Sunnudagur 16.10.2011 - 12:16 - 11 ummæli

Trúin bjargar eða hvað?-prédikun í ,,körfuboltamessu“

Á einu körfuboltagólfi má sjá allan pakkann. Kapp með forsjá, kapp án forsjár, vilja, einbeitni, kraft.  Vöðvastælt grísk Goð geisast um völlinn.  Gefa Hektor og Ajant og öðrum gömlum grískum hetjum ekkert eftir í líkamsburðum og fegurð.  Í skjóli situr herkonungurinn og horfir yfir sviðið hugsar með hönd undir kinn hvernig andstæðingurinn verði sigraður, leggur á ráðin lymskufullur, gáfaður, ráðagóður – hann er sá eini sem ekki hefur vöðvana en hefur lifað af vegna gáfna sinna.  Hann skákar mönnum upp og niður völlinn, tekur særða útaf og setur óþreytta inná.  Bardaginn heldur áfram.  Stundum er eins og grísku guðirnir séu líka mættir.  Guð íþrótta og leikja.  Boltinn rúllar á hringnum og virðist fara  niður eða útaf allt eftir duttlungum guðanna.  Dómararnir eru sem tæki guðanna, stundum sem slegnir blindu eða sjá hluti sem ekki gerðust.  Stundum geast vafasamir hlutir inn á vellinum hefndarpústrar, gróf tilþrif, á köflum viðburðir guðum þóknanlegir, menn hjálpa andstæðingnum á fætur, klappa honum á öxlina, halda sér til hlés áhyggjufullir ef einhver slasast.  Í stríði jafnt sem leik eru reglur sem sýna að þrátt fyrir allt eru þetta menn en ekki tígrísdýr eða ísbirnir, siðvæddar verur þó stutt sé í dýrið og ókunnur athugull áhorfandi myndi fljótt sjá að eitt skilur að stríð og leik.  Á meðan stríðsmenn Hómers, Churchill og Obama hafa spjót, barefli og sprengjur eru okkar menn með mjúkan bolta sem þeir berjast um eins og þeir eigi lífið að leysa og þarf ekki að fara lengra en aftur á fimmtudag til að sjá afleiðingar þegar einn kappinn rifbeinsbrotnaði í átökunum eftir púst frá manni sem er í liði sem kennir sig við þrumuguðinn Þór einhvern mesta kappa í gjörvallri guðasögunni, þrumuguðinn ógulegi og ekki nóg með það kappinn sem rifbraut KR-inginn kennir sig ekki bara við Þór heldur líka við Þorlákshöfn sem kennd er við Þorlák mesta áheitabiskup íslenskrar kristni.  Þegar hann var orðinn biskup, tóku menn eftir því að það var nóg að nefna nafnið hans þá gekk þeim allt í haginn. Það gekk svo langt að andstæðingar hans sigruðu hann sjálfan í bardögum ef þeir hétu á Þorlák biskup. Þess vegna er nú ekki útí hött að safnast saman hér í kirkjunni hans  ætli menn sér eitthvað. Við skulum sjá til hvort hann fylgir okkur ekki á ÍR leikinn.

En hvers vegna er maðurinn að tala um Guðina.  Er þetta ekki eingyðinstrú sem hann boðar.  Vissulega, en gallinn við okkar eina Guð eins og hann birtist í mynd Jesú Krists að hann virtist vera lítið gefinn fyrir íþróttir nema þá helst að hann hafði gaman af því að ganga á vatni sem er reyndar mikil íþrótt.  Á hans tíma var búið að finna upp frjálsar íþróttir, hlaup, einkum maraþonhlaup, köst og stökk og Grikkir svo komið sé að þeim héldu Olýmpíuleika þar sem menn kepptu naktir og hafa ekkert gefið körfuboltastjörnum nútímnans eftir nema þeir hafa verið skelfilega litlir í samanburði við þá – en það var ekki búið að finna upp körfuboltann.  1000 árum siðar eru strákar á Vesturlandi í vísi að skipulögðum boltaleik en það eru hrein slagsmál og Egill Skallagrímsson lætur sér ekki nægja að yfirbuga andstæðing sinn heldur drepur hann en á tímum Jesúsar eru alls engar þreyfingar í þessa áttina.  Enda er ekki víst að nokkuð hefði orðið úr guðspjöllunum ef Jesú og lærisveinarnir hefðu misst sig í körfubolta.  Að minnsta kosti hefðu guðspjöllin hljómað allt öðruvísi.  Sögurnar byrja t.d. svona. Daginn eftir léku þeir sér í körfu á ströndinni og Jesú hafði hitt í þremur skotum röð þegar blindur maður anaði inn á völlinn og sagði Meistari lækna þú mig.  Jesú mælti. Sæll ert þú sem trúir – kom í lið mitt – gaf boltann á blinda manninn sem sá allt og skoraði.  Mikil er trú þín gæti Jesú hafa sagt og í andblæ hans gætum við sagt að körfubolti eins og annað sem við reynum byggir á því að við trúum því að við getum, trúum því að við getum hitt í körfuna, trúum því að við getum unnið.  Þegar hinu fornu aðstæður og öll smáatriðin eru tekin úr sögum Nýja Testamentisins sjáum við að JK er alltaf að tönglast á því sama …að menn trúi á það sem þeir eru að fást við, að það takist.  Dæmið hérna fyrir aftan okkur(altarsitaflan: Jesú gengur á vatninu en Pétur sekkur) er kannski best.  Það getur auðvitað enginn gengið á vatni.  Þetta er dæmisaga.  En það er alveg gersamlega vonlaust ef þú trúir því ekki, enda sekkur Pétur því að hann haði ekki trú á því sem hann var að gera á meðan Jesú skeiðar þetta létt enda ekki neitt venjulegur.  Niðurstaðan er þessi og það á jafnt við um körfuboltamenn, fermingarbörn og gamlar konur:  Hafið trú á því sem þið eruð að gera.  Það er ekki víst að það takist en það tekst örugglega ekki ef þið hafið ekki trú á því.

Svo vil ég þakka Benedikt(Guðmundssyni)og körfuboltastrákunum fyrir að koma í messuna og lýsi því yfir að ég hef fulla trú á þeim…..

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.10.2011 - 11:29 - 19 ummæli

Hanskinn upp fyrir biskup!

Stundum finnst mér að verið sé að kasta glæpum Ólafs Skúlasonar yfir á eftirmann hans sem er allt öðruvísi manneskja eins og allir vita.

Vissulega er skúffuferðin á  bréfi Guðrúnar Ebbu óboðleg en enginn skal segja mér að  biskup hafi viljað þagga málið niður með því að setja bréf í skúffu.  Maður þaggar ekki mál niður með því að setja bréf í skúffu.  Bréfritarinn er enn til staðar og mun rita önnur bréf á önnur heimilisföng. Maður þaggar niður með ofbeldi og hótunum ekki satt?  Slíkt framferði er Karli ekki tamt.

Ef eitthvað er þá er hann ekki nógu ákveðinn og sterkur leiðtogi.  En var það ekki það sem við vorum að forðast? Á tími slíkra fyrirbæra ekki að vera liðinn?

Á tíma Karls biskups hafa verið byggðir upp sterkir farvegir fyrir kynferðisafbrotamál innan kirkjunnar. Nú verður t.d. að gá í sakaskrá hvenær sem manneskja er ráðin að kirkju. Gunnar Rúnar Matthíasson stýrir fagráði um kynferðisafbrotamál.

Biskup hefur komið ýmsu öðru góðu til leiðar, sálmum og bænum, verið gagnrýninn á misskiptingu auðs.  Stutt áhrif leikmanna innan kirkjunnar.  Lagst gegn klerkaveldi og er á flesta lund ljúfur maður.

Honum hafa samt orðið á eins og t.d. ummæli um hjónaband samkynhneigðra.  En það eru fleiri en hann sem voru hlekkjaðir í hugarfar aldanna en hann má eiga það að hann fylgdi réttindum samkynhneigðra vel eftir þegar pendúllinn sveiflaðist  innan kirkjunnar.

Mál Guðrúnar Ebbu og Sigrúnar Pálínu eru afgerandi mál sem vonandi eru að breyta kirkjunni og samfélaginu sem kirkjan er órjúfanlegur hluti af.  Sá hroði sem þessi mál bera vitni um er samfélagslegur óhroði sem við verðum að svæla út.

En dómharka í garð Karls Sigurbjörnssonar ber ekki vitni um að við séum að fljóta í rétta átt.

Þó ætla ég engum illt hugarfar allra síst Illuga Jökulssyni sem er einn gagnlegast og besti samfélagsrýnir okkar nú um stundir.   

En þessum fleti datt mér í hug að velta upp því að mér finnst að sumu leyti ósanngjörn þessi heljarreiði í garð biskups.

Ég býð mig þó helst ekki fram til aflífunar enda ekki feitur biti.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.10.2011 - 10:26 - Lokað fyrir ummæli

,,Skriftamál uppgjafaprests“

Ég fylltist óhug yfir sjónvarpinu í gær og sit hér morguninn eftir sem lamaður. Hvílík skepna hefur þessi biskup verið.(Þetta er upphrópun sem varla á rétt á sér. Maðurinn hefur verið sjúkur – BK)

Af því litla sem ég kynntist fjölskyldu hans fannst mér fjölskylda hans mjög elskuleg og góð, fyrirmyndarfjölskylda.

Ebba konan hans er virkilega góð kona og elskuleg.

Sjálfur kaus ég aldrei Ólaf. Var ekki orðinn prestur þegar hann fór fram í fyrra sinnið 1981 og kaus Sigurð Sigurðarson í kosningunum 1989. Það duldist hins vegar engum að Ólafur var mjög öflugur í hópi presta, sérstaklega Reykjavíkurpresta, og vinsældir hans sem sóknarprests í Reykjavík voru ótrúlegar.

Hann var dáður og elskaður af þúsundum manna sérstaklega í Bústaðasókn. Hann var líka uppáhald ráðamanna og fékk alltaf orðu við hvert þrep í metorðastiganum. Þegar hann varð prófastur. Þegar hann varð vígslubiskup. Þegar hann varð biskup.

Ráðamenn meðan ég var biskupsritari voru persónulegir vinir hans.

Sennilega get ég þakkað Davíð Oddssyni það að ég varð aldrei mikill ráðgjafi Ólafs ( fyrir utan það að vera af annarri kynslóð og með afleitar hugmyndir). Vigfús Þór Árnason prestur hafði eftir Davíð svo að margir hlýddu á eftir að ég var ráðinn: ,,Ég skil ekkert í Ólafi að vera að raða í kringum sig þessum kommúnistum.“

Ólafur varð svo ráðvilltur að hann vissi ekkert hvað átti að gera við mig næstu mánuði.  Dómur Davíðs gat verið dauðadómur.

Ég varð þó aðstoðarmaður hans. Undirbjó mál. Sá um samskipti við presta og leikmenn. Sá um erlend samskipti. Svaraði blaðamönnum og var staðgengill hans í stjórnsýslulegum efnum. Það fólst einkum í því að undirrita alls kyns pappíra þegar Ólafur var ekki við.

 Þó ég að sjálfsögðu verði ýmsar gerðir Ólafs og væri talsmaður embættisins í fjöldamörgum málum þá varð það aldrei hlutskipti mitt að verja kynferðisofbeldi með einum eða öðrum hætti. Þó ekki væri nú.

 Það næsta sem ég komst því var að rökstyðja það álit Ragnars Aðalsteinssonar og Tryggva Gunnarssonar lögfræðinga Ólafs að hver maður væri saklaus þar til annað sannaðist og að málið ætti ekki heima á vettvangi Prestafélags Íslands heldur hjá dómstólum.

Meirihluti presta var á þeirri skoðun til að byrja með. Eftir að ásakanir komu fram (frá Sigrúnu Pálínu) fór málið fyrir siðanefnd P.Í.  þar stóð Úlfar Guðmundsson sig mjög vel.

Það kom í minn hlut að fara með þær fréttir til Ólafs að kynferðisásakanir gegn honum væru komnar til Siðanefndar P.Í. og í DV. Það var að mörgu leiti sambærilegt og að tilkynna einhverjum eigið andlát.

Í áliti Rannsóknarnefndar er ég talinn hafa gert mistök að hafa ekki sagt mig frá málinu í stjórn P.Í fyrr en ég gerði. Ég hef meðtekið það og beðist fyrirgefningar á því. Ég vil þó halda því til haga að ég sagði mig þó frá málinu fljótlega og tel ekki að ég hafi haft nein (neikvæð) áhrif á framgang þess.

 Þegar málið kom upp hugleiddi ég alvarlega að hætta í mínu starfi. Þegar frá leið ákvað ég að gera það ekki. Það myndi aðeins auka á ringulreið innan kirkjunnar en ,,eineltið“ (afsakið orðnotkunina) gagnvart starfsfólki biskupsstofu fór vaxandi með hverjum mánuði þenna tíma. Voru það bæði ófyrirleitnir prestar, fjölmiðlamenn og fólk sem gat ekki greint á milli biskups og saklausra starfsmanna biskupsstofu sem voru aðallega konur.

Aldrei var starfsfólk Biskupsstofu vart óvildar frá Sigrúnu Pálinu, Dagbjörtu eða Stefaníu, konunum sem ásökuðu Ólaf. Þakkað er fyrir það.

Þegar Ólafur Skúlason hætti var mér sagt upp. Það kom mér í opna skjöldu. Ég hafði verið í óvinsælli eldlínu í þrjú og ár og hafði einhvern veginn ekki búist við því að vera settur út á tröppur. Þegar ég fór að sækja um atvinnleysisbætur hélt fólkið í afgreiðslunni og röðinni að ég væri að grínast. Ég fór ekki aftur. Var atvinnlaus í hálft ár.

Ég hafði sagt upp embætti mínu í Hornafirði af tillitssemi við Hornfirðinga. Þannig gætu þeir ráðið sér annan prest til frambúðar en þyrftu ekki að lúta bráðabirgðaprestum og svo kæmi ég kannski ekki aftur.

 Fyrr og síðar hafa menn geymt stöður sínar. Jafnvel í tuttugu ár.

Ég gleymdist þó ekki alveg. Biskup átti örugglega sinn þátt í því að ég rambaði á embætti aftur.

Það er auðvitað sjúkt að vera að skrifa um þennan tíma út frá sjálfum sér. Það má segja að þetta sé liður í eigin áfallahjálp yfir því að hafa tengst þessum tíma (og ekkert hlotið fyrir nema skít og skömm).

Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur þekki ég ekkert persónulega. En hún á virðingu mína óskipta eins og allt það fólk sem á um sárt að binda vegna Ólafs Skúlasonar og annarra kynferðiglæpamanna. Þeir eru margir. Eftir að ég skrifaði um þessi mál í sumar höfðu einar fjórar konur samband við mig og sögðu mér hryllilegar sögur úr sinni barnæsku. Ég bað þær um að tala við Stígamót. Hvatti þær til að koma fram. Bið þær um að hringja aftur ef ég get leiðbeint þeim frekar því að nöfn þeirra gleymdust mér.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.10.2011 - 11:41 - 19 ummæli

Er kristnin óþörf?

Við eigum að gera ríkisvaldið hlutlaust gagnvart trúarbrögðum án þessa ð rjúfa siðinn. Hvað á maðurinn við.

Öll samfélag þurfa festu, grunn, samhengi, stöðugleika. Okkar samhengi sækjum við til kristni.  Hátíðisdagar kristni ramma inn árið. Sigurmerki kristninnar er grunngerð fánans, þess merkis sem við höfum sameiginlega og það mótar sönginn, þjóðsönginns em er okkar sameiginlegi söngur. Við höfum hefðir sem rista djúpt og tengja saman fortíð, nútíð og framtíð.  Í bókmenntum, örðum listum og daglegu lífi eru tákn hvarvetna sprottin upp úr þessum jarðvegi.  Við eigum ekki að bylta þessu af okkur síður en svo.  Kristnin bæði uppfyllir ágætlega trúarþörf þeirra sem hana hafa og frá dögum Konstantíusaar hefur hún skipulega verið byggð upp sem hluti af samfélagsskipun og hefur reynst vel sérstaklega í seinni tíð.

Að þessu sögðu: Við eigum að gæta þess vandlega að algert trúfrelsi ríki.  Þó að siður þessa sérstaka ríkis sé kristinn þá má enginn efast um það að menn njóti jafnræðis sama hvaða trú þeir hafa eða hvort þeir hafi nokkra.  Þetta nái auðvitað til trúfélaga og nái jafnt til veraldlegra sem andlegra hluta.  Allir eiga þannig að hafa sama rétt til bygginga fyrir túfélög sín og sama rétt til fjármuna frá ríkinu sé um slíkt að ræða.  Þetta er ekki vandalaust í framkvæmd því að ríkjandi trúarbrögð hafa alltaf það forskot að fleiri vilja hygla þeim en öðrum og þau tengjast líka kúltúr, fornminjum og sögu með þeim hætti að kann að styrkja þau í nútíma praktíkst séð.

En þetta er verkefni. Í praktískum skilningi þarf ríkisvaldið að verða svo hlutlaust að jafnræði ríki og trúfrelsið það algjört að ekkert ríkisvald reyni að hindra vöxt og viðgang nokkrurrar trúar eða þá trúleysis ef út í það er farið.

Þó að við séum hætt að trúa öllu bókstaflega sem stendur í ritningunum og að flugur séu frá helvíti þá er trúarþörf mikil hjá mörgum manneskjum og mér sýnist hún fá ágæta útrás í hinu kristna drama.  Islömskum vinum mínum virðist líka vel í sinni trúarhefð og svo virðist  um flesta.  Ég er ósammála þeirri tesu Dawkins að hið hófsama trúfólk sé eldiviðurinn fyrir öfgarnar sem finna má aðallega í kristni og islam.  Það má alveg eins rökstyðja það að hið hófsaam fólk haldi öfgunum í skefjum.  Það er því ekki endilega rétt að segja að trú ali af sér öfgar ekki frekar en að trúleysi ali af sér öfgar.  Trú er þarna hvort sem okkur líkar betur eða verr og verður meðan manneskjan er eins og hún er. En um það hvort að svo sé er mönnum rétt og skylt að deila því að engin algild sannindi eru til nema þá helst í raunvísindum en þá opnast nú reyndar nýr gluggi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.9.2011 - 13:57 - 26 ummæli

Páll og athygli trúðsins

Að kalla Pál Vilhjálmsson skoffín hefur margfaldað aðsókn að síðunni minni. Þannig virkar það hjá Páli Vilhjálmssyni. Auðvitað er Páll Vilhjálmsson ekki fífl eða kjáni og því síður afkvæmi refs og hunds kattar(leiðr. BK). Hann er beðinn afsökunar á orðfærinu. En svona orðfæri notar hann á aðra til að fá athygli, uppnefnir fólk og meiðir, ætlar því alls konar vitleysu og er hreinlega ófyrirleitinn.  Því fyrr sem hann áttar sig á því að athyglin sem hann fær er athygli trúðsins því fyrr skánar orðræðan og því fyrr geta heiðarlegir nei sinnar hætt að skammast sín fyrir sinn helsta talsmann og hugmyndafræðing.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.9.2011 - 09:36 - 16 ummæli

Skoffín í Silfrinu!

Ég vil þakka Agli Helgasyni að fá hana Vandönu Shivu í Silfrið í gær.  Hún fékk vonandi marga til að staðnæmast.  Svo voru frjálsu umræðurnar skemmtilegar nema ég veit ekki hvað Páll Vilhjálmsson var að gera þarna.  Hann er náttúrulega bara Skoffín sem ryðst fram með upphrópunum og sleggjudómum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.9.2011 - 08:44 - 12 ummæli

Nátttröllið í Kristskirkjunni!

Nátttröll eins og Friðrik Schram forstöðumaður íslensku Kristskirkjunnar verða að fá að vera til en þau eiga ekki að geta flaggað neins konar opinberum stimpli eða viðurkenningu.  Og þjóðkirkjan á annað hvort að fá löggildingu á hugtakinu prestur eða taka upp annað heiti á klerkdóminum.  Klerkar íslensku þjóðkirkjunnar hafa áttað sig á því grundvallaratriði eins og meginþorri Íslendinga að fólk ber að virða og meta á þess eigin forsendum án tillits til kyns, kynhneigðar, litarháttar, uppruna, trúar eða neins konar annarskonar ómálefnalegrar ástæðu.  Við eigum ekki að líða það að nokkur hópur sé settur skör lægra en aðrir af þeim ástæðum sem nefndar hafa verið og/eða mismunað gegn honum með nokkrum hætti hvorki í verki, ræðu né riti.  Sá á að vera grundvöllur hugsana okkar og rímar vel við mannhelgishugmynd Krists sem Kristskirkjan ætti ekki að kenna sig við.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.9.2011 - 11:16 - 4 ummæli

Mér finnst og ég vona……

Nýbúinn að skoða Sagrada Familia. Vissulega sérstök og mikil en fann ekki fyrir neinni sérstakri hrifningu. Var eiginlega betri ókláruð. Uppgötvaði töffarann Rúnar Þór Pétursson í gær þegar ég hlustaði á tónleika Megasar, Rúnars Þórs og Gylfa Ægis í sjónvarpi. Þetta er rokna töffari og saman þrír einstakir. Takk fyrir.  Andorra la verra er flottasta bæjarstæði sem ég hef séð. Hugmynd mín um að byggja hótel á brún Ingólfsfjalls er smá í sniðum miðað við margt í þessu litla þorpi sem er höfuðborg einhvers mesta fjallalands veraldar. Leiðinlegt hve margir lýsendur knattspyrnuleika í sjónvarpi geta ekki leynt því að þeir voru krakkar á tíunda áratugnum og halda því með Liverpool.  Held að Guðmundur Steingrímsson eigi eftir að verða forsætis eins og faðir hans og afi. Það er glimt í honum. Vona að Ísland velji þá leið að starfa náið með öðrum þjóðum í sama heimshluta helst með fullri þáttöku í ESB. Fyrirlít stjórnmálamenn sem ala á þjóðerniskennd. Finnst Suðurlandið lífllítið og leiðinlegt.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.9.2011 - 11:08 - 16 ummæli

Nauðungarbúðir ónýts gjaldmiðils!

Andorramenn hafa áhyggjur af fólksfækkun.  Færri vilja setjast þar að en áður vegna þess að landið er utan Evrópusambandsins og efnhagssvæðis Evrópu og íbúar þar geta af þeim sökum ekki flutt óhindrað milli landa í Evrópu.  Fólk vill því frekar búa á Spáni eða í Frakklandi.  Þannig væri Ísland Guðna Ágústssonar og Jóns Bjarnasonar, utan evrópska efnahagssvæðisins.  Ungt fólk vill í auknum mæli búa þar sem það er frjálst.  Kærir sig ekki um yfirvöld sem halda þeim í fjötrum tolla, leyfa og í nauðungarbúðum ónýts gjaldmiðils.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 9.9.2011 - 11:11 - 12 ummæli

Að eiga land…?

Þú greiðir nokkrar miljónir fyrir landskika og þú og þínir niðjar eiga hann í mörg hundruð milljón ár. Ef ekki væri fyrir þjóðlendulög sem margir þingmenn börðust gegn ættu einstaklingar þannig allt landið.  Virkar ógeðfellt en er ekki svo slæmt. Þetta er betri aðferð en að úthluta landi pólitískt þá ættu vildarvinir landið.

Að eiga land er sem betur fer ekki það sama og að eiga bíl eða tösku. Þú getur t.d. ekki farið neitt með landið.  Þú þarft leyfi til að hrófla við því.  Ef þú ætlar að hrófla við árfarvegi þarftu leyfi. Ef þú ætlar að selja möl þarftu námuleyfi, ef þú ætlar að byggja hús, jafnvel bara klósett þarftu leyfi skipulagsyfirvalda og, leggja veg, sama. Allt þetta er háð ströngu eftirliti.  Ef þú ætlar að bjóða fólki að dveljast á landi þínu þá er það fólk háð sömu skilyrðum um dvalarleyfi og aðrir sem koma til landsins.  Þú getur ekki bannað fólki umgang um landið þitt, ekki bannað því að tjalda, ganga eða ríða á hestum um landið. Þú getur ekki bannað fólki að týna ber uppísig en þú getur bannað því að skjóta fugla.  Það er hins vegar gott. Ef almenningur þarf á landinu að halda má alltaf taka landið eignarnámi ef ekki nást samningar. Setja má landið undir þjóðgarð og svo framvegis og svo framvegis.

Að þessu athuguðu skil ég ekki það írafár sem er út af því hverjum eigendur Grímsstaða eru að selja jörðina sína.  Það á ekki að skipta neinu máli hver á landspildur.  Að eiga land er í raun og veru ekkert annað en að eiga að því hóflegan nýtingarrétt.  Er þetta ekki rétt hjá mér?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur