Laugardagur 24.12.2011 - 21:30 - 1 ummæli

Prédikun á aðfangadagskvöld 2011.

Það eru rétt 100 ár síðan Stefán Sigurðsson frá Hvítadal í Saurbæ orkti þetta ljóð eða þennan sálm sem var inngöngusálmur okkar í dag og heitir einfaldlega Aðfangadagskvöld jóla 1912.  Uppfaf sálmsins er: Kirkjan ómar öll/býður hjálp og hlíf/þessi klukknaköll/boða ljós og líf.  Þessi einlægi og fallegi sálmur hins mikla skálds talar í einlægni sinni beint til okkar á aðfangadag jóla rètt hundrað árum síðar 2011.  

Söngvar förumannsins kom út 1918 og var talað um vorleysingu í íslenskri ljóðagerð þegar hún kom út og um svipað leiti fyrsta bók Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi (Svartar fjaðrir 1919). Kvað við nýjan tón í nýju formi hjá þeim skáldbræðrum – þeir ortu um gleðina, ástrina og trúna.  Í stað ættjarðarljóða koma tilbrigði við fögnuð og örvæntingu.  Viðkvæmni, óskhyggja og draumhneigð áberandi, geðhrif.  Og heilög kirkja er Stefáni  viðfangsefni.  Hann gekk til kaþólskrar trúar, trú hans var einlæg og fölskvalaus,  veiktist af berklum. Hann tók fótarmein og taka þurfti af honum fót ofan við ökkla.  Hann er skáldvinur Kiljans og Þórbergs í Unuhúsi, fer til Noregs til vinnu (eins og fleiri síðar) og verður einyrki vestur í Hvítadal þar sem hann var uppalinn að hluta.  Í lífi hans skiptast á gleði, vonbrigði, söknuður – hann er barnungur sendur í fóstur-. Og söknuður litar ljóðagerð hans og líf.  
En Enginn birtir þó gleði eins og hann:

Ég á gæfunnar gull/ég á gleðinnar brag./Tæmi fagnaðarfull./Ég gat flogið í dag
Eða þessa rómantísku gleði: Heyr mitt ljúfasta lag/þennan lífsglaða eld/um hinn dýrlega dag/og hið draumfagra kveld.

Stefán er ekki sáttur. Lífið uppfylti ekki drauma hans sem æskumans. Hann var fátækur og varð að vinna líkamlega erfið störf þrátt fyrir fötlun og skáldagáfu. Hann tjáir vel vonbrigði hins fullorðna sem harmar það að draumar bernskunnar rættust ekki.  En hann sættist við líf sitt:

Sestu æskuvon til valda/vorsins bláa himni lík./Ég á öllum gott að gjalda/gleði mín er djúp og rík.

Sáttin næst vegna þess að Stefán á sinn helgidóm:  Hvert hjarta á sinn helgidóm: 
Hvert göfugt hjarta á sér helgisdóm/þar anga skínandi eilífðarblóm….Þar alltaf í raunum athvarf var/þú hittir Guð á gangi þar.

Og við sem erum hér þá Inn er helgi hringd….

Höldum á sama fund og Stefán.  Við skynjum sama leyndardóm. Göngum að vöggu Jesúbarsins og lútum höfði fyrir hinu viðkvæma lífi.  Hlýðum á söguna sem felur í sér drauminn um sigur andvaldsins, söguna um skrefið frá dýri til manns…þar sem göfgin ræður, virðingin, umhyggjan, réttætið andstæð hinu grófa valdi hungurs og grimmdar, þar sem sálargáfur skilja á milli ekki vöðvakraftur eða ginvídd.  Og 2000 árum síðar erum við enn í þessu ströggli.  Heimur mannsins er bæði grimmur og góður eins og þá. Dæmin blasa alls staðar við’

Ofbeldið, grimmdin allsráðandi en sálargáfur, göfug hugsun setja því stöðug mörk í hinu eilífa tafli .

Meðal kristinna manna er nú fagnaðarhátíð hins góða og Jesúbarnið er tákn hins góða, hinnar björtu vonar þess eilífa meistara sem sagði þessu einföldu orð:  ,,Ég lifi og þér munuð lifa“

Margt hefur breyst frá Því að Stefán frá Hvítadal orkti ljóð sitt.  Þá var myrkur í íslenskum byggðum, kuldi og myrkur.  Oft tvísýnt um hvort menn og skepnur lifðu af veturinn. Fólk fór á vergang.  Fátæk heimili splittuð upp, harmur og kvöl. En líka hjartagæska, hlýja, samúð, nánd.  Efni voru yfirleitt af skornum skammti.  Ég ímynda mér að heimilisfólkið í Hvítadal hafi farið eina ferð út í Salthólmavík fyrir jólin.  Það var reyndar ekki eins langt og hjá sumu fólki.  Dagsferð fram og til baka.  Mestanpart lifði fólk á því sem búið gaf: mjólk, strokkað smjör, kjöt.  Föt spunnin úr ullinni.  Jólagjafir fáar og nytsamar.  Bæjarhúsin skreytt af nostursemi, skepnunum gefið exstra.  Þetta kvöldið loguðu ljós lengi frameftir á hverjum bæ.  Jólin færðu það sama og nú nánd og hlýju, tilbreytingu, gleði, börn og fullorðnir glöddust.  Já og farið var í messu þegar presturinn messaði en oft vildi jólamessa dragast fram á nýjárið.  Í heimild úr Ölfusinu segir að þegar út fyrir túnfót var komið stoppuðu menn og fóru með bæn. Karlar tóku niður pottlok. Þá í kirkju var komið hneigðu menn sig fyrir prestinum.  Í frosthörkum var gott færi, ísalagðar mýrarnar óþurrkaðar engir skurðir.  Verra í umhleypingum, blautt, forugt, þurfti að fara með fjallshlíðum.

Svona var þetta nú. Umgjörðin hefur svo sannarlega breyst en mannsjartað ekki svo mikið.  Enn eru særðar sálir, þyngdar lífsins þrautum og þá eins og nú gat gleðin og birta jólanna skotið  birtu í beygðar sálir.  Það er það góða við jólin…og gert okkur öll aðeins betri….eða minnt okkur á hið góða í okkur.  Sum okkar eru hrifnæm eins og skáldið frá Hvítadal. Þyngra í öðrum en varla er sú manneskja til sem jólaboðskapurinn hreyfir ekki við.

Á jólum brýst fram hin tregablandna gleði.  Til okkar koma allir sem okkur þykir vænt um lifandi sem dánir. Við þökkum Guði fyrir þau öll. Höfum það hugfast að Hlutirnir eru ekki eins og þeir eru.  Þeir eru eins og við sjáum þá.
Í dag horfum við á lífið og eilífðina frá vöggu Jesúbarnsins. Tökum gleðina á þetta. Þá mun sannast hið fornkveðna: Nóttin var svo ágæt ein. Hrærum vögguna og látum hana hræra í okkur.  

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 24.12.2011 - 14:45 - 1 ummæli

Jólakveðja!

Sendi ykkur vinum mínir nær og fjær, sóknarbörnum, fyrrverandi sóknarbörnum, sammálamér mönnum, ósammálamér mönnum, trúuðum sem vantrúuðum, leiðindaskörfum, bekkjarfélögum, sunnlendingum,Hornfirðingum, Dalamönnum, Ölfusingum,my friends abroad og öllum öðrum, kirkjufólki, collegum, biskupsefnum, gleymdum vinum, samskribentum á eyjunni, góðar og gegnheilar jólakvedjur með von um að boðskapur jólanna verði okkur að gagni í tilveruströgglinu.
Og vonandi sjáumst við og heyrumst eða fréttum hvert af öðru sem oftast.
Merry Christmas, gleðileg jól.
Baldur

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.12.2011 - 10:25 - 7 ummæli

Maó formaður mættur?

Ég sá einhvers staðar(Ömmi, Styrmir, Bjarni Harðar, Davíð líklegir) að sóun eða fíflska það væri að tugir ef ekki hundruðir Islendinga færu í það að stafla skjölum í Brüssel gengjum við í Evrópusambandið.
Rétt er að margir Islendingar fengju vinnu. Við þyrftum að manna tugi nefnda í öllum greinum – frá mannréttindum til fiskveiða.  Hópur sérfræðinga færi til starfa við framkvæmdastjórnina, nefndir og þingið.  Vinur minn, þingmaður í Eistlandi telur að um 200 samlandar hans hafi þannig farið til starfa í ESB tengdum verkefnum og gæti ég trúað að hinir útrásargjörnu Islendingar myndu  slaga uppí þá tölu eftir inngöngu.

I tilvitnuðum málflutningi er að mínum dómi undirliggjandi að Islandi veiti ekki af vinnufúsum höndum til framleiðslustarfa (minnir á málflutning Maòs formanns).  Allt sem ekki tengist fiskveiðum, landbúnaði eða stóriðju er talað niður. Hnýtt er í allt sem gerist með útlenskum.  Skipulögð og vel rekin ríki og alþjóðavæðing er hædd – alið er á óttatilfinningu.  Allt er gert til þess að koma í veg fyrir það að íslendingar haldi áfram ferð sinni úr torfkofum aldanna yfir í hikstalaust samstarf og samvinnu við aðrar þjóðir.

Einhver mesti ávinningur af samstarfi innan ESB er að hundruðir Islendinga fengju að takast á við verðug verkefni á alþjóðavísu og veittu þar með nýrri þekkingu og nýrri hæfni og nýjum tengingum inn í íslenskt samfélag.

Afi minn, bóndinn, hefði kannski orðið skjalavörður eða kennari ef hann hefði fæðst fimmtíu árum síðar. Bóndinn var þvingað val. Á hverri tíð erum við að móta þá valkosti sem börn okkar og barnabörn munu standa frammi fyrir.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.12.2011 - 11:49 - 20 ummæli

Hart tekið á kynþáttaníði!

Í enska knattspyrnusambandinu eru menn sem berjast af fullri alvöru gegn kynþáttaníði.  Í þeirra bókum líðst það ekki í siðaðra manna samfélagi að hrakyrða menn vegna litarháttar. Luis Zuaris skapofsi sem spilar fótbolta með Liverpool hefur orðið uppvís að slíku og fær átta leikja bann fyrir vikið.  Með því eru send út sterk skilaboð til allra sem tengjast knattspyrnu að níð á borð við þetta líðst ekki og á sambandið lof skilið.
Allar kenningar um menningarmismun og/eða ótrúverðugleika þess sem kærði detta dauðar. Í þessum dómstól eru menn sem vita alveg hvað þeir eru að gera.
þar er ekkert íslenskt fúsk á ferð en KSÍ hefur tekið á svona màlum af linku hingað til.
(undirritaður hefur í gegn um starf sitt í ECRI komið að reglu og markmiðssetningu sem knattsyrnusambönd fara eftir í þessum efnum)

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.12.2011 - 22:03 - 14 ummæli

Össur hæfasti stjórnmálamaðurinn!

Frá því Össur Skarphêðinsson kom fram á sjónarsviðið hafa andstæðingar hans í stjórnmálum reynt að tala hann niður og skollaleikurinn með forræði yfir Icsave dómsmálinu er leikinn í því samhengi.
Ástæðan fyrir því að menn láta svona er sú að Össur er stjórnmálamanna hæfastur.  Hæfari en þeir flestir og þeirra best menntaður.  Senilega er hann  hæfasti utanríkiráðherrann sem við höfum átt síðan Jón Baldvin skipaði það embætti og þóttu þó bæði Ingibjörg Sólrún og Halldór Ásgrímsson verðugir fulltrúar þjóðar sinnar í því embætti.
Það er skömm að því að stjórnarþingmaður taki þátt í þeim skollaleik sem er leikinn til þess að grafa undan trausti á ríkisstjórn og utanríkisráðherra.
Auk þess að vera hæfastur er Össur lang skemmtilegastur þingmanna og dyggði honum brot af kímnigáfu sinni til þess.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.12.2011 - 15:00 - 4 ummæli

Gamlir flokkar og gamlir menn!

Ástæðulaust er að óska flokkum til hamingju með 95 ára afmæli. Þvert á móti. Því eldri sem flokkar eru því meira ryk í hornum því fleirri skúmaskot því minni líkur eru á því að eitthvað í grundvallarstefnu eigi lengur við. Flokkar eiga helst ekki að verða mjög gamlir. Það á fólk hins vegar að verða og full ástæða til að óska gömlum Framsóknarmönnum til hamingju með daginn og þá aðeins þeim sem hafa varðveitt hreinleika hjartans og ekki reynt að auðgast á stjórnmálaþátttöku sinni eða notað flokkinn sem tæki til sérhagsmunavörslu.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.12.2011 - 14:08 - 5 ummæli

Er Guð til -tilbrigði við spurninguna-

Hugmyndin um Guð er í sjálfu sér hugsunastoppari. Guð sem einhvers konar æðri vera sem hafi skapað heiminn eða komið hinum af stað sem hinn fyrsti hreyfill. Slík hugsun felur í raun í sér uppgjöf því að í henni felst sjálfkrafa að ekki sê hægt að útskýra tilurð heimsins þar sem Guðshugtakið er í raun „code“ orð yfir það sem ekki er hægt að skilja.

En munum við nokkurn tímann skilja eðli og upphaf heimsins? Getum við skilið hvernig eitthvað varð til í upphafi? Úr hverju varð það til? Úr engu? Getur einhver ímyndað sér hvernig „ekkert“ er? Það er varla hægt. Sé hægt að ímynda sér „ekkert“ er það orðið eitthvað! Svo eitthvað hefur alltaf verið til eða hvað? Samaþjappaður massi sem sprakk og alheimurinn varð til? Og þá óendalegur fjöldi slíkra alheima sem hver um sig hefur líftíma sem telur í tugum billjóna ára og verður aftur klumpur sem svo aftur springur! Getur þá einnig verið að óendanlegur fjöldi heima sé á óendanlegum fjölda tíðnisviða?

Svo má aftur spyrja hvort að veröld sé til ef enginn skynjar hana. Ef engin meðvitund er til í formi lífs er þá nokkuð til? Er þá tilurð hins fyrsta einfaldasta lífs fyrsta skynjunin, sköpun hins fyrsta heims? Við komumst víst ekkert áfram með þessu móti heldur þvi eitthvað var til meðan engin skynjun var í gangi sem leiddi til þessarar fyrstu skynjunar.

Mér geðjast best að hugmyndinni að „guð“ sé strákur eða stelpa í öðrum og miklu stærri heimi sem hafi skapað veröldina í tölvunni sinni. Þessi veröld er svo stór á okkar mælikvarða ad hver sekúnda hjá honum/henni sé miilljónir àra hjá okkur. Einn góðan veðurdag stendur krakkinn/unglingurinn upp og slekkur á tölvunni sinni. Kannski mamma hans hafi kallað hann ímat fyrir miljónum ára, hann sè þegar með puttann á slökkvaranum. Guð hjálpi okkur þá!
Ótrúlegt en satt. Á tíunda áratug síðustu aldar var prófessor við M.I.T rekinn fyrir ad halda þessu fram.
Ritað eftir skoðun á greinum Stefáns Snævars en ekki í beinu sambandi við þær!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.11.2011 - 13:27 - 18 ummæli

Sjálfstæðismenn stíga í kristsvænginn!

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins tekur ákveðna afstöðu með þjóðkirkjunni og hinum kristnu gildum eins og það er orðað.  Á sama tíma eru settar stífar reglur í boði Samfylkingar og Besta flokksins um aðgengi  trúfélaga item þjóðkirkju að skólum Reykjavíkurborgar. Svo langt er gengið að banna dreifingu á höfuðriti Vestrænnar menningar Nýja Testamentinu í skólum borgarinnar.  Á landsfundi Vinstri Grænna  komu fram tilögur sem ekki voru beinlínis hliðhollar kirkju og prestum.  Þetta er óheillaþróun.  Við erum að fá hér upp kristið hægri og trúlaust vinstri. Vinstri mönnum skal bent á þeir sem fjalla um mismunun hjá Evrópuráðinu hafa ekki séð ástæðu til að amast við þjóðkirkjufyrirkomulaginu á Norðurlöndunum, telja þetta menningarlegt og félagslegt fyrirkomulag sem eigi sér djúpar rætur í samfélögunum og hafi gefist vel en þurfi að sjálfsögðu að aðlaga sig kröfum nútímans um jafnræði og hlutleysi.  það ættum við að geta gert í sameiningu án allra öfga.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.11.2011 - 09:50 - 6 ummæli

Viðhorf okkar til flóttamanna!

Teitur Atlason endurvakti athygli mína á því hvað skeytingarlaus við erum gagnvart flóttamönnum sem leita hælis hér. Stundum höfum við kyngt ælunni og veitt fólki tímabundið hæli af mannúðarástæðum sem er vond leið því hún rænir fólki þeirri gæfu að geta horft til framtíðar með líf sitt.  Oftast höfum við vísað fólki frá eftir dúk og disk jafnvel barnafólki með börn sem hafa verið farin að kunna vel við sig í íslenskum skólum.  Sá bakþanki virðist stjórna harðýðgi okkar að ef við látum gæsku okkar blandast í ferðina komi það í bakið á okkur með þeim hætti að hér verði ekki þverfótað fyrir fólki. Öll heimsins börn svöng og hrakin muni smygla sér um borð í Flugleiðavélar eftir að hafa keypt sér fölsuð vegabréf.  Við erum að vísu ekki alvond. Stundum sendum við sveit manna út til að velja flóttamenn og höfum með þeim hætti grynnt á sektakennd þeirri sem hlýtur að hrjá okkur. 

En tilefnið var að við viljum fá að vita hvað verður um fólk sem hingað hrekst í hörðum heimi með sitt eina úrræði – fölsuð vegabréf að vopni – og er frá degi eitt meðhöndlað eins og ótýndir glæpamenn.  Ekki veit ég hvað Teiti finnst en mér finnst að Gamla Testamentið – trúarbók Gyðinga – mætti verða skyldulesning viðkomandi embættismanna og stjórnmálamanna en þar er krafan um að reynast útlendingnum jafn vel og ekkjunni og hinum blásnauða sett fram með margvíslegu móti. Almennt siðvit okkar ætti að segja hið sama. En greinin sem við skrifuðum saman í Fréttatímann fylgir hér og fær þar með sitt pláss á eyjunni.

,,Hún vakti ekki mikla athygli fréttin sem um íraska parið sem var dæmt í fangelsi á Íslandi í september. Glæpurinn sem þau frömdu var svo sem ekkert stórfenglegur.  Þau framvísuðu fölsuðum skilríkjum við komuna til landsins.  Sé það haft í huga að unga parið var á flótta frá heimalandi sínu verður þetta mál nöturlegra.  Það er eins og Alþingi og dómstólar skilji ekki að flóttafólk gerir hvað sem er til þess að komast af.  Öllum meðölum er beitt og ekki ólíklegt að þetta vesalings fólk hafi borgað offjár fyrir fölsuð vegabréf.  Það er eins og enginn komi auga á örvæntingu þessa fólks.

Þetta er hinsvegar mjög í anda þeirra köldu lagahyggju sem einkennir afstöðu íslenskra stjórnvalda í málum flóttamanna.  Lagahyggja er þeirrar náttúru að vera skjöldur gegn áleitnum og flóknum siðferðislegum spurningum eins og oft vakna upp í kringum flóttafólk.  Það er jú svo auðvelt að segja eins og í þáttunum Little Britain, “The computer says no”. Par sem framvísar fölskum skilríkjum, jafnvel þó svo þeir pappírar hafi verið eina leið þess frá kúgun, ofbeldi og jafnvel bráðum bana, eru einungis ótíndir glæpamenn og ekkert annað. Engin forsaga, ekkert samhengi, bara hinn kaldi bókstafur laganna.

Parið sem dæmt var í 30 daga fangelsi fyrir að framvísa fölsuðum vegabréfum þann 8. september sl. virðist vera horfið af yfirborði jarðar.  Engar upplýsingar er um það að fá hjá Útlendingastofnun.  Í samtali við lögfræðing stofnunarinnar var ekki hægt að fá uppgefin nöfn þessa fólks, ekki nöfn umboðsmanna þess, ekki hvort þetta fólk væri statt á Íslandi eða hafi verið framselt annað ,og heldur ekki netfang lögfræðingsins sem talað var við.  Alger þagnarmúr virðist hafa verið reistur í kringum þetta fólk og afdrif þess.  Þessi staðreynd vekur furðu og fleiri spurningar.

Aðstæður flóttafólks á Íslandi eru alræmdar og fólk er geymt á gistihúsi í Njarðvík.  Staðsetning fyrir þessa starfsemi stuðlar að enn frekari einangrun flóttafólksins sem þar dvelur og nánast útilokar samskipti þess við landa sína eða Íslendinga sem vilja því lið.  Eftir því sem við komumst næst var staðsetning fyrir þessa starfsemi valin vegna nálægðar við Keflavíkurflugvöll.  Lesendum er látið eftir að geta sér fyrir um skilaboðin sem fólgin eru í því.

Lagahyggjan sem lýst er hér að ofan er ekki séríslenskt vandamál.  Sænsk yfirvöld ákváðu á dögunum að reka úr landi 91 árs gamla konu frá Úkraínu.  Konu sem var eiginlega blind og þjáð af Alzheimer sjúkdómnum.  Engu máli skipti að konan átti dóttur í Svíþjóð og barnabarn.  Ákvörðuninni var ekki haggað því tölvan sagði nei. Það var ekki fyrr en eftir mikla og almenna andstöðu almennings að einhver hátt settur virðist hafa áttað sig að svona á ekki að koma fram við fólk.

Þetta viðhorf vantar á Íslandi.  Almenningi virðist almennt standa á sama þegar flóttafólk er fangelsað fyrir þær sakir einar að reyna að bjarga sér.  Fólki virðist standa á sama þegar maður, sem hefur dvalið við illan kost í gistiheimili í Njarðvík í 6 ár, reynir að taka eigið líf í örvæntingu sinni.  Viðhorf á borð við að flóttafólk séu sníkjudýr sem þrái ekkert heitara en að forða sér frá fjölskyldum sínum og föðurlandi, eru algeng.

Hvers vegna varð þetta svona?  Hví hafa hjörtu okkar harðnað svona?  Hvers vegna sjáum við glæpamenn þegar við okkur blasir örvæntingarfullt fólk sem þarf á hjálp okkar að halda?  Hvar eru fulltrúar almennings í þessum málum?  Hvar eru verkalýðsfélögin okkar?  Hafa þau virkilega ekkert um þetta að segja?  Snýst baráttan fyrir bættum hag almennings bara um krónur og aura? Hvar eru eldhugarnir, skáldin, kirkjan þegar þegar kemur að þessum smánarbletti á orðspori Íslands?

Það þarf vakningu meðal Íslendinga þegar kemur að flóttafólki og skyldum okkar gagnvart því.  Það þarf ást og það þarf umhyggju.  Það er til fullt af Íslendingum sem vilja aðstoða flóttafólk með beinum hætti, veita því húsaskjól, atvinnu og hverskonar stuðning. Þetta fólk þarf að virkja. Það þarf líka að virkja fyrrverandi flóttafólk á Íslandi og koma upp skipulögðu neti til að stoða þá sem hjálpar er þurfi.  Það þarf að opna augu “kerfisins” um að stundum hefur tölvan rangt fyrir sér og að lög eru bara lög og segja lítið um rétt eða rangt.  Í málefnum flóttafólks þurfum við sem þjóð að sýna samúð í stað tortryggni, hjálpfýsi í stað afskiptaleysis. Við þurfum að vera almennilegt fólk og byrja að haga okkur eins og almennilegt fólk.“

Teitur Atlason er íslenskukennari í Gautaborg
Baldur Kristjánsson er formadur Þjóðmálanefndar Þjóðkirkjunnar

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.10.2011 - 13:52 - 4 ummæli

Eiturefnið er arsenik!

Ég var í sveitarstjórn Ölfuss þegar Orkuveitan var að byggja Hellisheiðarvirkjun og og vildi fá og fékk leyfi til þess að dæla eitruðu vatni sem búiuð var að nýta hitann úr aftur niðurfyrir grunnvatsyfirborð eða a.m.k niður á kílómeters dýpi sem urðu svo 800 metrar.  Eiturefnið er arsenik og það þurfti að koma því undir vatnið sem við notum til drykkjar og í fiskvinnslunni og í vatnsútflutning og niður fyrir sjávargólfið líka svo það blandaðist ekki fiskinum.

Aldrei fékk ég almenninleg svör við því af hverju því væri ekki dælt niður hinum megin þ.e. að segja undir Reykjavík en dró þá ályktun að þarna væri viss fræðileg hætta á ferðum og betra ef illa færi að nokkrir Ölfusingar yrðu eituðu vatni að bráð en margmennið syðra.

Það er alveg útilokað að venjulegir sveitarstjórnarmenn geti lagt hlutlaust mat á skýrslur og útreikninga fræðimanna sem eru að réttlæta ákveðin pólitísk ,,þjóðþrifamál“ sem þegar hafa verið ákveðin en látum það vera.

Aldrei var minnst á hugsalega jarðskjálfta í þessu sambandi eða að niðurdælingin myndi flýta jarðskjálftum eins og það er nefnt til að sefa almenning.

Jarðskjálftarnir bitna helst á Hvergerðingum sem hafa ekkert verið spurðir eða uppfræddir. Ölfus og Hveragerði er sama svæðið undir sömu fjöllunum og eiga auðvitað að vera eitt sveitarfélag en það er líka önnur saga.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur