Föstudagur 28.10.2011 - 16:08 - FB ummæli ()

Segjum frá!

Þorvaldur Gylfason prófessor skrifar á Facebook-síðu í dag:

„Fyrrverandi seðlabankastjóri sagði við mig í gær, að ein ástæðan til þess, að bankarnir starfa undir leyndarhjúp frekar en fyrir opnum, sé nú, að mikið sé af óhreinu fé í umferð. Hann var að tala um Ísland. Mig langaði að segja við manninn: Hvers vegna ertu að hvísla þessu að mér? Hvers vegna skrifarðu ekki um þetta í blöðin?“

Í athugasemdum við þessa færslu kemur svo fram að þegar þriðji maður hafi komið aðvífandi að Þorvaldi og hinum ónefnda seðlabankastjóra, þá hafi þeir fellt þetta tal.

En ég spyr eins og Þorvaldur: Af hverju segir maðurinn ekki frá þessu opinberlega?

Maður er sífellt að hitta fólk sem gaukar að manni spillingarsögum af ýmsu ófögru, bæði frá fyrrum tímum og sumum jafnvel splunkunýjum.

Af einhverjum ástæðum virðist það ekki enn vera orðin sjálfsögð hvöt fólks að segja frá slíku opinberlega.

Fólk hugsar greinilega ennþá: Þessu verður nú að halda leyndu. Þetta má ekki koma fram.

En þetta er gamalt, úrelt og hættulegt viðhorf.

Við verðum að venja okkur af því.

Við verðum að venja á það hugarfar að ef við verðum vör við spillingu af einhverju einhvers staðar, þá segjum við frá henni.

Pískrum ekki í hornum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.10.2011 - 13:48 - FB ummæli ()

Sveitaleg yfirpróduktión

Ég hef verið að glugga í safn bréfa sem Halldór Laxness skrifaði Ingu fyrri konu sinni á árunum 1927-1929 og Halldór Guðmundsson og Einar Laxness önnuðust útgáfu á. Þetta er bráðskemmtilegur lestur, og afar fróðlegur – en það fer reyndar óstjórnlega í taugarnar á mér að þeir tvímenningar skuli segja í formála um útgáfuna að bréfin séu birt „að mestu óstytt“. Hér þarf að fylgja sögunni hvað hefur verið strikað út. Kannski er enginn missir að því, en það er slæmt að vita ekki hvers eðlis þeir kaflar voru sem lentu undir hnífnum.

En það er fengur að svo ótal mörgu í þessum bréfum. Upp á síðkastið hefur verið uppi sú mynd af Halldóri Laxness sem persónu að hann hafi verið frekar „cold fish“. Því kemur dálítið á óvart sú ágæta hlýja og ástríki sem hann sýnir í bréfunum.

Þessi bréf auka náttúrlega við skilning manns á Laxness og sýna mannlegu hliðina á honum. Og það er gaman að mörgu – eins og til dæmis þegar Halldór er á ferð í Sovétríkjunum 1932 og skrifar til Ingu:

„Aldrei hef ég komið í land, þar sem fólkið er jafn laust til alt kóketterí eins og hér. Ég get ekki hugsað mér borg sem verkar eins kynlaust og Moskwa, – og samt er hvergi jafn sveitaleg yfirpróduktión af börnum.“

Sveitaleg yfirpróduktión af börnum – þarna finnst mér skemmtilega að orði komist!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.10.2011 - 10:20 - FB ummæli ()

Með fingraför á sálinni

Íslendingar virðast stundum eiga alveg óstjórnlega erfitt með að festa hugann við kjarna málsins lengur en 2-3 daga.

Nú virðist til dæmis vera upphafin mikil umræða um að sá góði drengur og sérlega hæfi sérfræðingur í bankasýslu Páll Magnússon hafi verið hrakinn úr starfi af fáeinum vondum þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna, og ástæðan eingöngu sú að aumingja Páll hafði einhvern tíma sést í hópi framsóknarmanna.

Að öðru leyti var hann og er guðs engill.

Ég er auðvitað að ýkja dálítið hressilega – en tónninn sem ég er að vísa til birtist til dæmis hérna.

En þeir sem þessu halda fram – þar á meðal Páll sjálfur honum til nokkurs álitshnekkis, verð ég að segja, og svo náttúrlega Bjarni Benediktsson sem stökk umsvifalaust á þennan vagn eins og aðra sem leið eiga hjá Valhöll og fjasaði í fréttunum um „pólitísk fingraför“ á málinu – þeir virðast ekki geta munað stundinni lengur að það voru ekki Helgi Hjörvar eða Sigríður Ingibjörg sem „hröktu“ Pál úr embætti.

Það var almenn hneykslun í samfélaginu öllu.

Það var fólk almennt sem fylltist þvílíkri andstyggð á ráðningu Páls til Bankasýslunnar að auðvitað gat ráðningin ekki staðið – þótt furðu lengi væri þumbast við, og loks reynt að kenna flokkapólitík um allt saman.

Og ástæðurnar fyrir þeirri andstyggð fólks voru ekki andúð á Páli persónulega, og heldur ekki í sjálfu sér sú staðreynd að hann sé framsóknarmaður.

Heldur þær tvær ástæður sem ég hef hamrað á frá byrjun:

Hann uppfyllti augljóslega ekki skilyrði laga um yfirmann bankasýslunnar.

Og hann var – hvað sem hver segir – innsti koppur í búri einkavinavæðingar bankanna, og á af þeirri ástæðu einni ekki að koma nálægt endurskipulagningu bankakerfisins. Hversu hæfur sem hann kann að vera á öðrum sviðum.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því að risastór meirihluti þjóðarinnar vildi ekki þessa ráðningu, og þetta eru ástæðurnar fyrir því að hún gat ekki gengið í gegn.

En þeir sem eru fixeraðir á pólitíska flokka virðast ekki geta horfst í augu við að stundum hafi FÓLK áhrif. Það hljóta bara að vera flokkspólitísk fingraför á öllum hlutum!

Þeir sem svo hugsa, það eru jú líklega fyrst og fremst þeir sem eru sjálfir með fingraför á sálinni – kámug pólitísk fingraför.

Vonandi kemur einhvern tíma sú tíð að við getum þvegið þau af sál okkar.

En það þarf greinilega nýtt fólk til.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 23.10.2011 - 09:32 - FB ummæli ()

Ömurlegt land

Fréttin um að krónprins Sádi-Arabíu sé látinn (sjá hér) hefur vakið athygli á því ömurlega stjórnkerfi sem þrífst í þessu landi.

Landið er nánast einkaeign einnar fjölskyldu sem hefur meira að segja troðið nafninu sínu í heiti ríkisins.

Svona eins og ef Davíð hefði á sínum mestu valdaárum ákveðið að endurskíra Ísland og kalla það Davíðsland!! Og rétt eins og íbúar í þessu landi á Arabíuskaga eru kallaðir Sádar, þá hétum við öll Davíðar!

En yfirgangur Sádi-ættarinnar í Arabíu er reyndar ekkert fyndinn.

Kúgunarstjórnin þar í landi er kannski ekki alveg eins áberandi og kúgunin var í ríkjum eins og Líbíu og Sýrlandi, en hún er ansi öflug fyrir því.

Og þeir sem berjast gegn kúgun kvenna víða um lönd gleyma því gjarnan að þess eru fá dæmi í veröldinni að konur séu jafn hrottalega kúgaðar og í Sádi-Arabíu.

En á þetta er sjaldan minnst. Ástæðan er auðvitað hin gríðarlegu auðæfi landsins – eða réttara sagt konungsættarinnar.

Og svo eru Sádi-Arabar „vinir Vesturlanda“ eða réttara sagt Bandaríkjanna.

Því miður virðast lýðræðishreyfingar Arabalanda ekki hafa náð miklum styrk í Sádi-Arabíu. En þegar þessi feyskna og fúla konungsætt þar riðar til falls, þá gæti fall hennar orðið hátt.

Og hún gæti dregið landið með sér í algjöra upplausn.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.10.2011 - 20:44 - FB ummæli ()

Opið bréf til forsetans

Heill og sæll Ólafur Ragnar.

Ég hef eins og aðrir Íslendingar fylgst með fréttum af bréfaskriftum þínum og Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um mögulegar siðareglur forsetaembættisins sem margir hafa talið nauðsynlegt að settar yrðu eftir hrunið.

Ekki fer milli mála að þér finnst það ekki koma forsætisráðherra nokkurn skapaðan hlut við hvort þú kýst að setja þér siðareglur eða ekki.

Í bréfi til Jóhönnu vísaðir þú til þess að þú sem forseti værir þjóðkjörinn og ættir því aðeins undir þjóðina sækja; forsætisráðherra hefði ekkert boðvald yfir þér.

Og þér bæri því engin skylda til að svara einu né neinu sem frá ráðherra kæmi.

Þeir sem fjallað hafa um bréf þitt til Jóhönnu opinberlega hafa einkum staldrað við orðalag þess – hvort það hafi verið óþarflega hvasst.

En mér er alveg sama um það. Ég efast ekki um að Jóhanna Sigurðardóttir þoli alveg að fá hvassyrt bréf.

Og alveg burtséð frá orðalaginu, þá finnst mér reyndar að þú hafir í stórum dráttum rétt fyrir þér. Forsætisráðherra eigi að skipta sér sem minnst af hinum þjóðkjörna forseta.

En í umræðum um orðalag og formsatriði hefur hið upphaflega erindi því miður gleymst.

Sem sé hvað líði siðareglum forsetaembættisins.

Forsætisráðherra kemur það kannski ekki við, en samkvæmt þínum orðum, þá kemur mér það við. Ég er nefnilega partur af þjóðinni og hef verið frá því ég fæddist.

Og þar sem forsetinn sækir völd sín og áhrif til þjóðarinnar, þá hljótum við – samkvæmt þínu eigin áliti – að vera sammála um að þér beri þá skylda til að svara mér varðandi þessar siðareglur.

Ég veit ósköp vel að þú hefur nú þegar gefið til kynna að þér finnist algjör óþarfi að forsetaembættið hafi siðareglur.

En ég er ekki á því.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá því í fyrra segir svo í áttunda bindi (blaðsíðum 170-178):

„Forsetinn gekk mjög langt í þjónustu við einstök fyrirtæki og einstaklinga sem stýra þeim … Forsetinn beitti sér af krafti við að draga upp fegraða, drambsama og þjóðerniskennda mynd af yfirburðum Íslendinga sem byggðust á fornum arfi …[N]okkrir þeirra eiginleika sem forsetinn taldi útrásarmönnum til tekna eru einmitt þeir þættir sem urðu þeim og þjóðinni að falli. [Þótt] kenningar forsetans væru harðlega gagnrýndar hélt hann áfram að lofa útrásina. Hann tók þátt í að gera lítið úr þeim röddum sem vöruðu við hættulega miklum umsvifum íslenskra fyrirtækja.“

Nú má vel vera að þú sért orðinn nýr og betri maður. Öllum förum við vonandi svona frekar skánandi en hitt. En sú lýsing sem birtist þarna í skýrslu rannsóknarnefndarinnar virðist þó gefa til kynna að öruggast væri að setja forsetaembættinu snöfurlegar siðareglur, svo annað eins og þessi ósköp endurtaki sig helst ekki.

Ertu ekki þrátt fyrir allt sammála því? Verða ekki siðareglurnar örugglega settar von bráðar?

Mér þykir nauðsynlegt að fá upplýsingar um þetta hið fyrsta.

Þó ekki væri vegna annars en þess að forsetakosningar verða jú á næsta ári.

Ég treysti því þess vegna að fá sem fyrst svar, samkvæmt þinni eigin skilgreiningu á að það varði mig sem hluta af íslensku þjóðinni.

Með bestu óskum,

Illugi Jökulsson

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.10.2011 - 16:50 - FB ummæli ()

Er loks að linna flumbrugangi stórkarlanna?

Það var ansi merkilegt viðtalið sem Helgi Seljan átti við Bjarna Bjarnason forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur í Kastljósi í gærkvöldi.

Um jarðskjálftana í Hveragerði – en líka um ýmis önnur brennandi málefni Orkuveitunnar frá fyrri tíð.

Bjarni er náttúrlega nýtekinn við OR og gaf til kynna að hann vildi helst ekki þurfa að svara mikið fyrir fortíð fyrirtækisins.

En hann gerði það nú samt, og tónninn í hinum forstjóra var satt að segja verulega athyglisverður.

Því hann var svo hreinskilinn!

Bjarni er greinilega ekki maður sem tekur stórt upp í sig opinberlega, en hann viðurkenndi samt í reynd að næststærsta virkjun á Íslandi (á Hellisheiðinni) hefði verið reist í fljótfærni og að mjög lítt athuguðu máli.

Og þótt hann vildi ekki nota orðið „mútur“ sem Helgi varpaði fram til að lýsa samningi Orkuveitunnar við sveitarfélagið Ölfus – og fól í sér að OR átti að reisa fjárrétt, leggja ljósleiðara og setja upp ljósastaura við Þrengslaveginn – þá fór ekki milli mála að hann skildi alveg það orðaval.

Ég held að fólk ætti að horfa vandlega á þetta viðtal.

Hér er það.

Auðvitað hefur sumt af þessu verið kunnugt lengi, Lára Hanna Einarsdóttir skrifaði til dæmis á sínum tíma mikið um hinn makalausa samning OR við Ölfusinga.

En framganga Bjarna er vonandi merki um að sá stjórnendakúltúr sem hér hefur alltof lengi viðgengist sé á undanhaldi – þar sem menn settu undir sig hausinn og önuðu áfram eins og naut í flagi, viðurkenndu aldrei mistök og hristu fyrirlitlega af sér allar efasemdir um framkvæmdir, framkvæmdir og aftur framkvæmdir.

Athyglisvert er að á mánudaginn var Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar í öðru viðtali við Helga Seljan í Kastljósi. Þó Hörður hafi ekki virkað alveg eins „viljugur til hreinskilni“ eins og Bjarni, þá fékk Helgi þó upp úr honum að lokum að ofmat þeirrar orku sem hægt væri að virkja á svæðinu við Húsavík hefði orðið til þess að skrúfa upp væntingar Húsvíkinga um álver og aukna atvinnu í bænum.

Væntingar sem voru í raun eingöngu byggðar á gyllivonum Landsvirkjunar.

Þannig hafa í einni og sömu vikunni forstjórar tveggja stærstu orkufyrirtækja Íslands verið í viðtölum, þar sem þeir hafa svo gott sem slátrað stórkarlalegum áformum Íslendinga í háhitamálum – og gefið lítið fyrir fáranlegan flumbrugang og væntingar sem kýldar hafa verið upp í framkvæmdum við háhitavirkjanirnar undanfarin ár.

Kannski miðar okkur eitthvað, þrátt fyrir allt!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.10.2011 - 14:11 - FB ummæli ()

Skrípó? Held nú ekki!

Ritstjóri Eyjunnar hefur kosið að gera mjög hátt undir höfði í fréttaveitu sinni bloggfærslu sem Harpa Hreinsdóttir birti í gær um bók Þráins Bertelssonar, Fallið.

Bók Þráins fjallar eins og vonandi flestir vita um fyllerí sem hann lenti á í Færeyjum í sumar, og þó einkum og sér í lagi þá meðferð sem hann dreif sig í eftir fylleríið – því Þráinn er alkóhólisti og á ekki að drekka brennivín.

Fallið var honum því vitaskuld mikið áfall og í bókinni fjallar Þráinn vítt og breitt um tilfinningar sínar og hugleiðingar af þessu tilefni, horfist í augu við sjálfan sig og svipast um meðal samferðamanna sinna.

Þetta er falleg og einlæg og þó um leið undarlega skemmtileg bók. Hún er greinilega skrifuð af innri þörf – þetta er spegilmynd af höfundinum og hans vandamáli og hans lausn á því vandamáli, og í speglinum bregður líka fyrir öðru fólki.

Af hverju Harpa Hreinsdóttir finnur hjá sér innri þörf til að gera lítið úr og hæðast af heilmiklu yfirlæti að þessari einlægu bók Þráins, það er mér hulin ráðgáta.

Og alveg sérstaklega hvernig hún getur lesið „sjálfsupphafningu“ út úr bókinni.

Það er nú eitthvað annað. Þegar minnst er á að kjaftakerlingar af báðum kynjum muni smjatta á að alþingismaðurinn Þráinn sé lentur inná Vogi, þá er það bara staðreynd sem allir sem þekkja hinnar raunalegri hliðar íslensks samfélags ættu að vita.

En einkum hlýt ég að skjóta skildi fyrir Þráin hvað snertir þá fyrirsögn sem hún velur bloggpistli sínum og endurtekur síðan í textanum.

Að þetta sé „skrípóbók“.

Harpa Hreinsdóttir má auðvitað hvað skoðun sem hún vill á bók Þráins Bertelssonar – annaðhvort væri nú. Hún virðist vera þeirrar skoðunar að í bókinni ætti að vera fræðilegri umfjöllun um alhóhólisma, og að þar ættu að vera fleiri sögur um konur – og þessar skoðanir er henni vitaskuld heimilt að hafa.

Þótt það kunni nú aldrei góðri lukku að stýra þegar maður skrifar um bækur að skrifa frekar um það sem manni sjálfum finnst að bókin ætti að vera um, en ekki bókina sjálfa.

Henni er líka alveg heimilt að þykja bókin yfirborðskennd. Ég botna reyndar ekki í því, af því bókin gefur sig ekki út fyrir að vera neitt annað en hún er – frásögn af persónulegum raunum Þráins Bertelssonar og nokkurra vina hans og kunningja. Og mér persónulega þykir sú frásögn alveg hreint ljómandi djúp, takk fyrir!

En orð Hörpu að þetta sé „skrípóbók“ finnst mér verulega aðfinnsluverð.

Það lýsir svo miklum hroka – vonandi óvart, en hroka samt – að ég sjálfur myndi biðjast afsökunar ef ég hefði notað þetta orð um bók eins og Fall Þráins Bertelssonar. Þráinn hefur augljóslega lagt sál sína í verkið og þó einhver lesandi sé máske ekki fyllilega sáttur við útkomuna, þá finnst mér alveg einkennilega ljótt að komast svo að orði að afraksturinn sé „skrípóbók“.

Sér í lagi vegna þess að bókin er svo augljós EKKI neitt skrípó. Þvert á móti.

Þó hún sé vissulega ansi fyndin á köflum!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.10.2011 - 07:45 - FB ummæli ()

Ekki verra en þetta?

Þetta hér finnst mér dálítið merkilegt.

Að Ísland sé í 9. sæti Alþjóðabankans yfir þau lönd þar sem greiðlegast er að stunda viðskipti, stofna fyrirtæki og þess háttar.

Og hafi færst upp um fjögur sæti. Sé til dæmis fyrir ofan Svíþjóð.

Auðvitað segja aðstæður fyrir bissniss ekki nema takmarkaða sögu um hvert samfélag. Og ekki kann ég að leggja mat á þær viðmiðanir sem hér er farið eftir – þær eru náttúrlega komnar frá Alþjóðabankanum!

En að öðru jöfnu hlýtur maður að ætla að góð skilyrði í þessum geira endi með auknum atvinnutækifærum.

Og sé svo, þá virðist gefa til kynna að það sé kannski ekki neitt voða mikið að marka þau ramakvein sem sífellt kveða við úr sumum kreðsum að bévuð ánskotans ekkisens kommúnistastjórnin sé að murka lífið úr öllum atvinnurekstri í landinu.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.10.2011 - 23:26 - FB ummæli ()

Hlustið á frelsið!

Tónlist getur enn skipt máli. Veftímaritið Lemúrinn birti í dag myndband sem fáa getur látið ósnortið, en þar syngur mannfjöldi í Sýrlandi bölbænir til Bashirs forseta og um þrá sína eftir frelsi.

Þetta er ótrúlega öflugur söngur.

Sjáið og hlýðið á hann hér.

Og þegar maður les svo að söngvarinn hafi verið myrtur viku eftir þennan ótrúlega söng, þá fellur manni allur ketill í eld.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.10.2011 - 14:57 - FB ummæli ()

Drepið á dreif

Ýmsir hafa síðustu dægur haldið uppi vörnum fyrir ráðningu Páls Magnússonar til Bankasýslu ríkisins, eða altént gagnrýnt þá sem gagnrýnt hafa ráðninguna.

Á þeim forsendum að hvað sem öðru líði, þá hafi ráðning Páls verið „fagleg“ og að ekki megi snúa aftur til þeirra tíma þegar ráðherrar völdu æðstu embættismenn með tilliti til þess hverjir væru þeim þóknanlegir, pólitískt eða persónulega.

Að amast við Páli á þeirri forsendu að hann sé framsóknarmaður sé afturhvarf til fyrri tíma.

Þetta er, held ég, á algjörum misskilningi byggt.

Enginn hefur – svo ég viti til – amast við Páli Magnússyni á þeirri forsendu sérstaklega að hann sé framsóknarmaður. Ekki ég alla vega.

Framsóknarmenn eru söguleg staðreynd sem ekki verður hróflað við að sinni.

Menn hafa amast við Páli Magnússyni á tveimur forsendum.

Í fyrsta lagi liggur alls ekki fyrir að hann hafi borið af öðrum umsækjendum, nema síður sé. Stjórnarformaður Bankasýslunnar hefur að vísu fullyrt að Páll hafi verið „hæfastur“ en honum hefur ekki tekist að sannfæra fólk um það.

Í öðru lagi er amast við Páli vegna þess að hann var pólitískur aðstoðarmaður ráðherra sem hrintu í framkvæmd þeirri einkavæðingu bankanna sem endaði með ósköpum í hruninu 2008. Við vitum öll hvernig staðið var að þeirri einkavinavæðingu.

Það er einkennilega ósmekklegt að sá sem kom svo nærri einkavinavæðingunni skuli nú eiga að stýra þeirri Bankasýslu sem nú á að hreinsa upp sóðaskapinn eftir hina einkavinavæddu banka.

Þótt Páll Magnússon sé vafalaust góður drengur, þá verða hann og málsvarar hans að sætta sig við það viðhorf fólks.

Og mér finnst í rauninni óskiljanlegt að hann skuli ekki fatta það – og draga sig í hlé.

Ég verð eiginlega að viðurkenna að mér finnst það ekki nógu góð meðmæli með Páli Magnússyni að hann skuli ekki þekkja sinn vitjunartíma að þessu leyti.

Runólfur Ágústsson er mjög flinkur maður og til margra hluta nytsamlegur. Þegar hann var lentur í embætti umboðsmanns skuldara þótti það hins vegar sérlega illa til fundið af því hann eða einhver apparöt á hans vegum höfðu skuldað einhverjar summur á sínum tíma.

Runólfur sætti sig við að fólki fannst þetta ekki passa, dró sig í hlé og fann sér bara aðra vinnu.

Sama ætti Páll að gera.

Ef hann er svona flinkur verður hann varla í vandræðum með að finna sér starf við hæfi.

En forstjóri Bankasýslu ríkisins er ekki það starf.

Og það kemur málinu ekkert við hvort hann er framsóknarmaður eða ekki.

Fólk sem heldur því fram að gagnrýnendur amist við Páli af því hann sé framsóknarmaður er bara að drepa málinu á dreif.

Og sama gera þeir sem halda því fram að alls ekki megi gagnrýna ráðningu Páls því þar með séu menn að hindra siðvæðinguna sem felist í að ráðherrar pikki ekki út sína menn.

Mér finnst það satt að segja býsna kaldrifjaður brandari að það sé nú allt í einu vottur um siðvæðingu á Íslandi að fyrrum aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur við einkavinavæðingu bankanna skuli endilega þurfa að verða forstjóri Bankasýslu ríkisins!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!