Þriðjudagur 1.1.2013 - 18:49 - FB ummæli ()

Hlakka til að fá liðsinni Ólafs Ragnars

Ólafur Ragnar Grímsson fjallaði meðal annars um frumvarpið að nýrri stjórnarskrá í ágætu nýársávarpi sínu frá Bessastöðum.

Hann sagði þar kost og löst á frumvarpinu frá sínum sjónarhóli, og eftirfarandi orð glöddu mig sérstaklega:

„Góðar hugmyndir birtust svo í tillögum stjórnlagaráðs og njóta margar víðtæks stuðnings. Ný ákvæði um rétt þjóðarinnar til að krefjast atkvæðagreiðslu um hin stærstu mál, ótvíræð þjóðareign á auðlindum, aukið sjálfstæði dómstóla og víðtækari mannréttindi – allt er þetta og margt annað til bóta.“

Ég hefði vissulega haft gaman af því að hann tjáði sig nokkru ítarlega um þetta, því það er mála sannast að sum bestu ákvæðið í stjórnarskrárfrumvarpinu – svo sem einmitt um þjóðareign á auðlindum og víðtækari mannréttindi – sæta furðu miklum aðfinnslum úr ýmsum áttum.

Það hefði aldeilis ekki verið ónýtt að fá skýrara liðsinni Ólafs Ragnars Grímssonar í baráttunni fyrir þeim.

Til dæmis og ekki síst auðlindaákvæðinu.

En hann tjáir sig þá væntanlega bara betur um það – og mannréttindaákvæðin – síðar.

Í staðinn fór hann að þessu sinni fleiri orðum um það, sem hann gerir athugasemdir við – en það laut fyrst og fremst að hinni æðstu stjórnskipan landsins.

Ekki þarf í sjálfu sér að koma á óvart þótt hann sé ekki endilega sammála öllu sem fram kemur í stjórnarskrárfrumvarpinu.

Ólafur Ragnar er jú menntaður stjórnmálafræðingur, og hefur staðið í fremstu röð í pólitískri baráttu í áratugi. Auðvitað hafa slíkir menn hver sína sýn á það hvernig best er að haga stjórnskipaninni.

Í stjórnlagaráði – þar sem grundvöllur var lagður að frumvarpinu – voru líka mjög skiptar skoðanir lengi vel. Öll þau sjónarmið sem Ólafur Ragnar nefndi í áramótaboðskap sínum komu til dæmis vel fram í umræðum í stjórnlagaráði.

Í ráðinu sat nefnilega ekki fyrst og fremst fólk „á grundvelli fjölmiðlafrægðar“ eins og stundum er gefið í skyn og bersýnilega er talið afar varasamt.

Þar sátu einnig virtir og hámenntaðir sérfræðingar – stjórnmálafræðingar, lögfræðingar, hagfræðingur, stærðfræðingar, heimspekingur og ýmsir aðrir fullgildir fulltrúar fræðasamfélagsins.

Þá hafði ráið sér til aðstoðar hóp valinkunnra lögfræðinga og leitaði ráða hjá heilmörgum sérfræðingum af ýmsu tagi. Og það naut góðs af vönduðu undirbúningsstarfi stjórnlaganefndar þar sem sátu líka vandaðir sérfræðingar, flestir lögfræðingar.

Það kom fljótlega í ljós að sérfræðingarnir voru alls ekki á einu máli um hvernig haga bæri ákvæðum um breytingar á stjórnskipan Íslands. Skoðanir þeirra voru mjög skiptar. Athugasemdir þeirra við störf stjórnlagaráðs voru, og eru, nefnilega alls ekki allar samhljóða, öðru nær.

Það var hins vegar verkefni stjórnlagaráðs að fjalla um allar hinar ólíku hugmyndir og tala sig saman að góðri niðurstöðu sem allir gátu verið ánægðir með.

Og það gerði stjórnlagaráð með svo ágætum árangri að allir 25 stjórnlagaráðsmenn greiddu tillögum ráðsins atkvæði sitt að lokum.

Á leiðinni þangað hafði semsé verið fjallað oft og ítarlega um allar þær hugmyndir og aðfinnslur og gagnrýnisefni sem síðan hafa komið fram. En leið stjórnlagaráðs varð einfaldlega ofan á.

Þannig tókst loks að klára það verk sem íslenskir stjórnmálamenn hafa reynst ófærir um í áratugi, þrátt fyrir góðan og margyfirlýstan vilja þeirra til að skrifa nýja stjórnarskrá fyrir Ísland.

Með þessu á ég ekki við að niðurstaða stjórnarskárfrumvarpsins sé endilega fullkomin, eða hin eina rétta.

En ég fullyrði hins vegar að aðkoma sérfræðinganna í og á snærum stjórnlagaráðs, og alveg sérstaklega sú aðgæsla sem sumir í ráðinu tóku að sér (með góðum árangri) að sýna gagnvart öllu sem virtist nokkur minnsti glannaskapur – þetta fullyrði ég að hafi valdi því að í stjórnarskrárfrumvarpinu er ekkert ískyggilegt á ferðinni.

Nei, stjórnskipunarkaflinn er greinilega ekki skrifaður eins og Ólafur Ragnar Grímsson hefði helst kosið – það er auðvitað leiðinlegt, en þessi kafli er samt ekkert hættulegur.

Eina lexíu lærðum við í stjórnlagaráði.

Að semja um niðurstöðu í flóknum málum, og kyngja niðurstöðunni þótt hún væri ekki alltaf í fullkomnu samræmi við prívatskoðanir hvers og eins. Og stökkva ekki til og láta eins og himinn og jörð myndu farast, þótt við fengjum ekki allt okkar fram.

Þau vinnubrögð leyfi mér að fullyrða að hafi verið til eftirbreytni, og það voru þau gerðu okkur kleift að leggja þann grundvöll að nýrri stjórnarskrá sem Alþingi fjallar nú um og mun væntanlega afgreiða fyrr en síðar.

Sá grundvöllur er áreiðanlega ekki fullkominn. En ég held samt að hann sé bara býsna góður, og ég held sérstaklega að hann sé miklu betri en sú stjórnarskrá sem við búum nú við – líka stjórnskipunarkaflinn, sem er sannarlega ekkert hættulegur – og ég hlakka til að fá liðsinni Ólafs Ragnars Grímssonar við að berjast fyrir auðlindaákvæðinu, auknum mannréttindum og öðru því sem til bóta er.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 30.12.2012 - 14:38 - FB ummæli ()

Lítið tjón?

Áður en lengra er haldið: Ég skil lítið í refilstigum hinna flóknari fjármála. Því er ég sosum enginn maður til að meta sekt eða sakleysi í flóknum dómsmálum út af peningum – eins og Vafningsmálinu.

Ég verð samt að segja – ansi þótti mér undarleg sú staðhæfing sem sett er fram í dómnum að verknaður hinna ákærðu, sem talinn er saknæmur, hafi ekki valdið miklu tjóni og því skuli hinir ákærðu ekki dæmdir til mjög þungrar refsingar.

Lánið fræga uppá 10 milljarða hafi jú verið endurgreitt nokkrum dögum eftir hina misráðnu fléttu.

Í fyrsta lagi – maður var dæmdur á Hraunið í fimm mánuði fyrir að stela sér til matar í 10-11. Tjón verslunarkeðjunnar mældist nokkur þúsund krónur.

Ekki nenni ég að fletta upp hver er velta 10-11. En telst nokkur þúsund kall sem sagt vera „mikið tjón“ sem því skuli dæma hart fyrir?

Í öðru lagi – hvernig er hægt að segja að þessi flétta hafi ekki valdið „miklu tjóni“? Ef þessi flétta hefði ekki farið fram, þá hefði Glitnir að öllum líkindum farið strax á hausinn í febrúar 2008.

Tjónið, ekki bara af hruni Glitnis heldur síðan alls bankakerfisins, hefði orðið miklu, miklu minna en raunin varð hálfu ári síðar.

Líka fyrir hluthafa Glitnis. (Nema náttúrlega þá lukkunnar pamfíla sem hófust nú handa um að selja hlutabréfin sín.)

Af þessum tveimur sökum, er þá ekki fullyrðing dómarans um hið litla tjón dálítið einkennileg?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.12.2012 - 13:08 - FB ummæli ()

Vel heppnaðir viðskiptamenn

Frjálsri verslun tókst hér á árum áður ekki alltaf vel upp með val á viðskiptamanni ársins.

En í þetta sinn hlýtur maður að fagna vali blaðsins á þeim Jóhanni Páli Valdimarssyni og Agli Erni syni hans, en þeir reka Forlagið – langstærstu bókaútgáfu landsins.

Sjá frétt Vísis um útnefningu Frjálsar verslunar hér.

Þeir eiga þetta fyllilega skilið. Ekki aðeins hafa þeir rekið fyrirtæki sitt vel, heldur hafa þeir líka haft vit á að fá til sín gott starfsfólk.

Mest er þó um vert að þeir eru í þessu af metnaði og … já, ég held ég verði að segja hugsjón.

Þeir hafa gegnum tíðina gert fullt af hlutum sem engin von var til að skiluðu gróða en höfðu menningarlegt og samfélagslegt gildi.

Þvert oní það sem Jóhann Páll sjálfur heldur gjarnan fram, þá eru þeir auðvitað ekki alveg heilagir menn!

En þeir eru bestu bókaútgefendur sem Ísland hefur alið, á því er enginn vafi.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.12.2012 - 20:56 - FB ummæli ()

Vídeóleigan og 300 milljón króna lánið

Þeir sem fóru fyrir „íslenska efnahagsundrinu“ halda því stundum fram að bankahrunið haustið 2008 hafi nú eiginlega alls ekki verið þeim að kenna.

Það hafi nefnilega orðið alþjóðleg peningakreppa, eða eitthvað, sem þeir hafi ekki átt neina sök á.

Og svo fara þeir að tala um Lehmann Brothers, og fyrr en varir eru þeir hvítþvegnir allir að sjá.

Sjálfsagt er eitthvað til í því. Ég er alveg til í að trúa því.

En svo sér maður fréttir eins og þessa hér:

 

 

Og þá rifjast aftur upp fyrir manni hvílík dómadags þvæla hefur verið á ferðinni hér. Að vídeóleiga hafi árið 2007 fengið 300 milljónir króna að láni – einmitt í þann mund að fyrirsjáanlegt mátti heita að vídeóleigur ættu ekki ýkja mörg ár eftir ólifuð í óbreyttri mynd – það er náttúrlega svo klikkað að þetta gat varla endað öðruvísi en með ósköpum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.12.2012 - 16:37 - FB ummæli ()

Örlög og tilviljanir

Í fyrradag var ég að skauta um netið til að undirbúa útlandabloggið mitt á Pressunni. Þá rakst ég á frásögn um Joachim Peiper, þýskan SS-herforingja sem framdi stríðsglæpi í seinni heimsstyrjöldinni en saup seyðið af því 30 árum eftir stríðslok.

Þá var hann búsettur í Frakklandi og fyrrum andspyrnumenn gegn þýska hernámsliðinu kveiktu í húsinu hans og brenndu hann inni.

Þetta var allt ansi forvitnilegt og þegar ég fór að lesa um Peiper þennan rakst ég til að mynda á frásögn um aðild hans að fjöldamorðinu í Malmedy. Það var smáþorp í Belgíu þar sem Peiper og menn hans drápu 80 bandaríska stríðsfanga þann 17. desember 1944. Aðeins örfáir Bandaríkjamenn komust undan morðæði þýsku SS-mannanna.

Eftir stríð voru Peiper og fleiri dæmdir fyrir dauða fyrir aðild sína að fjöldamorðunum, en dauðadómunum var breytt í lífstíðarfangelsi. Talið var að upprunalegu réttarhöldin hefðu verið gölluð, vitnisburður hefði í sumum tilfellum náðst fram með pyntingum o.fl.

Peiper sat inni í 11 ár en var þá látinn laus. Hann fékk um tíma gott starf hjá Porsche-bílaverksmiðjunum, en varð að hverfa úr því þegar andúð vegna stríðsglæpa hans kom upp á yfirborðið.

Að lokum urðu fyrrum franskir andspyrnumenn honum sem sé að bana.

Þetta var ég sem sé að skoða af einhverri rælni í fyrradag. Kannski skrifa ég nánar um þetta einhvern tíma.

En í bili er ég að nefna þess vegna þess að ég fór áðan að lesa frétt í netútgáfu New York Times um andlát leikarans Charles Durning. Hann dó í gær 89 ára gamall.

Nafn Durnings er ekki mjög þekkt en á árunum 1970-90 lék hann stór aukahlutverk í fjölda ágætra mynda og stóð sig alltaf vel. Hann var einn þeirra leikara sem urðu manni eftirminnilegir þótt hann yrði aldrei það sem kallað er „stjarna“.

Og mér til heilmikillar undrunar les ég þar að Charles Durning var einmitt einn þeirra sárafáu bandaríska hermanna sem komust lífs af undan Peiper og mönnum hans í Malmedy árið 1944, eða fyrir 68 árum – nánast upp á dag.

Furðuleg tilviljun – en Durning, sá viðkunnanlegi leikari, varð reyndar fyrir djúpum sárum, bæði andlega og líkamlega, í seinni heimsstyrjöldinni þótt hann slyppi lífs undan Joachim Peiper.

Hann sagði einu sinni svo frá: „Ég var á leiðinni yfir akur einhvers staðar í Belgíu. Þýskur hermaður hljóp í áttina að mér með byssusting á lofti. Hann getur ekki hafa verið meira en 14 eða 15 ára. Ég sá engan hermann. Ég sá bara smástrák. Þó hann stefndi beint á mig gat ég ekki skotið hann.“

Í staðinn reyndi Durning, sem þá var 21s árs að aldri, að ná byssustingnum af drengnum. Þeir slógust lengi og Durning var stunginn sex eða sjö sinnum og var illa særður. Loks náði Durning taki á steini og notaði hann sem vopn. Hann sló frá sér og drap þýska piltinn.

Eftir að hafa orðið honum að bana sat hann lengi með lík drengsins í fanginu og grét.

Þetta er Durning:

Þetta er aftur á móti Joachim Peiper:

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.12.2012 - 21:45 - FB ummæli ()

Gísli á Uppsölum

Það allra óvæntasta í því jólabókaflóði sem brátt sér fyrir endann á er vitaskuld ótrúleg velgengni bókarinnar um Gísla á Uppsölum eftir Ingibjörgu Reynisdóttur.

Það er óhætt að segja að bókin hafi hitt Íslendinga í hjartastað.

Ég skal fúslega viðurkenna að áður en ég las bókina var ég ekki alveg viss um erindi hennar.

En eftir að hafa lesið hana var mér það ljóst.

Þetta er harmsaga um mann sem einangrast gjörsamlega af ýmsum ástæðum, og lifir síðan ótrúlegu lífi. Þótt einelti sem hann varð fyrir vegi þar þungt er alls ekki dregin fjöður yfir aðrar ástæður, hvorki ytri né innri.

Og lýsingin á því hvernig lífi Gísli lifði er sterk. Reynum að ímynda okkur hvernig hann kúrði í niðdimmum og köldum bæ sínum mánuðum saman án þess að hitta eða tala við eina einustu manneskju. Mann eiginlega sundlar við tilhugsunina.

Samt náði hann að þroska huga sinn, lifa vitsmunalífi, yrkja ljóð og hugleiða hin dýpstu rök tilverunnar.

Og þegar skyggnst var bak við hrjúft yfirbragð hins sérviskulega einsetumanns, þá birtist í skeggi hans hans fallegt og feimnislegt bros, og undan hattkúfnum fræga blikaði glettni í augnaráðinu.

Það er þetta sem Ingibjörg Reynisdóttir sýnir svo vel í sínum einfalda og einlæga texta í bókinni um Gísla á Uppsölum.

Þetta er ekki vísindaleg ævisaga heldur samantekt um líf einnar manneskju, og hún er unnin af bæði hlýju og vandvirkni. Þess vegna hefur hún slegið í gegn. Og þess vegna völdu bóksalar hana bestu ævisögu ársins, þótt af mörgum góðum bókum væri að taka.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.12.2012 - 19:13 - FB ummæli ()

Allskonar ósköp

Mér er vissulega málið ögn skylt en ég ætla að leyfa mér að vekja athygli á skemmtilegri og töluvert merkilegri bók sem kemur út nú fyrir jólin.

Það er Svarta bókin, safn frásagna um allskonar ósköp sem dunið hafa yfir mannkynið – fyrst og fremst af eigin völdum.

Það má eiginlega segja að þetta séu hálfgerðar hryllingssögur, en þó bæði sannar og skrifaðar þannig að engum þarf að blöskra. Þvert á móti eru þær skrifaðar af alúð og jafnvel dálitlum húmor þar sem það á við.

Kolbrún Bergþórsdóttir sagði í Morgunblaðinu um bókina: „Fjölmargar … sögur um myrkar hliðar mannlífsins eru raktar í læsilegri, spennandi og hrollvekjandi bók sem þeir fróðleikfúsu lesa upp til agna.“

Og það eru orð að sönnu. Þarna er sagan um byssubófann í villta vestrinu, sem var breytt í skó eftir dauða sinn, um japönsku kommúnistana sem bjuggu sér til sitt eigin ömurlega einræðisríki, um einhvern dularfyllsta glæpinn í sögu Þýskalands, um mannætuljónin sem réðust gegn breska samveldinu, um fyrsta þjóðarmorðið í Afríku sem fáir vita nú um, um flokk rússneskra fjallgöngumanna sem fórust allir af svo dularfullum ástæðum að það var flokkað sem ríkisleyndarmál í áratugi …

Og er þá fátt eitt talið.

Það er alveg rétt að þeir fróðleiksfúsu og þeir sem vilja kynnast ýmsum hliðum mannlífsins og líka þeim myrku, þeir munu lesa þessa bók upp til agna.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 16.12.2012 - 18:03 - FB ummæli ()

Skemmtilegustu tímarnir!

Ég er því miður enginn músíkant og fylgdist núorðið afar tilviljanakennt með nýrri tónlist.

En þegar ég var um tvítugt eða þar um bil, fannst ég spennandi að taka þátt í þeirri umbyltingu íslensks tónlistarlífs sem Friðrik Þór Friðriksson lýsti svo eftirminnilega í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík.

Þegar Bubbi Morthens og Utangarðsmenn komu fram á sjónarsviðið, og pönk- og nýbylgjan.

Manni fannst þetta vera æsilegir tímar.

Það er gaman að rifja upp aftur kynnin við þessa tíma í poppsögu dr. Gunna, Stuð vors dags. Þetta er stórbrotin bók, bæði hvað snertir texta og útlit, og vissulega er gaman að kynnast bæði fyrri tímum – því bókin hefst á 19. öld – og hinu allra nýjasta – því bókinni lýkur á velgengni Of Monsters and Men nú á haustdögum.

En sjálfsagt þykir öllum skemmtilegast að lesa um „sína tíma“, og í mínu tilfelli eru það tímarnir um 1980 þegar allt var að gerast:

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.12.2012 - 13:18 - FB ummæli ()

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að hlutast til um guðfræði útvarpsmessunnar, je!

Sjálfstæðismenn gera sér miklar vonir um að komast til valda í vor, og eru þegar byrjaðir að sýna forsmekkinn að því sem koma skal.

Um daginn upplýsti Jón Steinar Gunnlaugsson að réttast væri að reka Egil Helgason frá RÚV.

Nú sýnir Sigríður Andersen að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar líka að stjórna útvarpsmessunni, og hlutast til um að sú guðfræði sem þar er prédikuð sé í samræmi við guðfræði Flokksins.

Merkilegast er að bæði Jón Steinar og Sigríður eru úr heitasta frjálshyggjuarmi Sjálfstæðisflokksins, en sýna stjórnlyndi sitt þegar á reynir.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.12.2012 - 07:37 - FB ummæli ()

Eigum við þetta skilið?

Í fjögur ár höfum við beðið eftir því að stjórnmálastéttin á Íslandi dragi lærdóma af hruninu.

Leggi af átakapólitíkina og fari að vinna saman að landsins gagni og nauðsynjum.

Í því felst auðvitað ekki að allir eigi alltaf að vera sammála, en í því felst að ekki sé eytt tíma eða orku í innihaldslausa hanaslagi. Og virðing sé sýnd andstæðum sjónarmiðum.

Við getum fylgst með því á kvöldin á Alþingisrásinni í sjónvarpinu hvernig til hefur tekist.

Hinu glórulausa málþófi og „andsvörunum“.

Það er svo innilega sorglegt að horfa upp á sjálfstæðismenn og framsóknarmenn skrumskæla svo vonir okkar og væntingar um betra stjórnmálalíf eftir hrunið.

Mikið hljótum við að hafa gert af okkur í fyrra lífi ef við eigum þetta skilið.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!