Þriðjudagur 31.1.2012 - 16:08 - FB ummæli ()

Þungur dómur?

Sú frétt fór framhjá mér í fyrri viku að þann 24. janúar síðastliðinn var kveðinn upp dómur yfir bandaríska liðþjálfanum Frank Wuterich.

Hann var ákærður fyrir að hafa ásamt mönnum sínum hafið skothríð á óvopnaða óbreytta borgara í Haditha í Írak 19. nóvember 2005.

Alls létu 24 lífið, þar á meðal konur og börn, og gamalt fólk. Flestir voru skotnir margoft af stuttu færi.

Þetta var skelfilegur atburður – um hann má lesa hér.

Átta landgönguliðar voru dregnir fyrir dóm vegna málsins, en smátt og smátt voru ákærur gegn sjö þeirra dregnar til baka.

Eftir stóð Frank Wuterich.

Hann lýsti sig að lokum sekan um vanrækslu í starfi, og þá voru allar aðrar ákærur gegn honum felldar niður.

Og fyrir viku var hann sem sagt dæmdur til þeirrar refsingar að vera lækkaður í tign.

Og já, hann var sviptur þrem fjórðu af laununum sínum í þrjá mánuði.

Hér að neðan er mynd af Wuterich. Ekki eru til myndir af fórnarlömbunum 24.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.1.2012 - 14:43 - FB ummæli ()

Sökudólgarnir fundnir

Þegar ég var strákur var sú mynd sem maður hafði af Íslandssögunni um 1600-1800 ansi ófögur.

Heimildir í skólabókum gáfu til kynna nánast helvíti á jörð.

Þjóðin alltaf um það bil að drepast úr hungri, vosbúð og kulda.

Og af því þegar ég var strákur þá eimdi enn mjög eftir heimssýn sjálfstæðisbaráttunnar í skólabókum, þá tókst einhvern veginn að koma því inn hjá manni að þetta hefði allt saman verið Dönum að kenna.

Höfðu ekki lífskjör á þjóðveldistímanum verið alveg ágæt, en svo versnað smátt og smátt þegar landsmenn undirgengust Noregskóng á 13. öld – og hrapað niður úr öllu valdi eftir að Danakóngur varð allsráðandi á 16. öld?

Vissulega, en skýringin reyndist þó ekki vera illska og kúgun Norðmanna og síðan Dana – heldur var hana að finna í náttúrunni.

Sjálf lífsskilyrðin höfðu farið að versna mjög um 1300. Veðurfar kólnaði stórlega og langt fram á 18. öld var miklu kaldara en verið hafði aldirnar á undan.

Kuldinn olli mestu um þær hörmungar sem þjóðin gekk í gegnum.

Þegar mynd vísindamanna af þessu varð skýrari var farið að tala um „litlu ísöldina“ sem stóð með fáeinum hléum allt frá 1300 til 1800 – svona um það bil. Og nokkur kuldaskeið enn lengur.

Í veftímaritinu Lemúrnum er nú í dag sagt frá nýjum rannsóknum íslenskra og kanadískra vísindamanna, sem hafa fundið orsökina fyrir „litlu ísöldinni“.

Sökudólgarnir eru fjögur og þó kannski fimm eldgos.

Merki um þau fundust við Hvítárvatn og víðar í og við íslenska jökla.

Nú þarf bara að finna þessi miklu skaðræðiseldfjöll!

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.1.2012 - 12:15 - FB ummæli ()

Betra er seint en aldrei

Allmargir þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna og Hreyfingarinnar eru nú að undirbúa tillögu um skipan rannsóknarnefndar sem á að fara yfir einka(vina)væðingu bankanna 1998-2003. Skúli Helgason mun vera þar fremstur í flokki.

Um þetta er aðeins eitt að segja:

Þó fyrr hefði verið!!

Þessi einka(vina)væðing Landsbanka og Búnaðarbanka og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins varð afar afdrifarík og lítill vafi á að þar voru stigin mikil óheillaspor.

Það er í raun fáránlegt að það sé fyrst núna, þremur og hálfu ári eftir hrun bankanna, sem á að fara að skipa rannsóknarnefnd til að velta við öllum steinum í málinu.

En vissulega má segja að betra sé seint en aldrei.

Vonandi verður drifið í málinu, og rannsóknarnefndin sett á laggirnar strax.

Og mikið væri það nú gott fyrir orðstír Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins ef þingmenn þeirra reyndu ekki að þumbast gegn skipan rannsóknarnefndar í málinu – þótt það hafi verið þeirra menn sem báru ábyrgð á öllu klúðrinu.

Já – ef þeir tækju þess í stað fullan þátt í að koma nefndinni af stað.

Það væri heiðarlegt og djarfmannlegt.

En mun það gerast?

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.1.2012 - 08:19 - FB ummæli ()

Er verið að gera gys að okkur?

Það læðist að manni illur grunur.

Hæstiréttur sýknar fólk af ákæru um innflutning á eiturlyfjum.

Meðal annars og kannski ekki síst vegna þess að meðal þeirra gagna sem lögð voru fram í málinu var upptaka af trúnaðarsamtali eins hinna grunuðu við lögfræðinginn sinn!

Lögreglan hafði ekki séð neitt athugavert við að nota upptökuna gegn sakborningnum, né dómarar í héraðsdómi.

Hvernig gat það gerst?

Fattaði enginn neitt?

Ég hefði haldið að hvert einasta barn vissi að sakborningar hafa heilagan rétt til að ráðgast við lögfræðinginn sinn án þess að eiga á hættu að samtalið sé hlerað.

En þarna virðist lögreglan hafa talið það eðlilegt, saksóknari sömuleiðis – og enginn í héraðsdómi gerði athugasemdir!

Þá hefur Hæstiréttur vísað öðru sinni heim í hérað máli gegn bankamanni sem sakaður er um stórfellt misferli rétt fyrir hrun Landsbankans.

Ég tek það fram að ég veit lítið um málavöxtu þar, eða líkur á sekt eða sakleysi – ég er bara að hugsa um framgangsmátann.

Hæstiréttur hafði áður vísað málinu frá sér þegar það kom fyrst úr héraðsdómi, og reglan mun vera sú að þegar það gerist, þá dugar ekki einn héraðsdómari í næstu umferð málsins, heldur verður að skipa þrjá til að fara með málið.

En héraðsdómi LÁÐIST að gera það!

Enginn í héraðsdómi virðist hafa kunnað þá reglu.

Æ, hún gleymdist, sú grundvallarregla!

Þó tók málareksturinn marga mánuði, og það hefði átt að vera nægur tími til að einhvern rámaði í svo einfalda reglu!

Enginn í herbúðum saksóknara virðist hafa munað neitt heldur.

Fattaði enginn neitt?

Já, það læðist að manni illur grunur.

Er réttarkerfið á Íslandi einfaldlega svona ótrúlega slappt?

Eða er verið að gera gys að okkur?

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.1.2012 - 07:20 - FB ummæli ()

Vafningur Glitnis, Milestone og Engeyinga

Það er full ástæða til að vekja athygli á grein Hallgríms Helgasonar rithöfundar í DV í dag, þar sem hann rekur Vafningsmálið sem nú er á sinni hægu en vonandi öruggu siglingu í réttarkerfinu.

Af einhverjum ástæðum hafa aðrir fjölmiðlar en DV lítt eða ekki sinnt þessu máli, sem var eins og dæmigerð „skítaredding“ í aðdraganda hrunsins.

Þar sem ég verð að viðurkenna að fréttir af fjármálasnúningum og vafningum og reddingum og bankafléttum og þess háttar vefjast ótrúlega fyrir mér, þá hef ég hins vegar átt svolítið erfitt með að átta mig á gangi mála í þessu Vafningsmáli.

Hallgrímur setur málið hins vegar afar skýrt og skilmerkilega fram, já, á furðulega auðskiljanlegan hátt.

Hann á kannski framtíðina fyrir sér sem viðskiptablaðamaður?!

Og eins og Hallgrímur rekur, þá er auðvitað í meira lagi undarlegt að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins skuli ekki hafa þurft að svara markvissari spurningum um þetta mál en raunin er.

Hvað vissi hann hvenær? Eða þá hvers vegna ekki?

Þegar maður les þessa merku grein Hallgríms, þá verður líka enn meira aðkallandi en áður að fá svar við einni spurningu.

Hver var það í hópi Milestone-manna eða Engeyinga eða Glitnismanna sem var nógu meðvitaður til að kalla þann peningavafning sem búinn var til um „skítareddinguna“ einmitt Vafning?

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.1.2012 - 12:21 - FB ummæli ()

Minni samgöngur milli lands og Eyja!

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur þungar áhyggjur af stöðugum ferðalögum íslenskra embættismanna til Brussel.

Þetta er afar umdeilanlegt sjónarmið, eins og til dæmis kemur fram hér.

Og vissulega virðist það nokkuð sérkennilegt, viðhorf Ögmundar í garð embættis- og stjórnmálamanna sem halda á málum Íslands í útlöndum.

Og Egill Helgason bendir hér á að Norðmenn, samherjar okkar í EES, telji bráðnauðsynlegt að hafa góð og mikil samskipti við ESB í Brussel.

Þeir hafa bersýnilega ekki áhyggjur af því að „ánetjast“ eins og Ögmundur orðaði það svo skemmtilega.

Ögmundur var aftur á móti að skrifa undir samning við forráðamenn Vestmanneyinga sem mun stórbæta samgöngur milli lands og Eyja.

Sjá hér.

Þá er spurningin: Er það endilega mjög sniðugt fyrir Eyjamenn?

Munu forráðamenn þeirra ekki bara sífellt fleiri og fleiri ferðir til Reykjavíkur og halda þar til á kostnað bæjarins? Og fólkið ánetjast þannig meginlandinu, enda heillandi að fara fleiri og fleiri ferðir og fá jafnvel dagpeninga í hvert skipti.

Nei, væri ekki Eyjamönnum fyrir bestu að hafa sem minnstar samgöngur við meginlandið?

Þannig geta þeir haldið árunni hreinni, rétt eins og Ögmundur vill að við Íslendingar í heild gerum gagnvart Evrópusambandinu.

Þetta er náttúrlega hótfyndni.

En er fullyrðing Ögmundar um embættismennina með Brusselveikina það ekki líka?

Að minnsta kosti er hún varla sæmandi fyrir ráðherra í ríkisstjórn – mann sem sjálfur stýrir fjölda embættismanna sem eru á ferð og flugi, landi og þjóð vonandi til heilla, og hefur jafnvel sjálfur orðið ber að því að skjótast stöku sinnum uppí flugvél.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.1.2012 - 21:14 - FB ummæli ()

Sterki maðurinn

Ég sá í gær fréttatíma í danska sjónvarpinu þar sem fjallað var um ástandið í Ungverjalandi.

Þar er Viktor Orbán forsætisráðherra og hefur verið síðan 2010, en áður gegndi hann embættinu frá 1998-2002.

Ungverjar áttu við miklar efnahagsþrengingar að stríða 2010 eins og fleiri, og Orbán sannfærði stóran hluta þjóðarinnar um að hann hefði lausnirnar.

Það hefur nú ekki sýnt sig ennþá, held ég, en hins vegar fór Orbán strax að herða valdatauma sína.

Hann hafði svo mikið fylgi á ungverska þinginu að hann gat breytt stjórnarskránni upp á sitt eindæmi, og í nýju stjórnarskránni voru stigin ýmis óhugnanleg skref.

Orbán vildi ráðskast með ungverska seðlabankann, hann vildi fá mikil og óskoruð völd yfir því hverjir yrðu hæstaréttardómarar, og hann herti tök yfirvalda á fjölmiðlum með sérstökum lögum.

Sum af þessum hugðarefnum Orbáns kunna að hljóma kunnuglega.

Evrópusambandinu, sem Ungverjar eru aðilar að, blöskraði sú mannréttindaskerðing og valdasamþjöppun sem í nýju stjórnarskránni fólst, og sambandið er nú að þrýsta á Orbán að breyta um kúrs.

Vonandi tekst það, en það sem ég vildi sagt hafa – í þessum fréttatíma var rætt við nokkra vegfarendur úti á götu í Budapest, höfuðborg Ungverjalands.

Þeir voru ekki mjög margir – en allir voru á einu máli um að þeir styddu Viktor Orbán í hvívetna.

Ekki út af neinu sérstöku, svo ég heyrði, heldur bara út af því að „hann er sá eini sem getur komið okkur út úr þessum öldudal, hann er sá eini sem ræður við vandamálin, hann er sá eini sem getur stjórnað okkur“.

Nú ætla ég ekki að þykjast neitt voðalega mikið til í Ungverjalandi.

Ég veit þess vegna ekki vel hvort Orbán er að einhverju leyti hæfur stjórnandi – burtséð frá hinum afar óþægilegu einræðistilhneigingum hans.

En mér fannst þetta hrollvekjandi sönnun þess hve stutt virðist alltaf í þrána eftir STERKA MANNINUM í sál manneskjunnar – þegar eitthvað bjátar á.

Það fara svo sorglega margir að leita að þeim sem á að KOMA OG BJARGA OKKUR.

Og það getur tekið ótrúlega skamman tíma þangað til jafnvel víðsýnt og gáfað fólk er farið að taka undir að þó STERKI MAÐURINN sé kannski dálítið fyrirferðarmikill, þá verði að láta sér það lynda því HANN SÉ SÁ EINI sem geti kippt hlutunum í lag.

Ungverjar virtust illa haldnir af þessu.

En þetta er að sjálfsögðu úr sögunni hjá okkur, er það ekki?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.1.2012 - 14:29 - FB ummæli ()

Baltasar

Það er full ástæða til að óska Baltasar Kormáki til hamingju með hinn góða árangur sem nýja myndin hans er að ná í Ameríku. Og Lilju konunni hans líka – sem vafalítið á sinn þátt í árangri hans.

Baltasar hefur náð frábærum árangri – og vissulega máske ööööörlítið óvæntum ef litið er töluvert aftur í tímann, til þess tíma þegar hann stökk fram á sjónarsviðið.

Fyrstu árin vissi maður kannski ekki alveg hvað maður átti að halda um Baltasar.

Hann reiddi persónutöfrana í þverpokum, hafði mikið sjálfstraust og var duglegri en andskotinn – en slíka eiginleika hafa nú ýmsir án þess að ná að þroska þá eða gera eitthvað úr þeim.

En Baltasar reyndist hafa tvennt til viðbótar uppí erminni – mikla seiglu og mjög umtalsverða listræna hæfileika.

Svo það er ekkert nema gott um það að segja hvað hann er kominn langt á framabrautinni.

Það er bara eitt.

Ég er nú ekki búinn að sjá Contraband en hinar bíómyndirnar hans hafa verið fínar og góðar, og í alla staði til fyrirmyndar.

Ég hef fulla trú á að Contraband sé það líka.

(Enda er hann með afar góðan klippara sér við hlið!)

Ég held samt að ennþá að minnsta kosti sé Baltasar sem LISTAMAÐUR flottastur sem leikstjóri á leiksviði.

Þar hafa hugmyndaauðgi hans, listræn sýn og samstarfshæfileikar virkilega blómstrað.

Hér dugir að nefna hið nýlegasta dæmi, sem er Gerpla.

Sprúðlandi fjör! Mjög myndræn hugsun. En líka ansi djúpskreið sýn á bæði verkið og lífið.

Svo – með djúpri virðingu fyrir bíómyndunum – þá skulum við vona að piltur verði áfram svolítið á leiksviðinu líka.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.1.2012 - 09:01 - FB ummæli ()

Sýndaruppgjör

Slitastjórn Landsbankans hefur nú höfðað mál gegn sjö einstaklingum vegna tugmilljarða, sem runnu út úr bankanum daginn fyrir hrun hans.

Einstaklingarnir eru æðstu stjórnendur bankans, og nokkrir stjórnarmenn.

Að því er mér sýnist við lauslega skoðun á málshöfðun slitastjórnarinnar er því ekki haldið fram að stjórnarmennirnir hafi persónulega gengið út úr bankanum með seðlabúnt í öllum vösum.

Málarekstur gegn þeim er reistur á þeirri ábyrgð sem þeir báru sem stjórnarmenn.

Að sjálfsögðu hef ég ekki minnstu hugmynd um hver verður niðurstaða málshöfðunarinnar, en það verður náttúrlega bara útkljáð fyrir dómstólum, svo sem eðlilegt má heita.

Eða hvað?

Getur verið að innanríkisráðherra, æðsti yfirmaður réttarfarsmála í landinu, muni beita sér á einhvern hátt fyrir því að málshöfðun slitastjórnarinnar gegn stjórnarmönnunum verði stöðvuð?

Það gæti hvarflað að manni!

Í grein í Fréttablaðinu í dag fjallar Ögmundur Jónasson nefnilega um ákærur gegn Geir Haarde um að hann hafi brugðist þeirri ábyrgð sem hann bar sem forsætisráðherra síðustu 17 mánuðina fyrir hrun.

Og þar er að finna merkilega setningu:

„Réttarhöld yfir nokkrum einstaklingum vegna andvaraleysis þeirra og mistaka, geta í mínum huga aldrei orðið annað en sýndaruppgjör við skipbrot pólitískrar kreddu sem kjósendur studdu aftur og aftur.“

Ögmundur er náttúrlega að tala um pólitík, en grundvallaratriði réttarfars hljóta vitaskuld að gilda bæði um pólitík og á öðrum sviðum.

Ráðherrann skrifar því væntanlega áfram undir setninguna þó henni sé breytt lítillega:

„Réttarhöld yfir nokkrum einstaklingum vegna andvaraleysis þeirra og mistaka, geta í mínum huga aldrei orðið annað en sýndaruppgjör við skipbrot fjármálalegrar greddu sem hluthafar studdu aftur og aftur.“

Kannski þykir þetta léttúðugt, ég veit það ekki.

En réttarkerfið í landinu getur varla verið alveg ósnert af því að æðsti yfirmaður réttarfars í landinu hafi gefið svo sterklega til kynna að einstaklingar beri ekki ábyrgð á gerðum sínum – og skuli því ekki sæta ábyrgð fyrir dómstólum – ef ætla má að þeir hafi fyrrum notið víðtæks stuðnings til starfa sinna.

Kjósendur kusu Geir, hluthafar Landsbankans sáluga kusu stjórnarmennina.

Það er „sýndaruppgjör“ að mati ráðherra dómsmála að draga Geir til ábyrgðar – og hlýtur þá ekki það sama að gilda um stjórnarmenn Landsbankans í þeirra máli?

Undirmenn Ögmundar og aðrir starfsmenn í réttarfarskerfi landsins leggja líklega eyrun við þessu!

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 16.1.2012 - 17:27 - FB ummæli ()

Í skrípalandi

Þegar Vigdís Hauksdóttir stökk fram í sviðsljósið til að halda því fram að salthneykslið væri meðvitað samsæri til að „tala niður íslenska landbúnaðarframleiðslu“ og ýmsir urðu víst til að taka undir með henni, þá sannfærðist ég endanlega um að við búum í skrípalandi.

Vonandi verða stjórnarslit sem fyrst svo Vigdís fái það ráðherraembætti sem ljóst er að Framsóknarflokkurinn mun skjóta undir hana.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!