þessi hluti þingmanna segist þurfa að ræða um málið alveg frá grunni, eins og það hafi aldrei dúkkað upp áður, þetta sé allt alveg gjörsamlega órætt – og muni kosta langar ræður og þung andsvör.

Þessi hluti þingmanna ætlar augljóslega að gera hvaðeina sem hann getur til að tefja málið og stöðva.

En hið skammarlega málþóf sem orðið er plagsiður á þingi, og er svo átakanlegt merki um hversu brýnt það er að bæta stjórnsýsluna í þessu landi – bæta hana og svo margt fleira, eins og líka er ætlunin að gera með nýju stjórnarskránni – það málþóf má ekki stöðva umbæturnar sem nýja stjórnarskráin hefur í för með sér.

Og ég skil ekki, ég botna bara ekki í því að talsverður hluti þingmanna, sem eiga að vera fulltrúar þjóðarinnar, skuli ætla að láta um sig spyrjast að eitt helsta afrek þeirra á þingi hafi verið að leggja stein í götu nýrrar og betri stjórnarskrár.

Stjórnarskrár sem hefur vantað svo undarlega lengi.

Og eins og ég drap á áðan: það eru einmitt þingmenn á Alþingi Íslendinga hafa reynst algjörlega ófærir um að semja slíkt plagg frá grunni, og einmitt þeir fræðimenn sumir – bara sumir – sem nú geta ekki til þess hugsað að hér taki gildi stjórnarskrá sem þeir hafi ekki sjálfir vélað um – og það þótt þeim hafi reyndar verið boðið að taka þátt í ferlinu.

Núna, einmitt núna þegar það er loksins búið að semja nýja stjórnarskrá, þá skulu lappirnar dregnar.

Stjórnarskrá sem ég ítreka enn að er alveg ágætis plagg, og mun verða til mikilla bóta í samfélaginu.

Og það er líka nauðsynlegt halda því til haga og leggja reyndar á það þunga áherslu, að þótt margvíslegar athugasemdir hafi vissulega komið fram við nýju stjórnarskrána, eins og eðlilegt má heita – þá er þar fyrst og fremst um að ræða allskonar smekksatriði hér og vangaveltur þar – á þetta að vera svona eða ætti það að vera hinsegin? – en það hefur enginn, ég fullyrði það, enginn hefur sýnt fram á með sannfærandi rökum að það séu einhverjir alvarlegir byggingargallar í frumvarpinu, eitthvað sem hættulegt getur kallast fólkinu í landinu, og lýðræðinu í landinu.

En sem sé núna, einmitt núna, þegar þessi stjórnarskrá er komin fram og ekki eftir mörgu að bíða að afgreiða hana, þá koma menn sumsé fram í dagsljósið – menn sem sjá ekkert nema meinbugi á ferlinu.

Núna er til dæmis allt í einu einstaklega ómerkilegt að það skuli hafa verið haldinn þjóðfundur, núna heitir þessi þjóðfundur, sem er öfundarefni annarra þjóða – núna heitir hann föndur með gula miða.

Og núna heitir stjórnlagaráð, þar sem mjög ólíkir einstaklingar komu saman og náðu ótrúlegt nokk samhljómi og samstöðu þrátt fyrir erfið og flókin ágreiningsmál – núna heitir það snakksamkoma nokkurra einsleitra miðborgarbúa úr Reykjavík – sem er þó svo gjörsamlega fjarri sanni.

Og sumir telja sig meira að segja sjá í nýju stjórnarskránni þá stórkostlegu ógn við lýðræði í landinu að hún feli í sér alltof mikið lýðræði í landinu!

Ég skil ekki þessi viðbrögð, og ég mun aldrei skilja þau. Nýja stjórnarskráin mun auðvitað ekki leysa öll mál á Íslandi í einni svipan.

Fjarri því. En hún mun bæta stjórnsýsluna, hún mun bæta upplýsingagjöf og gegnsæi í kerfinu, hún mun auka lýðræði í landinu, gera bæði stjórnvöld og almenning ábyrgari, hún mun gera mjög auknar kröfur um fagleg vinnubrögð, hún mun skýra og skilgreina réttindi fólksins, ekki síst þeirra sem minnst mega sín – hún mun kveða skýrt á um hin ýtrustu mannréttindi – hún mun verða til að vernda betur viðkvæma náttúru okkar og umhverfi – hún mun taka af skarið um að sameiginlegar auðlindur eru og verða í eigu þjóðarinnar allrar.

Og þar er kannski kominn mergurinn málsins og helsta skýringin á þeim undarlega mótbyr sem nýja stjórnarskráin hefur mætt – það eru sterk öfl í samfélaginu sem vilja ekki auðlindir í þjóðareigu, og eru til í að berjast til síðasta blóðdropa til að það verði ekki að veruleika.

En eigum við að leyfa þeim að ráða því?

Af því ég átti örlítinn þátt í að semja þessa nýju stjórnarskrá er ég þrátt fyrir allt svolítið feiminn við að lofa hana alltof mikið og prísa, eins og ég hef þó gert í þessari tölu, en það er enginn vafi – það samfélag sem styðjast mun við nýju stjórnarskrána verður betra, óspilltara og opnara en það þjóðfélag sem var hér í rústum fyrir fjórum árum síðan – það verður betra, ég skal lofa ykkur því persónulega – og það verður betra og heilbrigðara fyrir okkur öll.

Líka fyrir framsóknarmenn og líka fyrir sjálfstæðismenn.

Að minnsta kosti fyrir alla almenna framsóknarmenn, hvar sem er á landinu sem þeir búa, og alla almenna sjálfstæðismenn, hvar í stétt sem þeir standa – kannski helst sægreifarnir undanskildir, kannski fá þeir ekki alveg eins frjálsar hendur um okkar eigur.

Fyrir allan almenning hvar í stétt og flokki sem fólk stendur verður nýja stjórnarskráin hins vegar svo miklu betri en sú gamla.

En ýmsir útsendarar og viðhlæjendur hinna gömlu valdhafa eru þá komnir upp á afturlappirnar og vilja halda í hið gamla og kunnuglega valdakerfi, sem þeir kunna á, sem þeir mótuðu sjálfir, sem þeir vilja fá að ríkja áfram yfir, rétt eins og fyrrum þegar ríkið, það voru þeir.

En ríkið er ekki þeir, ríkið er fólkið í landinu, við öll, og við höfum þegar lýst skoðun okkar – já, við gerðum það með þátttöku í því ferli sem skóp nýju stjórnarskrána, við gerðum það í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október, og með fullri og alveg hyldjúpri virðingu fyrir alþingismönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, þá eigum við að fá að ráða þessu – ekki þeir. Því ríkið, það eru ekki þeir.

Ríkið er við, og þetta er stjórnarskráin okkar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.1.2013 - 16:39 - FB ummæli ()

Þeir sem eiga um sárt að binda

Margt er athugavert í samfélagi okkar, það er mála sannast.

En við erum þó yfirleitt ekki í lífshættu og við höfum nóg að bíta og brenna.

Ólíkt hinum stríðshrjáðu Sýrlendingum, en þótt minna hafi farið fyrir hörmungum þeirra í fréttum hér síðustu vikur en var um skeið, þá hefur ástandið í landi þeirra alls ekki batnað.

Þvert á móti eiga þar æ fleiri um sárt að binda í ýmsum skilningi þess orðs, ekki síst börnin.

Í haust gerði Fatímusjóðurinn sem móðir mín og fleiri vinir Miðausturlanda halda úti myndarlegt átak og safnaði töluverðu fé sem komið til þurfandi fólks í Sýrlandi.

Nú er Fatímusjóðurinn kominn af stað á ný í von um að lina megi þjáningar umtalsverðs hóps af sýrlenskum börnum og ungmennum.

Fé verður safnað handa hungröðum og þjökuðum Sýrlendingum sem flúið hafa til Zatari-búðanna í Jórdaníu. Þar hefst fólk við, hrætt og illa haldið.

Ef þið getið lagt eitthvað af mörkum, endilega leggið inn á reikning 342 – 13 – 551212 og kt 140240-3979.

Allt mun skila sér á áfangastað, og kom að góðum notum. Jafnvel bjarga mannslífum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.1.2013 - 19:37 - FB ummæli ()

Ekki missa af …

Makbeð er líklega einhver stysti og skýrasti harmleikur Shakespeares. Þar er ekkert illskiljanlegt á ferðinni – bara hrein dramatík og orðkynngi.

Og fólk í heljargreipum metnaðar.

Þjóðleikhúsið er að sýna Makbeð núna, og það er ástæða til að hvetja fólk til að skella sér. Leikritið verður nefnilega aðeins sýnt út janúar, vegna annarra verkefna í húsinu.

Drífið ykkur; það er aldrei að vita hvenær tækifæri gefst næst. Og sendið krakkana ykkar – þá sem eru orðnir táningar. Þeir hafa gott af því að kynnast Shakespeare.

Ný þýðing Þórarins Eldjárns, sérlega áheyrileg, gerir að verkum að enginn vandi er að skilja allt sem fram fer.

Sýningin er ekkert hinn endanlegi punktur aftan við nafn Shakespeares; hver áhorfandi getur haft sína skoðun á ýmsum lausnum. En þetta er Shakespeare og krafturinn er þarna.

 

Ég gerði innsláttarvillu í fyrstu gerð þessa pistils, þannig að þar stóð að þýðing Þórarins væri „óheyrileg“. Það er að sjálfsögðu tómt tjara, og þýðingin er sérlega ÁHEYRILEG.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!