Föstudagur 15.6.2012 - 22:12 - FB ummæli ()

Lúffið ekki!

Ríkisútvarpið segir að ekkert samkomulag hafi enn verið gert um þinglok.

Ég ætla rétt að vona ekki.

Því ef slíkt samkomulag felur í sér að hætt verði við rannsókn á einkavæðingu bankanna, endurskoðun fiskveiðipólisíunnar verði lokuð inní skáp, þá lýsi ég fullkomnu frati á slíkt samkomulag.

Þá tek ég undir hvert orð sem Margrét Tryggvadóttir þingmaður Hreyfingarinnar segir hér.

Og sömuleiðis það sem Agnar Kristján Þorsteinsson segir hér í þessu bréfi sem hann hefur sent þingmönnum stjórnarflokkanna.

Við stjórnarþingmenn segi ég aðeins þetta:

Þið eruð kosin á þing til að ljúka tilteknum verkefnum.

Þið eruð ekki kosin til að láta undan taumslausri frekju Málþófsflokksins og Andsvaraflokksins.

Samkomulag er yfirleitt gott – en aðeins ef báðir aðilar vilja gera slíkt samkomulag.

Í þessu tilfelli væruð þið bara að lúffa.

Ljúkið ykkar verkefnum – þið hafið öll tól og tæki til þess.

Tröll hirði ykkar sumarfrí – rétt eins og tröll hafa alltaf hirt mín sumarfrí ef ég á einhverjum verkum ólokið.

Að svo mæltu tek ég mér það bessaleyfi að birta hér orðrétt bréfið sem Agnar Kristján sendi þingmönnum.

Ég tek undir nánast hvert orð.

 

 

“Sæl verið þið,

Það eru ömurleg tíðindi sem berast af þingi um að stjórnin hafi ákveðið að lúffa fyrir fantaskap Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarmannana þeirra.

Og ekki nóg með það heldur sé ætlun ykkar að slaufa af rannsókn á einkavæðingu bankanna, breytingar á kvótakerfi verða settar í hendurnar á fjórum mönnum í stað þess að láta alla flokka á þingi koma nálægt breytingum og/eða standa við upprunalegt loforð um fyrningarleið eða aðrar breytingar sem hnekkt hefðu ofurvaldi kvótagreifanna yfir íslensku samfélagi.  Væntanlega í meðförum þessara fjögurra aðila mun ekkert verða úr breytingum á kvótakerfinu til hins betra og munu þær daga upp líkt og tilraunir til stjórnarskrárbreytinga í gegnum tíðina, hvað þá að þetta tækifæri muni koma aftur.

Fjandakornið hafi það, það er alveg þessvegna hægt að afhenda kvótagreifunum formlega völdin núna því þeirra vilji er greinlega ofar þjóðþinginu fyrst þið lúffið nú fyrir þeim.

Ekki nóg með það heldur ætlið þið einnig að gefa eftir rammaáætlun sem beðið hefur verið eftir afgreiðslu á og væntanlega þá fara eftir vilja álgreifanna í haust þegar kemur að afgreiðslu hennar þ.e. ef hún verður nokkurn tímann afgreidd .

Hvað eruð þið að hugsa eiginlega? Hversvegna sjáið þið ekki það sem flestir sjá að þið eruð að láta undan ofbeldi skólafanta sem telja sig eiga leikvöllinn og hafa réttinn til þess að stela nestinu, berja á minnimáttar og haga sér eins og dólgar í kennslustundum?

Þið eigið ekki að láta vaða svona yfir ykkur því þetta fólk ef fólk má kalla, er fyrir löngu komið út fyrir línuna sem telst eðlilegt í málþófi. Það er fantast á ykkur af frekju og þið gefið eftir í anda Chamberlaínískrar friðþægingarstefnu í stað þess að segja að nóg sé komið og grípa til 64. greinar þingskapalaga.

Semsagt, láta sverfa til stáls og koma á aga hjá því ofbeldisfólki hægri öfganna sem ráða för innan skólaleikvallarins sem Alþingi er.

Ok, þið munuð örugglega fá einhvern skít á ykkur fyrir að gera það og áróðursmaskínur öfgahægrisins í Hádegismóum og AMX munu flippa yfir í skítkastinu en gjaldið sem þið greiðið nú fyrir þessa friðþægingu gagnvart þessum öflum er of hátt.

Og mun verða hærra í haust þegar þeir endurtaka leikinn gagnvart ykkur aftur og aftur þar sem þið gefið eftir í hvert einasta sinn.

Takið því ykkur tak, slítið þessu samkomulagi og klárið fyrirliggjandi mál með 64. greininni ef þörf krefur gegn þessu liði sem neitar að viðurkenna eigin ábyrgð á Hruninu.

Afrit sent á óháða þingmenn sem fengu ekki að vera memm.

Kveðja,

Agnar Kristján Þorsteinsson

P.S. Hvenær hefst svo rannsókn á Magma-málinu og ÖLLUM störfum einkavinavæðingarnefndar? Það er nefnilega svo margt rotið í þeim málum.

P.S.S. Eruð þið ekki svo til í að hjóla í bankaleyndina, fjármagnsflutninga til skálkaskjóla og annað sem skipulögð glæpastarfsemi á Íslandi felur sig á bak við?”

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.6.2012 - 18:13 - FB ummæli ()

Nýtt fangelsi!

Eins og ég hef margtekið fram í þessu bloggi, þá á ég frekar erfitt með að skilja flóknar viðskiptafléttur og hvað þá brögð og brellur í bankakerfinu.

Ég tók því fyrir löngu þá ákvörðun að fara mjög varlega með orð þegar slíkt og þvíumlíkt berst í tal.

Því segi ég aðeins – eftir að hafa heyrt í fréttum Ríkisútvarpsins þessa lýsingu Ægis Þórs Eysteinssonar á niðurstöðum skýrslu um starfsemi Sparisjóðs Keflavíkur síðustu tvö árin fyrir hrun:

Verður þetta nýja fangelsi ekki fljótlega tekið í notkun?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.6.2012 - 18:59 - FB ummæli ()

Leiðréttur, fitusprengdur og eðlilegur

Sjálfstæðisflokkurinn er aftur kominn til valda í Kópavogi.

Og þar er nú byrjað að „leiðrétta“.

Það er vonandi engin þörf á að segja neitt um viðtalið sem DV tekur við Ármann bæjarstjóra.

Það er nóg að birta það bara eins og það kemur af skepnunni.

Í DV segir:

„Að sjálfsögðu höfum við skorið niður allstaðar,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, og á þar við þá grunnþjónustu sem bærinn veitir.

Á sama tíma hefur bæjarstjórnin í Kópavogi samþykkt 23 prósenta hækkun á eigin launum, en sú hækkun tók gildi 1. mars síðastliðinn.

„Þessi 23 prósenta hækkun er í raun ekki hækkun. Þetta er leiðrétting – ekki hækkun,“ segir Ármann. Laun bæjarfulltrúa Kópavogsbæjar voru lækkuð um 10% stuttu eftir hrun og um leið aftengd þingfararkaupi.

Aðspurður segist hann halda að hann sé að fá rúmlega eina og hálfa milljón í laun á mánuði þegar allt er talið. „Þetta hljóta að vera eðlileg laun miðað við aðra í sambærilegum stöðum,“ og á þar við aðra bæjarstjóra.

Ármann segir að mikil fita hafi verið á grunnþjónustunni: „Við skárum niður allskonar lúxus, sameinuðum skóla til dæmis og hagræddum á ýmsan hátt. – ég man þetta ekki alveg akkúrat núna enda á leiðinni í flug.“

Svo mörg voru þau orð. Svo fór hann í flugið – leiðréttur, fitusprengdur og eðlilegur.

En hlakkiði ekki til þegar Sjálfstæðisflokkurinn verður kominn aftur til valda á Íslandi öllu?

Eins og maðurinn sagði: Þá verður aldeilis farið að leiðrétta!

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.6.2012 - 09:59 - FB ummæli ()

„Bara“ Árni Johnsen

Ekki eru miklar kröfur gerðar til sumra íslenskra þingmanna.

Þeim leyfist að opinbera fávisku sína, fordóma, vanþekkingu og ranghugmyndir, auk þess sem fyllilega er leyfilegt að móðga heilar þjóðir með einhverjum rugluðum heilaspuna.

Og það þykir ekki taka því að minnast á það, hvorki í fjölmiðlum né af öðrum þingmönnum þegar boðið er upp á svona bull á Alþingi Íslendinga:

„Þýskaland og Frakkland eru þrælabandalög nútímans …“

Ég veit að nú munu ýmsir segja:

„Æi, þetta var nú bara hann Árni Johnsen. Þú veist nú hvernig hann er.“

Já, reyndar veit ég hvernig Árni Johnsen er.

Er það gild afsökun fyrir því að þingmaður fari með ruddalegt rugl eins og þetta?

Hefur þessi maður enga sómatilfinningu?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.6.2012 - 01:55 - FB ummæli ()

Hvernig í ósköpunum gat þetta gerst?

Eftir einhverja massífustu auglýsingaherferð í manna minnum og þrotlausan hræðsluáróður stefna sægreifarnir 70 skipum til Reykjavíkur til að sýna styrk sinn með fjöldafundi á Austurvelli.

Rútuferðir í boði úr nágrannabyggðunum – og meira að segja ókeypis bjór að því er virðist.

(Hvílík misþyrming á heilögum rétti fólks til að mótmæla! Hvílík ömurleg lágkúra!)

En eftir allt þetta, þá mæta 1.500-2.000 manns á fjöldafundinn.

Og þriðjungur eða þar um bil er alls ekki kominn til að lýsa stuðningi við málstað sægreifanna, heldur þvert á móti.

Hvílíkt PR-klúður!

Hvílíkt allsherjar ótrúlegt fáránlegt klúður!

Hvernig í ósköpunum gat þetta gerst?

Jú, það vill svo til að ég get útskýrt það fyrir sægreifunum.

Spurningin er nefnilega ekki um lymskulegt PR, óeðlilegan þrýsting á starfsfólk sitt, auglýsingar eða ókeypis bjór.

Spurningin er um sannfæringu þjóðarinnar.

Og aðgang að dýrmætustu auðlind hennar.

Sameiginlegri auðlind.

Þjóðareign.

Og þjóðin hefur einfaldlega ekki þá sannfæringu að sú auðlind eigi að vera í raunverulegri eigu sægreifanna.

Ekkert PR getur breytt yfir það.

Sama hvað það kostar.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.6.2012 - 23:11 - FB ummæli ()

Sláturhús

Ég var á Austurvelli í dag að fylgjast með andófi gegn fundi sægreifanna.

Þá kom til mín reiður maður og sagði að ég skyldi ekki voga mér að þykjast hafa vit á þessu, ég hefði alltaf „verið á ríkinu“ og aldrei mígið í saltan sjó.

Reyndar eru þær fullyrðingar allar rangar, en látum það liggja milli hluta.

En af hverju stafar þessi voðalega krafa um að enginn megi hafa skoðun á skiptingu rentu af auðlindum þjóðarinnar nema hafa skvett úr skinnsokknum í saltvatn?

Má maður altso ekki hafa skoðun á matarverði nema hafa unnið í sláturhúsi?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.6.2012 - 14:05 - FB ummæli ()

Æ lágkúran

Ef matvörukaupmenn hæfu nú mikla baráttu gegn vörugjaldi, þá mundi aldrei hvarfla að þeim að beita fyrir sig í baráttunni starfsfólkinu í verslunum þeirra, og hvað þá fjölskyldum þess.

En þetta láta sægreifarnir sig hafa, og þetta láta sjómenn yfir sig ganga.

Æ lágkúran!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.6.2012 - 00:26 - FB ummæli ()

Sjómaður stígur fram

Aldrei þessu vant ætla ég að birta hér í heilu lagi blogg eftir annan mann.

Birgi Kristbjörn Hauksson.

Hann bloggar hér, en ég ætla að leyfa mér að birta pistilinn hans (hef reyndar ekki beðið um leyfi, vona að það fyrirgefist).

Ég bætti inn slatta af greinaskilum til að pistillinn verði auðlæsilegri.

Pistillinn hefur fyrirsögnin „Sjómaður stígur fram“. Reynið svo endilega að kenna þetta við ofsóknir, flokkapólitík, einelti gegn hjartahreinum útgerðarmönnum, etc.

Gerið svo vel – og þið helst, sægreifar

„Nú er hafinn allsherjar herkvaðning Sægreifana og skal nú ráðist fram með offorsi kjafti og klóm.

Ekki er laust við að hugtakið „sókn er besta vörnin“ hafi komið upp í huga manns er maður heyrði af fundinum dramatíska í Vestmannaeyjum þann 21. janúar sl. Þar sem bæjarstjóri Vestmannaeyjar, steig fram og reyndi að sannfæra okkur um að hann talaði máli fisverkafólks og sjómanna.

Nú tekur steininn úr og við sjáum í raun, grímulaust hvað gengið er langt í að verja sérhagmuni þessarar elítu sem hefur skuldset greinina með kaupum á bílaumboðum, hrossabúgörðum, glerhöllum hér í Rvk, Vöndlum og vindlingum og hvað þetta heitir alltsaman sem við venjulegt fólk hefur ekki neinar forsendur né vilja til að skilja.

Þessi elíta hefur dinglað í einhverskonar yfirstéttar útópíu lífi, kostuðu af leigu og sölu á kvóta.

Hvað hefur allt þetta brask og hégómi með útgerð að gera?

Þeir hittu svo sannarlega sannleikann í hjartastað þeir Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor „Samhengi hlutanna“og Kristinn H. Gunnarsson, fv. alþingismaður „Allt rangt hjá Þorsteini“ í Fréttablaðinu 31. maí sl. [Sjá hér og hér.]

Það er alkunna að sjómenn og fiskverkafólk eiga ekki svo gott með að láta í ljós skoðanir sínar á kvótabraskinu.

Í umræðunni um brottkastið undanfarin ár hafa sárafáir sjómenn stigið fram og vitnað um brjálæðið.

Ég þekki þetta persónulega sjálfur hafandi búið í 18 ár í miðlungsstóru sjávarplássi þar sem ég var til sjós hjá stærstu útgerðaraðilunum auk þess að starfa við eigin rekstur í veitinga og gistihúsageiranum.

Það hefði ekki hvarflað að manni að gagnrýna eitt né annað opinberlega eins og undirritaður gerir hér.

Það þarf enginn að efast um skoðanir venjulegs fólks á háttalagi og málflutningi þessara manna.

Öll þjóðin er búinn að fá upp í kok. Það er búið að þvæla og flækja sáraeinfaldan hlut, beita ósvífnum hræðsluáróðri um sviðinn sjávarpláss og allsherjar gjaldþroti með fólksflótta, atvinnuleysi og hörmungum.

Fari þeir þá bara á hausinn.

Skipin og húsin, mannskapurinn og verkkunnáttan fara ekki neitt og verða ekki af fólkinu tekinn.

Varla sökkva hrúðurkallar skipum eða fullkominn frystihús fúna sundur.

Þessir menn kaupa pólitíkusa gegnum prófkjör, lána þeim fé á vildarkjörum, dæla fjármunum í flokka og síðastliðin misseri þegar tók að kreppa að þeim var vopnabúrið styrkt með Moggakaupum og til öryggis var Hrunameistari no.1 settur í ritstjórastólinn.

Hafinn var kerfisbundinn heilaþvottur þess efnis að ekki sé hægt að breyta neinu, kvótinn sé veðsett eign og búin að ganga kaupum og sölum í fleiri ár.

Að ekki sé hægt að taka kvótann af einhverjum sem keypti hann af öðrum og svo koll af kolli.

Þetta kallast að slá ryki í augu okkar og til þess fallið að drepa málinu á dreif.

Við vitum öll hver á fiskinn í sjónum.

Hvernig er mögulega hægt að þvæla meira með þetta.

Þessir menn hafa hreinlega verið að versla með þýfi með fulltingi banka, fæ ég ekki betur séð.

Í smáauglýsinga dálkum á netinu er eftirfarandi tilkynning frá lögreglunni:

„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetur fólk til að vera á varðbergi gagnvart þýfi og hafa samband ef grunsemdir vakna. Ennfremur er minnt á ábyrgð þess sem kaupir þýfi.“

Grunlausir kaupendur hafa þurft að afhenda varning (Þýfi) og staðið uppi með sárt ennið ef ekki hefur verið hægt að lögsækja seljandann (Þjófinn)

Framkoma þessara manna gagnvart réttkjörnum stjórnvöldum sem voru kosin meðal annars til að leiðrétta þessa vitleysu er fáheyrð.

Hér fer fámennur hópur fólks sem stendur upp í hárinu á stjórnvöldum og hótar efnahagslegum hryðjuverkum.

Frekjan, hrokinn, siðblindan og yfirgangurinn er algjör.

Ekki er nóg með að búið er að ganga ógætilega um auðlindina með brotkasti og illa skipulagðri sókn í tegundir á röngum árstíma.

Ætlunin er hreinlega að ræna henni með ofbeldi.

Nei ykkur er ekki vorkunn að greiða uppsett gjald og sætta ykkur við töluvert minni gróða, hvort þið sitjið uppi með 3 krónur, 7 krónur eða 2,30 krónur í hreinan hagnað er ekki ykkar að ákveða né koma í veg fyrir.

Við sem þjóð höfum til þess Stjórnvald sem heitir Alþingi og þó að margt megi um það deila þá er það ekki lengur í skúffum Viðskiptaþings eða LÍU.

Nú ríður á að við venjulegt fólk í landinu snúum bökum saman og verjumst árásum þessara manna sem með braski sínu og niðurrifi góðra gilda eiga sinn þátt í því hvernig komið er fyrir landi okkar og þjóð.“

Skrifaði Birgir Kristbjörn Hauksson.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.6.2012 - 15:21 - FB ummæli ()

Kappræður

Kappræður forsetaframbjóðenda?

Jahá.

Af hverju eiga forsetar endilega að vera ofsalega góðir í kappræðum?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.6.2012 - 14:45 - FB ummæli ()

Yfirlýsing um þjóðaratkvæðagreiðslu

Alltaf hefur legið ljóst fyrir að aðildarsamningur að ESB verður borinn upp til þjóðaratkvæðis. Það hefur ekki hvarflað að nokkrum manni að gera annað.

Þó formlega verði sú atkvæðagreiðsla víst ekki bindandi, þá munu þingmenn að sjálfsögðu greiða atkvæði eins og þjóðin hefur boðið. (Þeir einu sem hafa lýst því yfir að þeir muni ekki hlíta þjóðaratkvæðagreiðslunni eru fáeinir andstæðingar ESB.)

Nú er einhverra hluta vegna farið að blanda forsetaembættinu í málið. Forsendur þess eru mjög einkennilegar, vægast sagt.

En til að afgreiða málið í eitt skipti fyrir öll út úr heiminum, þá ættu stjórnmálaleiðtogar að gefa ótvíræða yfirlýsingu um að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um ESB, og eftir henni verði farið.

Slík yfirlýsing gæti orðið til þess að kosningabarátta fyrir forsetakosningarnar lendi ekki útí einhverri holtaþoku eða sýndarveruleika.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!