Mánudagur 26.9.2011 - 06:34 - FB ummæli ()

Við eigum þetta ekki skilið

Ég brá mér frá í tvær vikur í september.

Auðvitað bjóst ég ekki við að það yrði nein bylting á Íslandi á meðan.

En samt vonaði ég undir niðri að eitthvað gott myndi gerast.

Það hefði verið svo gaman að koma til baka og fá óvæntar jákvæðar fréttir úr samfélaginu.

En nei.

Það helsta sem virðist hafa gerst þessar tvær vikur er málþóf á Alþingi.

Ofsafengnara og heimskulegra en nokkru sinni fyrr.

Fyrirgefiði, þó ég spyrji: En hvað í ósköpunum höfum við eiginlega gert af okkur í fyrra lífi til að verðskulda þetta?!

Það verður brýnna og brýnna að létta bölmóði hrunsins af þjóðinni, finna nýjar leiðir til uppbyggingar og sópa burt þeirri rifrildispólitík sem hér hefur heltekið allt síðustu árin.

Hruninu er lokið. Það þarf og verður að byggja nú upp – bæði samfélagið og andlegt ástand þjóðarinnar.

Og hvað gera stjórnmálamennirnir þá?

Jú – þeir bjóða upp á nýja umferð af málþófi. Með skipulögðum frammíköllum, andsvörum og öllu galleríinu.

Eina ferðina enn.

Ja svei!

Jú – og svo hefur það gerst að risin er bylgja stjórnmálastéttarinnar til að kveða niður þá skelfilegu hugmynd að nýtt afl og nýtt fólk megi eða eigi að koma til sögunnar í íslenskri pólitík.

Af því það er svo ómerkilegt fólk!

Annað en þetta vandaða fólk sem nú situr á þingi, ha?

Hvenær verðum við frjáls undan þessu?

Í gærkvöldi var sýnd í sjónvarpinu heimildarmynd um stjórnlagaráð.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það stjórnarskrárfrumvarp sem við í stjórnlagaráði bjuggum til með hjálp ótal áhugamanna um land allt sé ljómandi gott plagg, sem geti haft margar mjög góðar breytingar í för með sér fyrir íslenskt samfélag.

En vinnubrögðin sem við notuðum til að ná sátt eru líka til eftirbreytni í sjálfu sér.

Og sýndu hvað er hægt.

Það er hægt að fara aðrar leiðir til að skila okkur út úr þokusudda hrunsins heldur en málþóf á Alþingi.

Hvað svo sem við kunnum að hafa gert af okkur í fyrra lífi: Við eigum þetta ekki skilið lengur!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.9.2011 - 15:16 - FB ummæli ()

Er þetta ekki alveg afgerandi?

Fréttin um að 75 prósent þjóðarinnar vilji láta senda nýja stjórnarskrárfrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu gladdi mig, og vonandi fleiri.

Við kvörtum sáran, og því miður oftast með réttu, yfir því að alls ekki nógu margt hafi breyst frá því í hruninu.

En sú aðferð sem notuð var til að skrifa nýja stjórnarskrárfrumvarpið var sannarlega breyting frá fyrri starfsháttum, og til fyrirmyndar í alla staði.

Þetta segi ég ekki af því ég sjálfur átti hlut að máli – þetta var einfaldlega fyrirheit um breytt og ný og lýðræðisleg vinnubrögð.

Burtséð frá því hvort allir eru 100 prósent sáttir við hvern einasta punkt og prik í nýja stjórnarskrárfrumvarpinu.

Það verður bara að koma í ljós, í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem ég ætla að vona að verði nú haldin.

Því er vilji þjóðarinnar ekki alveg afgerandi að þessu sinni?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.9.2011 - 15:09 - FB ummæli ()

Þessir litlu karlar eða hinir

Ekki hef ég minnstu hugmynd um hvort Þórður Snær Júlíusson meinar einhverja ákveðna „litla karla“ frekar en aðra með þessum pistli sínum í Viðskiptablaðinu.

En það má einu gilda.

Þetta er holl lesning.

Nema hvað gallinn er sá að „litlu karlarnir“ munu alveg áreiðanlega ekki koma auga á að pistillinn sé um þá.

Þeir munu vera sannfærðir um að hann sé um hina.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.9.2011 - 16:54 - FB ummæli ()

Borgarstjórinn

Ekki kaus ég Jón Gnarr til borgarstjóra í Reykjavík.

Mig minnir meira að segja að ég hafi skrifað eitthvað á móti honum.

En eigi að síður furða ég mig dálítið á skoðanakönnunum eins og þessari.

Mér finnst nefnilega að Bezti flokkurinn standi sig bara vel við stjórn borgarinnar.

Og einkum hvað snertir heiðarleika og einlægni.

Vissulega hegðar Jón Gnarr sér ekki eins og „venjulegir“ borgarstjórar.

Hann er til dæmis ekki eins flinkur og margir „venjulegir“ stjórnmálamenn við að dulbúa orðið „ég“ í máli sínu.

En við hverju bjóst fólk?

Þó ég sé stundum ekkert himinsæll með allt það sem Jón Gnarr tekur sér fyrir hendur eða segir, þá hefur samt oft hvarflað að mér hvað það sé skemmtileg tilhugsun að borgarstjórinn hér í Reykjavík sé ekki eitthvað pólitísk leirdýr, mótað og alið upp á flokkskontór og kann alla réttu frasana upp á sína tíu fingur, svo það er eins og að hringja í símsvara að hlusta á það fólk tala.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.9.2011 - 11:57 - FB ummæli ()

Í þröngu eiginhagsmunaskyni

Staða okkar bæði innanlands og ekki síður á alþjóðavettvangi er viðkvæm eftir hrunið.

Það er mikilvægt að við skemmum ekki fyrir okkur sjálfum með undirróðri og svikabrigslum – sem gjarnan eru sett fram í afar þröngu eiginhagsmunaskyni.

Ég verð að segja að í þetta sinn get ég tekið undir flest það sem Jón Baldvin Hannibalsson segir í þessari grein.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.9.2011 - 17:41 - FB ummæli ()

Belgíska hættan?

Einu ætlaði ég að vekja athygli á um daginn, en gleymdi því.

Geri það þá bara núna.

Það er í sambandi við merkilegar upplýsingar sem fram komu í viðtali í sjónvarpinu við Jón Orm Halldórsson.

Það var viðtal við hann um Kínverja í tilefni af kaupum kínverska afhafnaskáldsins (aldrei þessu vant er líklega í lagi að nota þetta orð!) á Grímsstöðum á Fjöllum.

Og þá upplýsti Jón Ormur dálítið sem kom mér á óvart.

Eins og fleiri hef ég staðið í þeirri trú að fjárfestingar Kínverja erlendis væru beinlínis tröllauknar á síðustu árum.

Þeir væru nánast búnir að kaupa upp heilu löndin í Afríku og seildust nú til gífurlegra fjárfestinga í Evrópu, Ameríku og víðar.

Þannig hefur verið talað um Kínverja á undanförnum misserum.

En Jón Ormur sagði það af og frá.

Vissulega hefðu fjárfestingar Kínverja erlendis aukist frá því sem þær voru – en þær voru líka næstum engar.

Núna væru þær samt ekki meiri en svo að þær slöguðu upp í svipaða upphæð og Belgar fjárfestu fyrir erlendis á hverju ári.

Ekki margir óttast fjárfestingar Belga, held ég.

Það er kannski ágætt að vita af þessu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.9.2011 - 16:01 - FB ummæli ()

For lovers and drinkers

Eiríkur Jónsson skrifar á bloggsíðu sinni um útrás Ópals til Ameríku fyrir nokkrum árum.

Og hefur eftir einhverjum kunningja sínum að frasinn sem átti að selja Ópal þar vestra hafi verið „Good for alchoholics and seamen“.

Sem hljómar auðvitað skelfilega.

Hver ætti að vilja kaupa annað eins og það sem þannig er auglýst?

Ég held samt að kunningjanum hafi aðeins skjöplast.

Ég man nefnilega eftir að hafa sjálfur séð auglýsingafrasann frá þessari útrás Ópals til Ameríku.

Og frasinn var:

„For lovers and drinkers.“

Sem er eiginlega ennþá hræðilegra.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.9.2011 - 08:27 - FB ummæli ()

Hækkið bílprófsaldur strax!

Í Ríkisútvarpinu rétt í þessu var sagt frá því að kappakstri tveggja ungra ökumanna í Kópavogi í gærkvöldi (sjá leiðréttingu á þessu hér að neðan!) hefði lokið með því að annar bíllinn fór út af og valt nokkrar veltur áður en hann stöðvaðist.

Bílstjórinn slasaðist ekki mikið en aðrir vegfarendur voru í mikilli hættu.

Þetta gerist rétt eftir að til stóð að reyna einhvers konar vitundarvakningu um ábyrgari akstur hjá ungum bílstjórum, eftir að hraðakstur við höfnina í Reykjavík endaði með skelfingu.

Marga hef ég séð geta þess á Facebook að sú vitundarvakning hafi ekki skilað nokkrum sköpuðum hlut.

Ungir  ökumenn – nýkomnir með bílpróf – stundi enn kappakstur af þrótti á götum og torgum.

Vælandi óhljóð í kraftmiklum bílum, það er partur af kvöldhljóðunum í sumum hverfum höfuðborgarsvæðsins.

Þið fyrirgefið, en það er kominn tími til að gera eitthvað í þessu.

Ég vil ekki eiga á hættu að ég eða mitt fólk eða bara hvaða fólk sem er lendi í lífshættu við að rekast á barnung fífl að þenja sig á götum úti.

Það verður að hækka bílprófsaldur – að minnsta kosti upp í tvítugt.

Þá er aðeins minni hætta á að þessir ungu „ökumenn“ fari sjálfum sér og öðrum að voða – þó því miður verði ekki alveg loku fyrir það skotið.

Ég fer fram á alvöru umræðu um þetta mál.

Af hverju eiga 17 ára börn að fá að setjast undir stýri á stórhættulegum tækjum, sem þau hafa hvorki líkamlegan né andlegan þroska til að stýra?

Af hverju eru 25 ára fótboltamenn betri en þeir 17 ára, þótt táningsstrákarnir séu kannski í betra líkamlegu formi?

Það er vegna þess að heilinn í 17 ára táningi er ekki fullþroskaður. Hæfileikinn til að meta hraða og fjarlægðir er ekki kominn að öllu leyti í gagnið. Táningurinn getur ekki metið eins vel og sá sem kominn yfir tvítugt hvað gerist næst hjá þrem fjórum hlaupandi keppinautum sínum á fótboltavellinum.

Sama gildir um bílstjóra. Alveg sama hvað sá 17 ára telur sig búinn að læra vel undir ökuprófið, hann hefur einfaldlega ekki nógu þroskaðan heila til að meta alltaf rétt hvað gerist á götu þar sem margir eru á ferli, bæði bílar og gangandi vegfaraendur.

Allra síst ef hann er á ofsahraða.

Þetta er ekki sagt einhverjum tilteknum táningum til hnjóðs, þetta er bara staðreynd.

Svo af hverju heimtum við að troða þeim undir stýri á barnsaldri?

Og höfum talið stórum hópi þeirra trú um að það sé spurning um manndóm þeirra að þau fari 17 ára gömul að stjórna stórhættulegum ökutækjum innan um fullt af saklausu fólki?

Af hverju?

Hvað liggur eiginlega á?!

Nei, það á að hækka bílprófsaldur um mörg ár.

Það er bara engin ástæða til að krakkar undir tvítugu séu að keyra bíla.

Þeim er einfaldlega ekki öllum treystandi.

Ef bílprófsaldur væri hækkaður mundu einhverjir kannski segja að þar með séu tiltölulega fáir ökumenn, sem ekki eru traustsins verðir, að skemma fyrir meirihlutanum sem ekki stundar ofsaakstur.

En það verður þá bara að vera svo.

Því þetta er spurning um líf eða dauða bæði fyrir hina ungu ökumenn – og aðra vegfarendur.

Við leyfum fólki ekki að ganga um vopnað á almannafæri þótt sjálfsagt væri meirihlutanum alveg treystandi til þess.

Og til að svara fyrirfram ásökunum um að þetta sé voðaleg forræðishyggja:

Nei, það er ekki forræðishyggja að vilja að fólk fái ekki bílpróf fyrr líklegt sé að það hafi raunverulegan þroska til.

Þeir sem telja að það sé stórhættuleg forræðishyggja að koma í veg fyrir að sautján ára gömul börn fái bílpróf, vilja þeir að tíu ára krakkar fái að keyra bíl?

Ég held ekki. Er það þá forræðishyggja?

– – – –

Samkvæmt nýjustu fréttum voru ökumennirnir í Kópavogi engin unglömb. Annar 25 ára og sá sem velti bíl sínum 64ja ára.

Jahérna.

Hvílík fífl!

Ég ætla samt að láta pistilinn minn standa.

Stór meirihluti þeirra sem stunda ofsaakstur á götum höfuðborgarsvæðisins er undir tvítugu og það vita allir.

En með tilliti til aldurs bílstjórans sem velti bílnum sínum, þá ætti kannski að íhuga þá tillögu að hækka bílprófsaldurinn uppí sjötugt!!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.9.2011 - 17:19 - FB ummæli ()

Ekki gleyma: Ólafur Ragnar staðfesti fyrsta Icesave-samninginn

Axel Axelsson rifjar upp merkilegan hlut hér á bloggsíðu sinni.

Að Ólafur Ragnar Grímsson staðfesti fyrir sitt leyti fyrsta Icesave-samninginn, og þann sem talinn hefur verið verstur.

Án þess að blikna eða blána.

Þótt hann tali nú eins og hann hafi frá upphafi verið stífur andstæðingur samninga um Icesave.

Axel skrifar:

„Ólafi hefur tekist að fá bæði almenning og fjölmiðla til að gleyma því að hann staðfesti fyrstu Icesavelögin, en þá voru það reyndar Bretar og Hollendingar sem höfnuðu þeim staðfestingar vegna fyrirvara sem Alþingi setti inn í lögin.  Það var því ekki fyrr en við Icesave 2 og eftir tugþúsunda áskoranir almennings sem Ólafur hafnaði því lagafrumvarpi staðfestingar …“

Og ekki má gleyma áramótaskaupinu fræga sem sýndi forseta fram á að hann yrði að gera eitthvað til að snúa við áliti þjóðarinnar á sér.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.9.2011 - 12:00 - FB ummæli ()

Þegar Indverjar björguðu okkur

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur farið mikinn í fjölmiðlum undanfarna daga.

Hann skammast út í Evrópuríkin og Evrópusambandið og virðist að fullu kominn á þá skoðun Davíðs Oddsonar og Styrmis Gunnarssonar að hrunið á Íslandi stafi af því að landsmenn hafi lent í „umsátri“ vondra manna frá útlöndum.

Sem betur fer á Ísland þó góða vini sem hafa aðstoðað okkur í þessari kreppu meðan Ameríka lét okkur sigla sinn sjó og Evrópa beindi að okkur „byssum sínum“.

Þessir góðu vinir eru Kínverjar og Indverjar.

Gott að eiga góða vini – þeir voru sko annað en hyski eins og Færeyingar, Pólverjar, Þjóðverjar, Norðurlandaþjóðirnar … ekkert af þessu dóti þarna í Evrópu hefur sýnt okkur annan eins vinarhug og Kínverjar og Indverjar.

Mér hlýnaði um hjartarætur þegar ég heyrði forseta vorn lýsa því hve mikils virði það væri og hvað það hefði hjálpað okkur mikið í kreppunni að Kínverjar og Indverjar væru svona ósköp góðir við okkur.

Svo fór ég reyndar aðeins að klóra mér í höfðinu.

Bíddu hvernig birtist nú aftur þessi mikli vinarhugur og þessi gífurlega aðstoð sem Kínverjar og Indverjar veittu okkur?

Hm, allt í einu man ég ekki hvernig þeir hafa bjargað okkur upp úr kreppunni sem vondu Evrópuþjóðirnar kölluðu yfir okkur.

Jú, vissulega gerðu Kínverjar við okkur gjaldeyrisskiptasamning, sem var ágætt, en ég held að hafi nú varla skipt neinum sköpum.

Og Indverjar man ég bara ekki til að hafi gert nokkuð skapaðan hlut.

Nema jú, þeir buðu Ólafi Ragnari Grímssyni í heimsókn.

Varla er ÞAÐ hin mikla aðstoð sem hann segir að Indverjar hafi veitt okkur í þrengingunum sem fimbulvetur Evrópuþjóðanna kallaði yfir okkur?

Það hlýtur að vera eitthvað meira, er það ekki?

Ólafur Ragnar!

Viltu skýra út hvað þú meinar?

Mig langar nefnilega líka svo að þakka Indverjum fyrir að hafa linað þjáningar okkar í stríðinu við Evrópu, en ég veit bara ekki alveg hvernig ég ætti að orða þakkirnar.

Viltu útskýra þetta aaaaaaaðeins nánar?

Þú mátt fá pláss hérna á bloggsíðunni minni fyrir skýringarnar.

Því ekki varstu bara að bulla, nei, það getur ekki verið!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!