Miðvikudagur 31.10.2012 - 11:49 - FB ummæli ()

„Hún sagðist vera dáin“

Tveir býsna ungir piltar á leið í skólasund voru að spjalla saman í búningsklefanum í Vesturbæjarlauginni í morgun.

„Veistu að elsta konan í Frakklandi er 160 ára? Hún er líka dáin.“

„Nei,“ sagði hinn, „ég sá hana í sjónvarpinu og hún var lifandi.“

„Nehei,“ svaraði sá fyrri. „Ég sá hana líka, en þetta var bara gömul mynd. Hún sagðist vera dáin.“

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.10.2012 - 11:24 - FB ummæli ()

Sandy er ofsaveður, ekki „ofurstormur“

Óveðrið Sandy er víst enn að gera óskunda vestur í Bandaríkjunum og Kanada en telst ekki lengur fellibylur, því dregið hefur úr vindhæð.

Í íslenskum fjölmiðlum hefur verið nokkuð á reiki hvað á að kalla þetta veður og á Vísi.is í morgun var Sandy kölluð „ofurstormur“.

Það er fullkominn óþarfi. Við eigum góð og gild orð yfir nákvæmlega það fyrirbæri sem Sandy er nú.

Sandy er nefnilega ofsaveður.

Í fellibyl af fyrsta styrkleikaflokki er vindhraðinn 33-42 metrar á sekúndu.

Þá er ekki átt við hviður, heldur gegnumgangandi vindstyrk.

Öflugustu fellibyljirnir (í fimmta flokki) eru þeir sem eru ná yfir 70 metra vindhraða á sekúndu.

Það er vindstyrkur sem afar sjaldan hefur mælst á Íslandi. Kannski helst í einni og einni hviðu á Stórhöfða. Og reyndar fyrir rúmum 10 árum á Gunnólfsvíkurfjalli á Langanesi.

En fyrst Sandy nær sem sagt ekki styrk fellibyls, þá er hægt að nota um hana gömlu íslensku veðurheitin, sem illu heillu voru að mestu aflögð þegar hugtakið metrar/sekúndu varð allsráðandi.

Svo vill til að fyrsta stigs fellibylur er jafnsterkur og hæsta stig þessa gamla íslenska kerfis.

„Fárviðri“ var nefnilega vindhæð yfir 32 metrar á sekúndu.

Næsta stig fyrir neðan er „ofsaveður“. Þar er vindstyrkurinn 28-32 metrar á sekúndu (nokkurn veginn).

Þriðja efsta stigið er svo „rok“ – þá er vindhraðinn 24-28 metrar á sekúndu.

Fjórða stigið er svo sjálfur stormurinn, sem nú er næstum eina heitið sem notað er af Veðurstofu Íslands. En „stormur“ samkvæmt gamla kerfinu var 20-24 metrar á sekúndu.

Þá kom „hvassviðri“ sem þýddi 17-20 metra á sekúndu.

Þar fyrir neðan eru svo allhvass vindur, stinningskaldi, kaldi, stinningsgola, gola, kul, andvari og loks logn.

Þótt veðurstofan hafi einhverra hluta vegna lagt þessi heiti á hilluna mættu fjölmiðlar alveg halda þeim á lífi.

Þá þyrftu menn til dæmis ekkert að velkjast í vafa um hvað á að kalla veður eins og Sandy.

Ofsaveður.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 27.10.2012 - 15:45 - FB ummæli ()

Hver nennir að hlusta?

Það skiptir heilmiklu máli hvaða skoðun núverandi forystumenn Sjálfstæðismenn hafa á ýmsum mikilvægum málum nútímans, svo sem gjaldmiðilsmálum, stjórnarskrá og fleiru.

Það skiptir líka máli í hvaða átt ungir sjálfstæðismenn ætla í framtíðinni.

En ég verð að segja að það er alveg stórlega óintressant hvað þeir þusa, þeir beisku og tapsáru fyrrum forystumenn flokksins sem enn geta ekki horfst í augu við að þeirra tími er liðinn.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.10.2012 - 09:19 - FB ummæli ()

Kjörsókn og sátt

Fáeinar athugasemdir

um þjóðaratkvæðagreiðsluna á laugardag

 

Í fyrsta lagi:

Kjörsókn var meiri og stuðningur við tillögur stjórnlagaráðs mun öflugri en flestir virðast hafa gert ráð fyrir.

Um það er engum blöðum að fletta.

Það er kjánalegt að gera lítið úr kjörsókninni. Miðað við allar forsendur málsins og borið saman við álíka atkvæðagreiðslur hér heima og erlendis, þá var kjörsóknin bara í góðu lagi.

Það er enn kjánalegra að gera því skóna að þeir sem sátu heima hefðu kosið á einhvern allt annan veg en hinir sem fóru á kjörstað.

Niðurstöður voru til dæmis í mjög góðu samræmi við síðustu skoðanakönnun sem gerð var um málið.

Ef eitthvað er, þá mætti kannski ætla að heldur fleiri sem hallir voru undir „nei“ hafi drifið sig á kjörstað en hinir, þar sem formaður stærsta stjórnmálaflokksins (í flokksmönnum talið) skrifaði hverjum einasta liðsmanni sínum og hvatti þá til að mæta á kjörstað og segja „nei“.

 

Í öðru lagi:

Vissulega er nú æskilegt að vinna að sem víðtækastri sátt um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Og vonandi gerist það í meðförum Alþingis.

Ef yfirferð lögfræðinga leiðir í ljós einhverja byggingargalla á verki stjórnlagaráðs er bæði sjálfsagt og nauðsynlegt að leiðrétta þá, og allar breytingar sem horfa til aukinnar nákvæmni og skýrari hugsunar verða vel þegnar.

Í þessu sambandi má rifja upp það sem stundum gleymist, að stjórnlagaráð kom jú saman nú á útmánuðunum að beiðni eftirlits- og stjórnskipunarnefndar Alþingis og fór yfir fáeina staði í tillögum sínum, með tilliti til mögulegra breytinga. Væntanlega verður sú vinna nú skoðuð gaumgæfilega af Alþingi.

Og persónulega mundi ég vitaskuld fagna öllum tillögum, hvaðan sem þær koma, sem gætu bætt hið væntanlega stjórnarskrárfrumvarp.

Ég trúi því og treysti að þingmenn vinni saman að því í eindrægni og af hógværu hjarta.

Þingið þarf hins vegar auðvitað ekki að byrja efnislega umræðu frá grunni.

Sú umræða fór fram í stjórnlagaráði, og byggði á mikilli og vandaðri vinnu ýmissa stjórnarskrárnefnda gegnum tíðina, sem og á niðurstöðum Þjóðfundar og ítarlegri skýrslu stjórnlaganefndar. Að ekki sé minnst á tillögur og athugasemdir frá almenningi sem bárust meðan á starfinu stóð.

Og kjósendur hafa nú lýst því yfir að þeim lítist vel á tillögur ráðsins.

Sáttagrundvöllurinn er því þegar fyrir hendi.

Það er til dæmis ljóst að auðlindaákvæðið hlýtur að verða eins og stjórnlagaráð gekk frá því – það hlaut jú stuðning yfirgnæfandi meirihluta kjósenda.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.10.2012 - 09:52 - FB ummæli ()

Eitthvað jákvætt

Guðmundur Andri Thorsson skrifar að mínum dómi skynsamlega um þjóðaratkvæðagreiðsluna í Fréttablaðið í morgun.

Sjá hér.

Ég vek sérstaka athygli á niðurlagsorðunum, og vona að þingmenn sem núna ná tillögurnar til meðferðar taki þau til sín.

Ég sat náttúrlega í stjórnlagaráði, en ég held samt að mér sé óhætt að segja að þau séu sönn.

Í stjórnlagaráði kúgaði minnihlutinn ekki meirihlutann, og meirihlutinn þaðan af síður minnihlutann, einfaldlega af því þar voru hvorki minnihluti né meirihluti. Þar voru bara ólíkir einstaklingar með ólíkar skoðanir en allir sem einn ákveðnir í að ná víðtæku en þó innihaldsríku samkomulagi.

Megi Alþingi svo vinna í sama dúr.

Guðmundur Andri skrifar:

„Maður fyllist óþoli og ókyrrð við að horfa á svona [kappræður stjórnmálaforingja]. Það rifjaðist upp hvernig þetta var í Stjórnlagaráði sem komst að einróma niðurstöðu, þrátt fyrir að þar væru ákaflega ólíkir einstaklingar sem voru fulltrúar mjög ólíkra sjónarmiða.

Á stjórnlaga[ráðinu] talaði þetta fólk saman á einhvern alveg nýjan hátt: af virðingu fyrir stöðu sinni og hvert öðru – og okkur kjósendum.

Ný stjórnmál. Það er eitthvað fallegt við þetta ferli, eitthvað hátíðlegt, eitthvað mjög jákvætt.“

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.10.2012 - 17:18 - FB ummæli ()

Sátt

Ég heyri sagt að nú ættu stuðningsmenn tillagna stjórnlagaráðs að teygja sig langar leiðir til andstæðinga þeirra tillagna, svo að skapa megi sátt.

Ég er að sjálfsögðu alltaf og ævinlega fylgjandi sáttum í hverju máli.

En mér finnst samt að orðræða af þessu tagi sé byggð á ákveðnum misskilningi.

Sátt um grundvöll að nýrri stjórnarskrá Íslands náðist í gær.

Sextíu og sex prósent greiddu þeirri sátt atkvæði sitt.

Sextíu og sex prósent finnst mér mikil sátt og góð.

Þeir sem sögðu „nei“ ættu nú að ganga í lið með 66 prósentunum og betrumbæta tillögurnar á allan þann hátt sem hægt er.

Til þess er svigrúm, tími og áreiðanlega vilji.

Ég er því alls ekki að gera lítið úr þeirri vinnu sem nú fer í hönd.

En sú sátt sem skapaðist í gær má auðvitað ekki vera útvötnuð og útþynnt. Þjóðin er búin að segja álit sitt og það álit var guðsblessunarlega skýrt.

 

Bara svo það sé á hreinu, þá þýða þessi orð auðvitað ekki að nú eigi einhver meirihluti að fara að „valta yfir“ einhvern minnihluta með frekju og látum. Það er auðvitað ekkert í mínum orðum sem styður þá túlkun.

Enda er ég ekki þeirrar skoðunar.

Ég meina aðeins að nú ættu megindrættir nýrrar stjórnarskrár að liggja vel og rækilega fyrir, og við ættum því að huga saman að því að gera þá sem best úr garði og þannig að sem allra flestir verði sáttir.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.10.2012 - 14:38 - FB ummæli ()

Lærðu að taka mótlæti

Þetta er hinn besti dagur.

En það er samt svolítið sorglegt að sá andstæðinga stjórnlagaráðstillögunnar reyna að halda því fram að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í gær hafi verið eitthvað annað en stórsigur þeirra sem sögðu „já“ við fyrstu spurningunni.

Ef 66 prósent hefðu sagt „nei“, hve líklegt er þá að Bjarni Benediktsson hefði komin dapurlegur á svip fram í Silfri Egils og sagt að það væri því miður ósköp lítið að marka þetta?

Nei, Bjarni – lærðu að taka mótlæti – og taktu svo þátt í ferlinu af jákvæðni og auðmýkt – ekki standa tuldrandi úti í horni.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.10.2012 - 00:59 - FB ummæli ()

Nú fáum við nýja og betri stjórnarskrá

Stuðningur við tillögur stjórnlagaráðs í þjóðaratkvæðagreiðslunni í gær var miklu meiri en ég þorði að vona.

Hann var einfaldlega mjög afgerandi, og kosningaþáttakan var bara fín.

Prívat og persónulega þakka ég auðmjúklega fyrir að hafa fengið að taka svolítinn þátt í þessu öllu saman, og þakka öllum öðrum sem við sögu komu. Öllum sem áttu þátt í að semja þessar tillögur á ýmsum stigum, öllum sem fjölluðu um þær og studdu þær eða gagnrýndu eftir atvikum.

En nú fáum við nýja og betri stjórnarskrá.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.10.2012 - 13:01 - FB ummæli ()

Stjórnarskráin okkar

Mín góða þjóð.

Farið nú á kjörstað og kjósið um nýja stjórnarskrá.

Þetta er sannarlega möguleiki sem margar þjóðir myndu öfunda okkar af.

Í tillögum stjórnlagaráðs eru vissulega ýmis álitamál sem enn má ræða um stund, en þar er þó ekkert hættulegt á ferðinni.

Svo farið og kjósið.

Látum ekki taka af okkur réttinn til að kjósa okkar eigin stjórnarskrá.

Sem getur orðið stjórnarskráin OKKAR en ekki stjórnarskráin ÞEIRRA.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.10.2012 - 09:46 - FB ummæli ()

Hver fær að sjá stjórnarskrá Sjálfstæðisflokksins?

Ég ætla að brjóta reglur um að bannað sé að vera með áróður á kjörstað.

Ég mun samt ekki vera með fána og veifur niðrí Ráðhúsi þegar ég fer sjálfur að kjósa á eftir.

Ég meina þennan pistil.

Því kjörstaður í þessu tilfelli er fyrst og fremst hugur hvers einasta kjósenda.

Þegar hún eða hann gerir upp við sig hvernig velja skal milli tveggja kosta.

Í fyrsta lagi að segja „já“ við fyrstu spurningunni.

Það þýðir að til grundvallar nýrri stjórnarskrá verða tillögur stjórnlagaráðs.

Samdar í ótrúlegri eindrægni (já!) af hópi fólks sem einmitt hafði verið til þess kosið í almennri atkvæðagreiðslunni.

En byggði á starfi Þjóðfundar, stjórnlaganefndar og mikilli aðkomu almennings meðan á ritun tillagnanna stóð.

Þetta er ferli sem hefur vakið mikla athygli í öðrum löndum og þykir til sérlegrar eftirbreytni.

Og í tillögum stjórnlagaráðs felast miklar umbætur í lýðræðisátt. Samfélagið verður betra ef þessar tillögur verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár.

Það er tóm til að laga þær til, ef gallar reynast í einstökum atriðum, en sem grundvöllur að betra samfélagi eru þessar tillögur fínar.

Ef menn segja hins vegar „nei“ við fyrstu spurningunni, þá þarf að byrja aftur á núlli.

Allt starf til að rita nýja og betri stjórnarskrá verður til einskis unnið, og sams konar vinnubrögð munu ekki framar vera notuð.

Ritun á stjórnarskrá mun hverfa úr höndum þjóðarinnar sjálfrar, og inn í bakherbergi hinna innmúruðu og innvígðu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú þegar lýst því yfir að hann sé að láta skrifa nýja stjórnarskrá.

Enginn fær að frétta af því starfi.

Almenningur fær auðvitað ekki að taka neinn þátt.

Einn daginn verður hún bara lögð fram og almúganum sagt að samþykkja.

Viljum við það?

Ekki ég – þess vegna ætla ég að segja „já“ við fyrstu spurningunni.

Góða skemmtun!

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!