Föstudagur 1.7.2011 - 16:58 - Lokað fyrir ummæli

Tillögur stjórnlagaráðs of ítarlegar?

Það sem ég óttast við tillögur Stjórnlagaráðs er að þær verði of háleitar, ítarlegar og flóknar.  Það verði of mikið af út af fyrir sig dýrmætum útfærslum sem efasemdarmenn munu hengja hatt sinn á.  Menn verða að gæta að list hins mögulega í þessum efnum sem öðrum.  Sterk öfl  í þessu samfélagi munu berjast grimmt gegn því að nokkrum sköpuðum hlut verði breytt.  Starf stjórnlagaráðs er einn anginn af eilífri baráttu um völd og hagsmuni.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.6.2011 - 10:39 - Lokað fyrir ummæli

Berlínarmaraþon 2006

Í Berlín þegar Marþonhlaup var þar fyrir nokkrum árum.  Fjarlægur djúpur niður færðist nær, stöðugt sterkari. Datt í hug að ,,nazhyrningarnir“ væru að koma.  Óræður glampi í augunum á fólki sem þyrptist að.  Loks kom hjörðin.  Fyllti breiðgötuna, endalaus straumur sveittra léttklæddra karla og kvenna á öllum aldri. Magnað magnificient upp á að horfa, heilan hálftíma, þrjú korter hefur það staðið, tugir þúsunda renna hjá. Síðan fjarlægist niðurinn og ég stend eftir í sömu sporum í gjörbreyttri mynd. Heimurinn hafði farið hjá, tíminn liðið.  Og ég leit niður á fúla fætur mina og sparkaði í stein.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.6.2011 - 09:55 - Lokað fyrir ummæli

Mismunun í Bláa lóninu?

,,DV sendi sjö spurningar á innanríkisráðuneytið vegna málsins…Ráðuneytið vísaði á iðnaðarráðuneytið, sem vísaði hins vegar aftur á innanríkisráðuneytið“

Í nær öllum 47 ríkjum Evrópuráðsins er aðili sem almenningur getur snúið sér til telji hann sig verða fyrir mismunun vegna uppruna, litarháttar, þjóðernis, trúar etc.  Mælt er með því (ECRÍ) að umboðsmaður þessi, eins og embættið kallast alla jafna, einbeiti sér að þessu einu en einnig þekkist það að embættið sinni kvörtunum af öðrum toga. Víða hefur umboðsmaður þessi aðeins áhrifavald (eins og umbi alþingis) en sums staðar getur hann sjálfur lögsótt fólk og fyrirtæki sem grunuð eru um að beita misrétti.  Sáttaleiðin er þó algengust og farsælust.  Til embætta þessara leitar fólk sem telur sig verða fyrir mismunun á vinnustað vegna ofnagreinds eða fólk sem þarf að borga meira í sundlaugar eða lón vegna ofangreinds eða fær ekki inngöngu á skemmtistað eða klúbb eða verður fyrir meintu misrétti af hálfu stjórnvalda vegna ofangreinds o.s.frv. o.s.frv. Embætti þessi hafa yfirleitt mikið að gera.  Ýkja vandann? Nei, tilvist þeirra gerir  vandann sýnilegan. Þá kynna embætti þessi lagaákvæði og reglugerðarákvæði sem eiga að vernda fólk gegn mismunun.

ECRI (European Commission against Racism and Intolerance) sem vinnur á grundvelli Mannréttindasáttmála Evrópu hefur ráðlagt íslenskum stjórnvöldum að koma á þessum farvegi og mun halda því áfram af vaxandi ákveðni. Mér sýnist að með tilliti til fámennis okkar geti svona farvegur þróast í skipulagstengslum við umboðsmanns kynjajafnréttis. Það verður þó að vera sér stakkur í því embætti þar sem vinna manneskjur sem hafa sérstaka þekkingu á viðfangsefninu og ástríðu fyrir því.

Dæmi um mismunun vegna þjóðernis í Bláa lóninu og víðar hafa sannfært undirritaðan um nauðsyn þessa embættis hér.  Í tilvitnun upphafs pistilsins má sjá að stjórnsýslan veit ekki sitt rjúkandi ráð.

 Athugasemdir má gera á Facebook

Áframsendist á ráðherra og alþingismenn og stjórnlagaráðsmenn

Undirritaður hefur unnið við gerð leiðbeininga á þessu sviði á vegum Evrópuráðsins

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.6.2011 - 09:58 - Lokað fyrir ummæli

Ásakanir Guðjóns um rasisma!

„Ég veit ekki hvort dómurunum líkar ekki litarhátturinn á senternum mínum. Það er allavega geysilega mikið veiðileyfi sem fæst á þann mann. Hann er búinn að fá fjögur spjöld og það er búið að sparka hann niður síðan við byrjuðum mótið og það ætlar engan endi að taka.“

 Þessi ummæli Guðjóns Þórðarsonar ber að taka alvarlega.  Eru kynþáttafordómar í íslenskum fótbolta og þar með í íslenska samfélagi?  Málið er að vitaskuld eru þeir til staðar meðvitaðir eða ómeðvitaðir.  Þeir  leynast í rótinni, skjóta upp kollinum og heilbrigt samfélag þarf að vera á verði gagnvart þeim. Þess vegna á KSÍ að taka ummæli Guðjóns Þórðarsonar alvarlega.  Fá valinkunna spekinga helst erlendis frá til þess að meta það í leikjum sem þegar hafa verið leiknir, út frá myndböndum, hvort svartir fái aðra meðhöndlun hjá dómurum en hvítir eða þá erlendir menn aðra en innlendir menn.  Þetta er upplagt spekulasjónsdæmi sem gæti leitt okkur til aukinnar þekkingar á okkur sjálfum.

„Þessi ummæli dæma sig sjálf. Gunnar er drengur góður og þetta myndi aldrei koma til,“ segir Magnús Már Jónsson, dómarastjóri KSÍ.

 Þessi viðbrögð Magnúsar Más byggja á fljóthugsun.  Þetta hefur sennilega ekkert að gera með það hvort að Gunnar sé drengur góður.  Ef um er að ræða ójafna meðferð þarna er hún sennilega ómeðvituð.

„Þetta eru allt vandaðir menn,“ segir Magnús Már ennfremur.

Mikið eru menn ánægðir með sig í fótboltanum.

,,Það er almennt viðurkennt meðal siðaðra manna í íþróttum að kynþáttafordómar eru síðasta sort. Og að saka menn um slíkt því grafalvarlegt mál”  segir Röggi hér á Eyjunni.  Vissulega  rétt hjá Rögga en réttu viðbrögðin eru að skoða það vel hvort að fótur reynist fyrir ásökunum. Jafnvel þótt ásakandi sé  þekktur stórorðasmiður.

Við eigum ekki að henda þessu orði á milli okkar eins og ekkert sé.

 Tilvitnanir teknar af fótbolti.net og eyjunni.

Athugasemdir má gera á facebook

Áframsendist á KSÍ.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.6.2011 - 20:55 - Lokað fyrir ummæli

Hver hefur sinn djöful að draga!

 Ekki líkur vanda kirkjunnar við þetta Kirkjuþing.  Kerfið er ekki nógu gott. Í upphafi flytur forseti þingsins, mætur maður og viðurkenndur lögspekingur, vel undirbúna ræðu þar sem hann leggur upp niðurstöðuna.  Síðan tekur sjálfur biskupinn við og lýsir góðum vilja sínum. Hierarkíið á fremsta bekk.  Allt öndvegisfólk.  Hver getur fengið að sér að spilla svona veislu, eyðileggja stemninguna.

En ég ætla ekki að fjalla um það –sjálfsagt hefði varðsstaðan um valdið orðið enn þá meiri ef ég hefði verið þarna.  Ég ætlaði að bera aðeins í bætifláka fyrir sjálfan mig í skýrslunni góðu:

 Rannsóknarnefndin tók það sem maður sagði upp á teip og maður átti ekki leiðréttingu orða sinna (ég fékk að vísu senda nokkrar blaðsíður en bara til að svara
tveimur spurningum og gerði ekki tilraun að leiðrétta orðalag og fékk auk þess ekki sent allt sem haft var eftir mér).  Ég sem mætti ekki með skjalamöppur og skiplega ræðu á fund nefndarinnar heldur bara prúðbúinn með mitt minni valdi ekki alltaf rétt
orð í stressinu sem fylgir mér eins og skugginn:

Ég segi á einum stað að Ólafur biskup  hafi ,,flúið“ land.  Það er ómaklega orðað en hann fór úr landi um tíma.  Ég er of gáleysislegur í garð prófastanna og sé eftir því. Þeir auðvitað voru í skelfilegri klípu en prófastarnir eru skv. skilgreiningu augu og eyru biskups og áttu örugglega eins og vel uppaldir prófastar erfitt með að bregða brigður á orð biskups.  Þá segi ég að Kirkjuráðmennirnir  Hreinn Hjartarsson, Helgi K. Hjálmsson og Gunnlaugur Finnsson hefðu stutt biskup á kirkjuráðsfundi  ,, af hjartans einlægni.“  Rannsóknarnefndin bað mig um  að reyna að muna þennan fund og mundi ég hann þannig, með þrjá spennta rannsóknarmenn fyrir framan mig, að þeir þrír hefðu (að því er mér virtist) trúað Ólafi  (af hjartans einlægni)fremur en Karl biskup sem átti ,,meira bágt.“ Eins og ég orða það svo fræðilega. 

 Með orðalaginu “ hjartans einlægni“ meina ég ekki nokkuð illt í garð þessara manna en bið forláts á þessu orðalagi sem í augum sumra kann að anga af kaldhæðni.  Það
var eki meiningin.  Allt voru og eru þetta góðir og gáfaðir menn og þrautreyndir félagsmálamenn. Ég útskýri svo í framhaldinu hvers vegna var erfitt fyrir þá að trúa ekki Ólafi. Mér hefur verið tjáð af afkomenda eins þeirra að ekki hafi nú allt verið sem mér sýndist í þessum efnum.

 Á einum stað tala ég um lögfræðingana Ragnar Aðalsteinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson. Ég hef ætlað að segja og Tryggva Gunnarsson.  Jón Steinar var mér að vísu ofarlega í huga vegna þess að hann hafði skrifað greinar í svipuðum dúr í
Morgunblaðið.

Þá bið ég í fylgiskjali Geir Waage forláts að hafa lagt honum orð í munn í frægum gangaslag þeirra Ólafs.  Eins og ég sagði í yfirheyrslum þá var þetta svona samkvæmt
mínu minni en ég tek fram í nefndu fylgiskjali að ég efist ekki um að versjón Geirs sé réttari en mín enda beinn þátttakandi.

 Að lokum vil ég taka það fram að ég ber ekki kala til nokkurs manns hvorki innan kirkju né utan nema þá helst þá til sjálfs míns en það er djöfull sem ég verð að draga
vonandi lengi enn.

 Að lokum.  Það var hnýtt svolítið í mig í kaffinu í dag í Grensáskirkju (ég frétti allt)
fyrir að vera í gaspa þetta í gær en hið óformlega plan var að menn biðu eftir viðbrögðum Biskups og Kirkjuþings.  Ég ætlaði bara í gærmorgun að gefa út smá yfirlýsingu um fjarveru mína á Kirkjuþingi og bjóst svo sem ekkert við því að á hana yrði minnst neins staðar.  Áður en ég vissi af var íslenska heimspressan kominn inn á
gafl hjá mér. Það var greinileg eftirspurn eftir fréttum.  Eftir að hafa hugsað málið ákvað ég að veita viðtöl. Komst að þeirri niðurstöðu að hönnuð málmeðferð á hálfu kirkjunnar minnti allt of mikið á það hvernig menn höguðu sér 1996.

 Höfum við ekkert lært eða hvað?

Ég við taka það fram að í sjónvarpsviðtalinu talaði ég fallega um Pétur Kr. Hafstein en það var klippt burt án þess thó ad texti minn væri nokkuð affluttur.  Þetta var út af fyrir sig ágætlega unnin frétt.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.6.2011 - 10:22 - Lokað fyrir ummæli

Yfirlýsing frá Baldri Kristjánssyni.

 ,,Rannsóknarnefnd sú sem Kirkjuþing stofnaði til til þess að rannsaka viðbrögð kirkjunnar við ásökunum á hendur Ólafi Skúlasyni  gerir sérstakar athugasemd við það að ég skuli hafa tekið ákvörðun um að sitja fundi stjórnar Prestafélags Íslands  í febrúar og mars 1996 þegar málefni sem snertu kynferðisafbrot þáverandi  biskups  voru til umfjöllunar.  Málið var þá til umfjöllunar hjá Siðanefnd Prestafélagsins.  Hún gerir einnig athugasemdir við það að aðrir stjórnarmeðlimir hafi ekki kosið mig út.

 Þetta er alveg hárrétt athugasemd.  Ég átti auðvitað að segja mig frá þessu strax.  Það var auðvitað ekki hægt að búast við því að ég væri hæfur til að fjalla um þessi mál þar sem það snerti svo mjög minn yfirmann.

 Þegar ég lít til baka yfir þetta tímabil sé ég eftir að hafa verið þarna og iðrast þess að hafa ekki einfaldlega sagt mig úr stjórn Prestafélagsins.  Þar var ég, í febrúar og mars 1996, einfaldlega of nálægur málinu og of háður biskupi og lögfræðingum hans. 

 Ég hef sagt mig frá Kirkjuþinginu á morgun, þriðjudag.  Ég tel að viðbrögð þess  verði trúverðugri því færri sem þar eru sem komu við sögu.  Frekari viðbrögð af minni hálfu birtast síðar en óneitanlega hef ég hugleitt ýmislegt. Ég fékk ofanígjöf frá nefndinni. Undan því verður ekki vikist.

Og þær Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, Dagbjört Guðmundsdóttir og Stefanía Þorgrímsdóttir eiga alla mína samúð og stuðning og virðingu.  Ég hef áður beðið Sigrúnu og Dagbjörtu fyrirgefningar persónulega fyrir mína hönd og kirkjunnar og ítreka það hér og bið Stefáníu að sjálfsögðu fyrirgefningar líka.“

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.6.2011 - 12:12 - Lokað fyrir ummæli

Á Hvítasunnu….!

Það þýðir lítið að tala um Hvítasunnudag og ræða bara um lærsveinana sem gripnir voru af heilögum anda og fóru að tala tungum – eða föðurinn á himnum sem mun tryggja það að við munum lifa og sendi heilagan anda sinn til okkar.  Það þýðir ekkert að víkja sér undan því að íslenska kirkjan á bágt.  Þetta fyrirkomulagt þ.e. net kirkna um allt land þar sem presturinn er í flestum tilfellum tiltölulega normal persóna sem gegnir oftast ágætu hlutverki í samfélagi sínu í kirkju sem er trúarlega mjög breið og opin er út af fyrir sig ágætt.  Kirkjan hefur að vísu verið einkavædd mikið á undanförnum áratugum en það má spyrja að því hvort að það hafi nokkuð verið jákvætt. Hefði ekki verið betra að hafa hana meira undir verndarvæng ríkisins.  Fer ekki fyrir henni eins og bönkunum eftir einkavæðingu að hún missir fótana.  Að vísu var samkrullið ekki alltaf upp á það besta frekar en annað í íslensku samfélagi.  Það verður að segjast eins og er og var ekki tekið á því í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem nú liggur fyrir en verður sjálfsagt  farið fram á það.

Að mörgu leyti er Strandarkirkja táknræn fyrir allar kirkjur.  Hún sprettur upp af trú.  Hún verður til í örvæntingarfullri leit mannsins að æðri máttarvöldum.  Leit sem fylgir hverjum manni, hverjum tíma. Leit sem aldrei lýkur.  Og Strandarkirkja er eins og kirkjan stóra.  Hún er á köflum feyskin og fúin.  Hún er á tímum við það að láta undan fyrir sandroki og særoki.  Prestarnir og biskuparnir vilja gjarnan flytja hana á þægilegri og öruggari stað, heim til sín.  En það vill ekki fólkið, það vill hana sína kirkju þó vanrækt sé og að falli komin en alltaf koma nýjar og nýjar kynslóðir og bjarga kirkjunni sinni.  Laga hana á sama grunninum eða byggja hana upp á sama grunninum.  Prestar, prófastar og biskupar koma og fara en alltaf stendur kirkjan studd af nýjum og nýjum kynslóðum sem aftur vanrækja kirkjuna, finnst fátt um hana, hata hana jafnvel, flykkjast í vantrú, mæta samt í hana af og til en svo koma kynslóðir sem hressa upp á kirkjuna sína, sýna henni virðingu, byggja hana upp á nýtt.  Og Jesú kallinn stendur þetta allt af sér.  Hangir á krossinum á á misjafnlega burðugum ölturum.  Hann er fyrir löngu kominn út og yfir tímann og eins og hann sjálfur hangir hanga  orð hans yfir mönnunum.

Þannig er með kirkju landsins.  Hún hefuer eins og Strandarkirkja fylgt okkur í 1000 ár.  Stundum við hraklegar aðstæður – stundum hefur lýðurinn verið drykkfelldur og syndugur, kirkjustaðir  undist upp í fátækt og hirðuleysi en á öðrum tímum hefur fólk flykkst að kirkjunni, þar hefur orðið geymst, hægt að ganga að því, misjafnir og jafnvel ömurlegir prestar hafa engu breytt- enginn kemst að upp með það að afflytja orðið eða skemma boðskapinn til lengdar.  Hann er þarna í hinni skældu bók sem liggur á sjúskuðu altari í kirkju sem að falli kominn eða fallegu kirkjunni á góðæristímum sem er á leið til þess að verða ekki sinnt.

Og stundum er eins og moldin ein geti jafnað deilur, átök og meiningar, stundum þarf kynslóðir til þess að menn jafni sig.  Og það er nú það fallega í þessu öllu saman. Við erum öll forgengileg en kirkjusamfélög og öll samfélög lifa og endurnýjast.  Slík er nú fegurð sköpunarinnar.  Hugsið ykkur ef við værum öll ódauðleg.  Hversu risavöxnum hæðum Sturlungaöld hefði náð.  Vegna þessa mun kirkjan okkar ná sér að fullu og það getur við þakkað moldinni sem jafnar allt, breiðir yfir allt eins og kærleikurinn er sagður gera en má ekki gera.

(drög að prédikun í Strandarkirkju. Aths. er hægt að gera á facebook)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.6.2011 - 08:56 - Lokað fyrir ummæli

Hugur Guðna er ESB hugur!

Harðna nú dagarnir hjá hinum mikla jöfri Guðna Ágústssyni.  Hallur Magnússon hefur sýnt fram á að Guðni er á móti ESB vegna misskilnings. Í DV í dag gagnrýnir Guðni þann íslenska nývakta bændasið að láta ekki kýrnar út sér til hagræðis heldur halda blessuðum skepnunum innan dyra allt sitt líf.  Guðna er mikið niðri fyrir í gagnrýni sinni og skal tekið undir þá gagnrýni.

En Guðni kynni að eiga sér óvæntan bandamann.  Ég sé ekki betur en samkvæmt Council Directive 98/58/EC yrði skylda að setja blessaðar kýrnar út að sumarlagi. Þar er tryggður réttur blessaðrar skepnunnar til þess að fá að njóta eðlilegrar kringumstæðna til að fá útrás fyrir eðlilega hegðun sína.  Að auki eru margskonar verndarákvæði þannig að vei þeim bónda sem fer illa með skepnur sínar.  Meir og meir upplýkst það að hugur Guðna er ESB hugur.  Fyrr en varir gengur hann í lið með Halli, mér og blessuðum skepnunum í baráttunni fyrir ESB aðild.

Nema þá að landbúnaðarmafíunni svokölluðu takist að fá undanþágur frá þessum ákvæðum.

Athugasemdir má gera á facebook.com

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.6.2011 - 08:57 - Lokað fyrir ummæli

Góð ríkisstjórn á réttri leið!

Ég settist niður fyrir framan sjónvarpið í gær tilbúinn til að gerast stjórnarandstæðingur enda hef ég fengið Moggann í tilraunaáskrift þennan mánuðinn og hélt satt að segja að hér væri allt í kaldakoli.  Allt á leið til andskotans og skrýmslið ESB væri auk þess við landsteina tilbúið að gleypa landið með húð og hári til þess að geta hafið siglingar á Norðurpólinn.  En ég verð að segja alveg eins og er að ef marka má ræður gærkvöldsins þá er þetta farsæl ríkisstjórn.  Allaveganna báru ræður stjórnarsinna af ræðum stjórnarandstæðinga sem voru líka ókurteisir í garð Jóhönnu og stjórnarinnar.  það rifjaðist upp fyrir mér í gær að hér varð nánast þjóðargjaldþrot.  Að þessi stjórn tók við í neyðarástandi sem hafði skapast og heitir Hrun og nú eftir aðeins tvö/þrjú ár  er staða okkar svipuð og annarra Evrópuþjóða.  Steingrímur og Jóhanna og co. eru samkvæmt ræðum gærkvöldsins með þjóðina í mjög góðum málum og þó að Hreyfingin vilji  hafa endurreist heimilin en ekki bankana þá blasir það nú við öllu hugsandi fólki að endurreisn bankanna var forsenda þess að endurreisn væri yfirhöfuð möguleg.   En sem sagt:  Ríkisstjórnin hefur fullt umboð mitt áfram.

Ps. Athugasemdir er hægt að gera á facebook.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.6.2011 - 08:58 - Lokað fyrir ummæli

Össur leiðbeinir Framsóknarmönnum!

Of snemmt er að tilnefna merkustu stjórnmálamenn í upphafi 21. aldar þó að vissulega verði nöfn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar framarlega. En liprasti stjórnmálamaðurinn nú um stundir er án efa Össur Skarphéðinsson.  Það er eins með hann og Jón Baldvin, talaður niður af andstæðingunum og saklausir Framsóknarmenn fjarri höfuðstöðvunum hafa það fyrir satt að þetta séu hræðilegar skepnur sem vilji selja landið og rústa landbúnaðinum. Össur ber hins vegar af flestum þingmönnum sakir mælsku og skemmtilegheita og vits og nú er hann orðinn leibeinandi Framsóknarmanna – farinn að kenna þeim hvað þeir hafa samþykkt á flokksþingum sínum.  Hann getur nú ekki farið alveg í fótspor Jónasar frá Hriflu og stofnað bæði Alþýðuflokk/Samfylkingu og Framsóknarflokk en hann er á góðri leið með að verða helsti leiðbeinandi beggja.  En hann á eftir stærsta afrek sitt. Að sigla hinu íslenska lasakaða fleyi inn í ESB til hagsbóta fyrir allan almenning og til að tryggja fullveldi þjóðarinnar. Takist honum það verður hann án efa merkasti stjórnmálamaðurinn á fyrri hluta 21. aldar.

Ps. Athugasemdir  á facebook.com

Tilefni: Án tilefnis

Flokkar: Óflokkað

Höfundur