Þriðjudagur 7.6.2011 - 11:21 - FB ummæli ()

Hver ber ábyrgð?

Ég ætla ekki að hafa mikla skoðun á Landsdómskærunni gegn Geir Haarde.

Nema mér finnst undarleg sú gífurlega hneykslun sem margir hafa lýst vegna kærunnar.

Ef lög um ábyrgð ráðherra eiga yfirleitt að vera til staðar í lögum, um hvað eiga þau að gilda ef ekki algjör efnahagshrun og hugsanlega ábyrgð ráðamanna á því?

Hitt get ég tekið undir að það er óneitanlega svolítið skrýtið að Geir einn sé leiddur fyrir Landsdóminn.

En þá er líka rétt að vekja á þessum pistli Björgvins Vals.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.6.2011 - 22:48 - FB ummæli ()

Má ég biðja um glóbal vormíng?

„Veður fer kólnandi,“ sagði veðurfréttamaðurinn í útvarpinu hinn rólegasti nú um kvöldmatarleytið.

Kólnandi?!

Já takk kærlega fyrir.

Undanfarnar nætur hefur verið 4-5 stiga næturfrost í uppsveitum Rangárvallasýslu.

Ég þori ekki einu sinni að hugsa til þess hvernig birkinu mínu upp við Heklurætur líður.

Þessum litlu greyjum sem ég potaði niður í vor, beint oní þessa kulda!

Sveiattan – og svo á að kólna enn.

Er ekki hægt að fjölga flugferðum yfir landinu – láta bíla vera í gangi á nóttunni – fá fleiri álver – eða bara hvað sem er.

Allt til auka glóbal vorming!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.6.2011 - 22:38 - FB ummæli ()

Dómur er fallinn, og hún er ljót!

Ég hef reynt, ég má eiga það.

Ég hef gefið henni hvern þann séns sem ég hef getað.

Enda er það mála sannast að ekki get ég breytt henni.

Og ég þarf að sitja uppi með hana þangað til ég dey.

Því er eins gott að ég sætti mig við hana.

En ég hef sem sagt reynt að ganga lengra.

Ég hef reynt að láta mér þykja hún falleg.

En nú get ég ekki orða bundist lengur.

Eftir að hafa gengið niður í bæ áðan og virt hana fyrir mér einu sinni enn, og hugsað með sjálfum mér:

„Er hún ekki bara falleg, ha? Ha??“

Þá hlaut ég að svara loksins sjálfum mér afdráttarlaust:

Nei.

Hún er ekki falleg.

Hún er ljót.

Harpa.

Hún er ljótt, klunnalegt og óskiljanlegt hús.

Og hún passar einstaklega illa inn á þann stað þar sem henni var troðið.

Þetta segi ég alveg burtséð frá forsögu hússins, eða væntanlegri starfsemi í því.

Auðvitað vona ég að öll sú starfsemi gangi frábærlega, og það eru vissulega allar líkur á að við svo góða aðstöðu verði brugguð frábær tónlist.

Vonandi verð ég þarna sjálfur tíður gestur að láta syngja fyrir mig eitthvað fallegt.

En húsið að utan … nei, því miður, það er ljótt.

Ég er margoft búinn að sannreyna það að þegar maður kemur keyrandi Sæbrautina og sér Hörpuna nálgast, þá dettur mér að minnsta kosti aldrei neitt annað í hug en:

„Þarna er skakkur kassi.“

Ég leiði aldrei hugann að glerinu, birtunni, einhverjum fínni blæbrigðum … nei, þetta er bara skakkur kassi.

Og héðan neðan úr miðbænum er Harpa líka bara eins og risastór glerstykki sem er óskiljanlegt að sé þarna niðurkomið.

Og það versta er að það er ekkert gaman að horfa á þetta hús.

Þegar falleg eða ljót hús eru annars vegar, þá hugsa ég stundum til Ráðhússins í Reykjavík.

Mér finnst það í rauninni alls ekki fallegt hús.

Ekki í sjálfu sér.

Og það passar áreiðanlega illa inn í sitt umhverfi, þannig séð.

En samt er Ráðhúsið einhvern veginn þannig teiknað að það er gaman að horfa á það. Það er fjölbreytilegt, sumt er skrýtið, annað skondið – augað hefur alltaf eitthvað að dvelja við, hugurinn getur alltaf eitthvað spekúlerað í því húsi.

Svo nú gæti ég ekki hugsað mér neitt annað hús þar í Tjarnarhorninu en einmitt Ráðhúsið.

Auðvitað er ekki útilokað að Harpi eigi líka eftir að venjast vel.

En ég er ansi smeykur um ekki.

Því það er nákvæmlega ekkert gaman að horfa á hana.

Það er bara þarna þessi stóri glerkassi. Púnktur.

Og þessi stóri glerkassi er búinn að taka frá okkur Esjuna þegar við horfum úr miðbænum út á sundin blá.

Esjan gægist þarna á milli auðvitað, Hörpu og Seðlabankans (!), en glerflöturinn er svo yfirþyrmandi stór að hann dregur alla athygli frá Esjunni.

Samt er þessi flötur ekkert fallegur, ekkert skemmtilegur, ekkert athyglisverður.

Já, því miður – þetta er mín niðurstaða.

Nauðugur viljugur hlýt ég að endurtaka:

Harpa er ljót.

Ansans!!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.6.2011 - 20:07 - FB ummæli ()

Hver er þörfin?

Gunnar Smári Egilsson er og verður umdeildur maður fyrir ævintýri sín í fjölmiðlaheiminum hér fyrr á árum, en það blandast engum hugur um að hann getur verið fjári skarpskyggn.

Nú er hann orðinn formaður SÁÁ  og má búast við að hann berjist skörulega fyrir málstað samtakanna.

Í seinni hluta þessa pistils hér á heimasíðu SÁÁ skammast hann yfir þeim sparnaði sem samtökunum er gert að taka á sig, og talar þar eins og heitfengur forstöðumaður – svo sem honum er auðvitað ætlað. Og það er vissulega afar auðvelt að færa rök fyrir því að stjórnvöld ættu ekki að þjarma um of að SÁÁ þótt á móti blási í samfélaginu um skeið.

Menn þurfa ekki að skrifa upp á hvern einasta punkt eða prik í heimspeki SÁÁ til að viðurkenna að þessi samtök hafa unnið ómetanlega gott starf undanfarna áratugi.

Fyrri hluti pistilsins er þó kannski merkilegri.

Þar tætir GSE í sig síauknar ávísanir á rítalín til fullorðinna, og varpar fram miklum efasemdum um skilgreininguna á ofvirkni og athyglisbresti, ADHD, sem hefur orðið svo „vinsæl“ á síðustu árum.

Með tilheyrandi lyfjagjöf – og lyfin seytla síðan út í samfélagið, þar á meðal til „venjulegra“ eiturlyfjafíkla.

Með skelfilegum afleiðingum.

GSE fer ekki beinlínis blíðum höndum um Grétar Sigurbergsson geðlækni.

En um leið og við könnum hvaða læknar ávísa mest af rítalíni og hvernig sé hægt að koma í veg fyrir beina misnotkun í skúmaskotum dópista, þá eigum við líka að velta vöngum yfir því hver hin raunverulega þörf sé.

Grein GSE er ágætt innlegg til þess.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.6.2011 - 15:56 - FB ummæli ()

Aldrei í lífinu!!

Það er spurning hvað maður hefur mikið hugmyndaflug.

Stundum finnst mér ég vera ógurlega trénaður, en öðrum stundum fljúga með himinskautum hugans.

Og þá tel ég mér trú um að ég sé svakalega hugmyndaríkur og geti látið mér detta í hug nánast hvað sem er.

Ég vona að það sé ekki alveg tóm vitleysa.

En þó verð ég að viðurkenna að ef ég hefði verið beðinn um að láta mér detta í hug einhvern Íslending sem væri milljarðamæringur og ætti alþjóðaflugvöll …

Ja, þá hefði Guðbergur Bergsson alveg áreiðanlega verið síðasti maðurinn sem mér hefði dottið í hug!

Aldrei í lífinu hefði það hvarflað að mér.

Lífið getur – þrátt fyrir allt! – enn komið manni skemmtilega á óvart.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.6.2011 - 11:38 - FB ummæli ()

Vantar okkur ekki fólk?

Ég fór áðan með 12 ára syni mínum að vera við skólaslit hans, og afhendingu einkunna.

Allt fór það vel fram.

En svo sagði kennarinn að lokum að næsta vetur yrðu þrjár breytingar á bekknum.

Tveir nemendur færu í aðra skóla á höfuðborgarsvæðinu af því þeir væru fluttir úr hverfinu.

Þriðji nemandinn hefði hins vegar farið úr landi í gærmorgun, og kæmi ekki aftur.

Þetta er strákur frá Moldovu, sem hefur verið í þrjá vetur í bekk með honum syni mínum.

Fyrstu veturnir voru drengnum víst fremur erfiðir, en nú síðasta vetur hefur hann fallið æ betur inn í hópinn.

En nú, sagði kennarinn, „fengu foreldrar hans ekki að búa lengur á Íslandi“.

Ég veit ekkert um þessa fjölskyldu, eða málefni hennar.

En ósköp var leiðinlegt að heyra að eftir þrjú ár á Íslandi fengi fólk ekki lengra leyfi til að dvelja hér.

Vantar okkur ekki fólk?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.5.2011 - 19:57 - FB ummæli ()

Hver selur mest af dópi?

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra er nú að svara spurningum Sigmars Guðmundssonar í Kastljósi um þá lækna sem selja (ókei, ávísa) mest af rítalíni og öðru slíku læknadópi.

Það er mjög gott og blessað að upplýsa það, og hafi Jóhannes Kristjánsson þökk fyrir að vekja athygli á þessu ömurlega vandamáli.

Aftur á móti þarf Guðbjartur ekki að leita langt yfir skammt til að komast að því hverjir selja mest af allra hættulegasta, lúmskasta og leiðinlegasta dópi sem á markaði er á Íslandi.

Því það gerir ríkið sjálft.

Eða öllu heldur Ríkið.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 29.5.2011 - 14:26 - FB ummæli ()

Hvað á að gera við kirkjuna?

Á morgun förum við í A-nefnd stjórnlagaráðs að ræða það ákvæði í núgildandi stjórnarskrá, þar sem kveðið er á um þjóðkirkju.

Þá blasa strax við tvær spurningar.

Á eða má íslenska ríkið styrkja og styðja eitt trúfélag umfram önnur – sem virðist óneitanlega vera hægðarleikur að túlka sem það sé andstætt ákvæði stjórnarskrár um algjört trúfrelsi?

Og er yfirleitt ástæða til að fjalla um trúfélög í stjórnarskrá?

Mér, og vafalaust okkur öllum, þætti mikill fengur í að fá álit sem flestra fyrir umræðurnar sem byrja á morgun. Ég hef grun um að það séu nokkuð skiptar skoðanir um málið í A-nefnd, en við erum öll ákveðin í að reyna að geta þetta vel, og taka tillit hvert til annars.

Endilega punktið hér niður álit ykkar.

Ég veit að mörgum verður heitt í hamsi þegar trúmál eru annars vegar, en gætið samt að öllum almennum kurteisisreglum.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.5.2011 - 16:44 - FB ummæli ()

Er Davíð Oddsson Færeyjar?

Með vafranum Chrome fylgir sjálfvirkt þýðingarforrit sem ég veit ekki hvað heitir, en það getur þýtt á sekúndubroti allar íslenskar vefsíður yfir á ensku.

Yfirleitt er þýðingin bara furðu góð, miðað við hversu skamman tíma þetta tekur, og að minnsta kosti miðað við ýmis eldri þýðingarforrit sem finna mátti á netinu.

Blæbrigðin fara fyrir lítið, og stundum er þýðingin reyndar ærið vafasöm, en oftastnær þá er þráðurinn í þýðingunni svona nokkurn veginn réttur.

Maður sér að minnsta kosti um hvað er verið að skrifa.

Ég geri það stundum mér til skemmtunar að smella á þýðinguna til að sjá hvernig íslenskur nettexti – ýmist minn eigin eða annarra – lítur út í þessari sjálfvirku ensku þýðingu.

Af rælni lét ég Chrome til dæmis áðan þýða þennan pistil sem ég skrifaði fyrr í dag um afsökunarbeiðni Össurar Skarphéðinssonar til Falun Gong.

Og þar gat þá að lýsa þessa setningu:

„I think I have rarely embarrassed as much for being Icelandic and the Faroe Islands and spoke about Falun Gong received the men who were nothing but a terrible human rights abuses.“

Ha? Mig rak í rogastans. Þetta var augljóslega setningin þar sem ég sagðist sjaldan hafa skammast mín jafn mikið fyrir að vera Íslendingur og þegar tekið var á móti Falun Gong með mannréttindabrotum og offorsi árið 2002.

En hvað voru Færeyjar að gera þarna?

Ég minntist þess ekki að hafa getið neitt um Færeyjar í þessu sambandi.

Ég gáði því á upprunalega íslenska textann minn.

Þar var setningin svona:

„Ég held ég hafi sjaldan skammast mín jafn mikið fyrir að vera Íslendingur og þegar Davíð Oddsson mælti fyrir um móttökur Falun Gong manna, sem voru ekkert annað en skelfileg mannréttindabrot.“

Jahérna. Vélin hafði greinilega þýtt nafn Davíðs Oddssonar sem „the Faroe Islands“.

Margt hefur Davíð vafalítið verið kallaður um ævina. En hann hefur líklega aldrei verið nefndur Færeyjar áður.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.5.2011 - 09:51 - FB ummæli ()

Mikil og stór arnarfjöður

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fær stóra og mikla arnarfjöður í hattinn fyrir að hafa brugðist snöggt og afdráttarlaust við beiðni um að hann bæðist, fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, afsökunar á því að hvernig íslenskt stjórnvöld komu fram við Falun Gong fólk árið 2002, þegar Kínaforseti kom í heimsókn.

Sjá hér.

Ég held ég hafi sjaldan skammast mín jafn mikið fyrir að vera Íslendingur og þegar Davíð Oddsson mælti fyrir um móttökur Falun Gong manna, sem voru ekkert annað en skelfileg mannréttindabrot.

Og það gerðu fleiri – sjá hér.

Og þetta snerist ekki bara um skömm, heldur líka um vinnubrögð. Það var með mestu ólíkindum að það skyldi hafa hvarflað að íslensku þjóðinni að trúa fyrrnefndum ráðamanni fyrir nokkru starfi eftir þá svívirðilegu og skammarlegu valdníðslu sem hann sýndi af sér í þessu máli.

Það var svo erfitt að horfa upp á þetta á sínum tíma að mér datt í hug að birta opinberlega prívat afsökunarbeiðni til Falun Gong, þar sem við sem skömmuðumst okkar fyrir þetta bæðumst einfaldlega afsökunar á framferði stjórnvalda okkar.

Hrafn bróðir minn gekk í málið og auglýsingin varð að veruleika á rúmum sólarhring, með góðra manna hjálp. Fjöldi manns skrifaði undir, af öllum stigum, á öllum aldri, úr öllum stjórnmálaflokkum.

Mestum tíðindum sætti að Hannes Hólmsteinn Gissurarson einkavinur Davíðs skrifaði undir. Það fannst mér og finnst enn gott hjá Hannesi.

Hann fékk náttúrlega bágt fyrir hjá meistara sínum, en söm var hans gjörð.

Nú hefur Össur sem sé beðist afsökunar fyrir hönd stjórnvalda, og það var mjög gott hjá honum hvað sú afsökunarbeiðni var algjörlega fyrirvaralaus.

Gott, mjög gott.

Manni líður aðeins betur vegna þessa ömurlega máls.

Hér er auglýsingin okkar Hrafns.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!