Þriðjudagur 7.6.2011 - 09:16 - Lokað fyrir ummæli

Höfuðglæpur Geirs!

Það verður sennilega ekki aftur snúið með málshöfðunina á hendur Geir Haarde eins og hún er nú ankanaleg.  Úr því sem komið er verðum við að líta á hann sem fulltrúa þeirra stjórnarhátta sem þróuðust á íslandi frá lýðveldisstofnun og fram  að Hruni og þá sérstaklega eftir 1990 þegar einn flokkur var við völd að segja má.  Auðvitað væri mótandi tímabilsins verðugri fulltrúi þess.  Höfuðglæpur Geirs var að skera hann ekki aftanúr skútunni.  En það var kannski ekki hægt. 

Ath.semdir óskast settar fram á facebook.com

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.6.2011 - 09:10 - Lokað fyrir ummæli

Jón Baldvin merkasti stjórnmálamaðurinn!

Jón Baldvin Hannibalsson er án efa merkasti íslenski stjórnmálamaðurinn á ofanverðri 20. öld. Honum getum við þakkað EES aðildina og hann á  heiðurinn af því að Íslendingar tóku frumkvæðið í því að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna.  Jón Baldvin var og er óhefðbundinn stjórnmálamaður, gáfaður, skemmtilegur, víðförull, vel lesinn og ekki í kjaftinum á neinum hagsmunasamtökum. Maður alþýðu enda fæddur í Alþýðuhúsinu á Ísafirði.

ps. Birtist líka á facebook. Athugasemdir óskast gerðar þar.

Tilefni:  Prýðlileg grein Jóns um Íslendinga sem hafa ekkert lært.  Birtist á eyjunni (lúgan).

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.6.2011 - 09:26 - Lokað fyrir ummæli

Að komast lifandi út!

Varðandi leiðir til að sækja fiskinn.  Um slíkar leiðir deila menn af miklum krafti. Það er einkum tvennt sem kristin kirkja á sjálfsagðan rétt til að benda á. Hið fyrra er að sótt sé eftir réttlæti. Hvaða aðferð sem verður ofaná sé tryggt að hún sé réttlát.  Réttlæti er eitt af grundvallarstefjum kristinnar trúar og það hugtak sem fer fremst þegar tekist er á um efnisleg verðmæti. Síðara atriðið er sú ábending að hvorki útgerðarmenn eða þjóðir eiga fiskinn í sjónum. Guð almáttugur er sá eini sem getur talist eiga fiskinn í sjónum alveg eins og hann á fugla loftsins, ormana í moldinni og okkur sjálf.  Í Guðshugtakinu þarna felst að engin manneskja eða hópur er eigandi lifandi vera –öll erum við gestir jafn forgengileg og fiskurinn og yfir öllu ríkir eilífðin.  Auðvitað má svo einn prestur eins og aðrir útleggja þetta nánar en þar sem ég ætla
að komast lifandi út úr kirkjunni hér í dag læt ég það öðrum eftir.  Það er ekki þar með sagt að ég álíti það ekki gerlegt eftir þartilgerðum guðfræðilegum leiðum.  Sem betur fer tekur þjóðin öll þátt í mótun hugmyndanna.

P.s. Athugasemdir óskast gerdar á facebook.com. Birt thar einnig. Kv.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 4.6.2011 - 11:26 - 4 ummæli

Bændur en ekki fiskimenn- hitað upp fyrir sjómannadag!

Það er í raun og veru merkilegt að velta því fyrir sér að Íslendingar urðu bændur og búendakarlar en ekki farmenn og fiskimenn.  Landið byggðist vegna landþrengsla í Noregi Í Noregi var fjöldinn allur af smákonungum sem börðust á banaspjótum.  Menn fóru milli fjarða yfir heiðar eða á skipum til að drepa hvorn annann og það sem gerist að lokum er að einn konungur reynir að sameina byggðina Haraldur hárfagri hét hann og þá hrukku þeir sem verst létu undan og til Íslands þar sem þeir héldu uppteknum hætti næstu þrjú hundruð árum.  Óeiningin, sundrungin setti þá undir Noregskonung og það er ekki fyrr en um miðja 20. öld að þeir verða frjálsbornir menn aftur og upphefja sama leik sem ekki  er séð fyrir endann á.

Þó hingað væri ekki hægt að komast nema á bátum urðu Íslendingar ekki farmenn eða fiskimenn hvað þá landkönnuðir heldur bændur.  Settu sig niður í skjóli fjalla með sauðfé og fáeinar kýr og hokruðu þar mann fram af manni í 1000 ár.  Varla gat heitið að hér mynduðust útróðrapláss.  Það voru bændur sem fóru á vertíð hluta úr ári þegar frammí sótti og þá á litlum opnum bátum iðulega í hafnleysi og fórust stundum tugum saman við landtöku.  Sjálfir áttu landsmenn ekki skip til að flytja vörur til landsins og fyrir utan nokkra íslenska Norðmenn sem höfðu viðkomu á Íslandi og héldu áfram til Ameríku, ég er að tala um Eirík rauða og Leif heppna og aðra slíka, urðu Íslendingar ekki landkönnuðir.  Eyjan Ísland varð ekki höfn eða stökkpallur heldur dýflissa í hverri menn sátu fastir í fátækt og reiðileysi með undantekningum þó en afskaplega fáum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.6.2011 - 09:22 - 7 ummæli

Reynslulausir, illa lesnir reykingamenn!

Neikvæð viðbrögð við tóbaksvarnartillögu Sivjar Friðleifsdóttur bera það með sér að elítan er orðin stirð að hugsa eftir þriggja ára endalausa hrunumræðu. Tillaga Sivjar er í samræmi við alþjóðlega þróun. Það er verið að ýta tóbaki út úr menningunni.   Ef Guð lofar mun tóbak syngja sitt síðasta með Bjarna Harðarsyni og kynslóð hans en gáfaði bóksalinn á Selfossi  hefur verið manna iðnastur við að hjúpa  þjóðlegri rómantískri hulu yfir eitrið sem drepur Íslendinga í stórum stíl bæði þá sem reykja og þá sem ekki reykja.  Þessir rómantísku galgopar eru flestir í yngri kantinum, hafa fæstir komið á líknardeildir þar sem fórnarlömbin eiga sína síðustu mánuði, hafa alist upp á saklausum  tímum og aldrei þurft að hnykla frelsisvöðvana til annars en að viðhalda aðgangi að tóbaki og að mótmæla því að skattskráin liggi frammi.  Sem sagt reynslulausir, illa lesnir reykingarmenn.   Átta sig ekki að frelsi til að reykja er ekki til staðar þar sem það bitnar með lífshættulegum hætti á þeim sem ekki reykja.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.6.2011 - 10:44 - 1 ummæli

Blessaðir útlendingarnir!

Þessi fallegi dagur syngur Bubbi Morthens og gæti alveg átt við þennan dag sem er hlýr og kyrrlátur, bjartur, léttur skýjahjúpur yfir, grösin græn, fólkið í fallegum fötum, vel búið, tignarlegt, börnin hlaupandi um glöð og áhyggjulaus.  Skepnunum líður vel á þessum árstíma, kýrnar nýkomnar út þó lítið sé eftir af þeim hér um slóðir (Hveragerði, Ölfus), lömbin leika sér, nýfædd að venju, hestar  þessar goðsagnakenndu verur, í tugatali við hvert byggt ból – það ætla sér margir í útreiðar í sumar. Og meira að segja nágrannar okkar austur í Skaftafellssýslum una glaðir við sitt. Fengu hastarlega sýnikennslu í því hvernig fólki fyrri tíða leið til að mynda í móðurharðindunum þegar hvorki var hægt að horfa né anda.  Þá veslaðist upp fólk og skepnur úr vatnskorti og næringaskorti nú komu björgunarsveitarmenn með vatn í flöskum þar sem vatnsból höfðu mengast.  Sem betur fer stóð þetta stutt nú og vitrir menn eins og Vilhjálmur  á Hnausum, sem man Kötlugosið 1918, sáu ljósið í myrkrinu og bentu á að það góða við öskuna væri að hún dræpi grasmaðkinn.  Það er einmitt aðall hins kristna manns að sjá ljósið í myrkrinu og þarf ekki að kenna slíkum mönnum neitt en af þeim á að læra.

Ekki veit ég  hvaða húmoristi það var sem tileinkaði Uppstigningadag eldri borgurum eða öldruðum.  Það mun þó sennilega hafa verið hinn góðhjartaði biskup Pétur Sigurgeirsson, blessuð sé minning hans.  Á þessum degi fyrir all nokkru síðan skildist Jesú buru frá lærisveinum sínum og var upp numinn til himins ef marka má ritningarnar.  Sjálfsagt hefur hugmyndin með því að tileinka daginn öldruðum verið sú að styttra væri í það að þeir eldri stigu upp (eða dyttu niður eftir atvikum) en þeir yngri.  Það má nú kannski til sanns vegar færa en spurning hvort það sé ekki óþarfi að minna okkur á það.  Svo  er það nú líka, segja sérfræðingar, að þeir sem á annað borð eru lifandi og gamlir geta búist við því að lifa von úr viti.  Fólk stígur því miður upp til himna á öllum aldri og undanfarið höfum við upplifað í gegnum Kastljós fjölmiðlanna hvernig ungt fólk hefur dáið Drottni sínum eftir að hafa ánetjast eitulyfjum.  Það er þyngra en tárum taki hvað okkur hefur mistekist að halda eitulyfjavoðanum burtu frá okkur.  Í mjög mörgum okkar býr dópisti eða fíkill og þess vegna þurfum við sem börn og unglingar styrka leiðandi hönd foreldra.  Þetta var auðeldara á sveitabæjum hér áður fyrri- þó að margt ætti sér örugglega stað þar sem ekki þoldi dagsljós- en erfiðara þegar í þéttbýlið er komið og á því svelli sem þar er hefur mörgum orðið hált og það á ekki bara við núverandi  ungdóm.  Í Reykjavík millistríðsára og eftirstríðsára var gífurlegt fyllerí og margur góður maðurinn fór í ræsið.  Ég veit ekki hvort við erum eitthvað meiri fíklar íslendingar en aðrir en ekki erum við betri.

En eldri borgarar eru nú yfirleitt góðir og gegnir borgarar enda væru þeir ekki svona gamlir annars.  Við tökum að vísu ókjörin öll af pillum en það er nú bara til að styrkja hjartað og, liðamót og vöðva og við höfum ekkert minna tilefni en aðrir til að líta björtum augum fram á veginn.  Það eina sem við þurfum að óttast og kannski einkum fyrir hönd næstu kynslóðar eldri borgara, að það verði ekki nógu margir til að vinna fyrir okkur en vonandi koma blessaðir útlendingarnir til hjálpar. Það er nefnilega svo að viðkoman meðal vesturlandabúa er ekki nægileg og samfélögin þola ekki mikla fækkun m.a. vegna fjölda eldri borgara en þá kemur blessað fólkið sem iðulega er að flýja ömurlegar aðstæður í heimalandi sínu til skjalanna –  kemur og vinnur fyrir okkur oft á tíðum verst launuðu störfin og heldur samfélögunum þannig  gangandi.  Þetta skyldu þeir hafa í huga sem líta þessa þróun hornauga að hún er jafnnauðsynleg fyrir samfélögin okkar eins og hún er fyrir þá sem vilja skipta um heimkynni og þurfa þess.

Það hefur örugglega verið fallegur dagur í Betaníu þegar þeir horfðu á eftir Jesú upp til himins samkvæmt ritningunum.  Ef marka má ritningarnar hafði hann snert við þeim, kennt þeim margt. Fengið þá til að hugsa betur en áður.  Einhverjir urðu sjálfsagt betri menn fyrir vikið og á öllum tímum síðan og það á sjálfsagt við um okkur. Sögur hans margar hafa fylgt okkur alla ævi og þær og bænaversin fylgja okkur sjálfsagt alla leið, stundum er það bænamuldrið sem síðast heyrist í fólki sem komið er út úr heiminum að sagt er.  Allt er þetta gott og blessað og á örugglega mikinn þátt í því hvað samfélög okkar eru góð og manneskjuleg þrátt fyrir allt. En hvort að heimurinn hefur batnað mikið eða breyst í grundvallaratriðum það er önnur saga.  Hagsmunir varðir með átökum ráða mestu sem fyrr.  En eftir stendur þrátt fyrir allt sú fullvissa kristinna manna að Jesú Kristur dó og varð upprisinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.  Sumir lesa út úr þessu framhaldslíf þ.e. einhvers konar nýtt líf eftir dauðann og hafa fyrir því ýmis konar vitninsburði.  Aðrir eru Stóískari svo vísað sé í grískan speking sem hélt fram róseminni og vita sem er að okkur er ekki gefið að skilja né vita allt.  Við erum yndislegar verur, skemmtilegar og flottar og kunnum að baka góðar kökur eins og við munum komast að í kirkjukaffinu en hin hinstu rök verða okkur alltaf hulin.  Menn á öllum tímum hafa gert sér grein fyrir þessu og þess vegna tefldu þeir fram Guðum sem  varð með tímanum einn í okkar tilfelli. Guð almáttugur.

(Að stofni til prédikun í Hvergagerðiskirkju í messu tileinkaðri eldri borgurum á Uppstigningadag 2011)

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.5.2011 - 11:53 - 16 ummæli

Tóbak drepur!

Gallinn við tóbaksumræðuna er að fíklarnir hlauppa til og afsaka fíknina.  Grípa til frelsisraka.  Þykjast hafa lesið Adam Smith. Vitna í Georg Orwell. Þeim sést yfir að tóbak drepur einnig þá sem ekki reykja.  Skemmir lungu þeirra og æðakerfi. Flýtir dauðdaga.  Þess vegna á að banna reykingar þess vegna í heiminum öllum.  Lágmark er að selja það ekki í matvöruverslunum   nema þá í sömu hilli og ræstiduft og annar lífshættulegur óþveri. Fær nokkur að standa á svölum fjölbýlishúsa og sprauta æstidufti í kringum sig.  Eða standa fyrir framan fyrirtæki sitt og sprauta skordýraeitri á vegfarendur. Nei, tóbak er eitur og drepur ekki bara fíkilinn, einnig aðra.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.5.2011 - 11:03 - 6 ummæli

Að reisa Ísland úr rústum!

Í raun og veru eru ekki til nema tvær stjórnmálastefnur jafnaðarstefna sem byggir á að forsenda góðs samfélag og góðs mannlífs byggi á jöfnuði meðal fólks. Þess vegna beri að halda jöfnuði fram fyrst.  Síðan er frjálshyggjustefna sem byggir á því að ójöfnuður leiði af sér bestu útkomuna fyrir alla þegar upp er staðið.  Þess vegna komi frelsið fyrst.  Samfylkingin annars vegar og Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar standa fyrir þessar tvær grundvallarstefnur.  Eðlilega eru málsvarar jafnaðarstefnu  við völd þegar við byggjum upp nýtt Ísland eftir að Ísland hrundi með hina síðarnefndu við stýrið.  Jafnaðarmönnum virðist vera að takast hið sögulega ætlunarverk sitt að reisa Ísland úr rústum.  Spyrja skal þó að leikslokum.

Ekki verður séð að Vinstri grænir eða Framsóknarmenn hafi annað hlutverk en að styðja við helstu merkisbera grunnstefjanna.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.5.2011 - 10:10 - 6 ummæli

Thai-Íslendingar!

Innflytjendur eru ekki einsleitur hópur.  Sumir eru frá Thaílandi, aðrir frá Póllandi, enn aðrir frá Danmörku og svo framvegis og svo framvegis.  Sérhver hópur ber með sér sérstaka menningu sem mikilvægt er að einstaklingar innan hans  fái að rækta og viðhalda jafnframt því að tileinka sér hina nýju menningu.  Sá sem flytur til nýrra heimkynna og hans afkomendur í marga ættliði verða börn tveggja landa/þjóða/menningar.  Ég tek eftir því að afskaplega margir fara reglulega með mökum sínum og börnum til gamla landsins og halda við það góðum tengslum.  Nútíma samgöngur gera slík samskipti mjög auðveld. Og fólk heldur um marga ættliði áfram að vera Thailendingar en verður með hverju augnabliki meiri og meir Íslendingar.  Þetta á ekki að vera af eða á.  Við tölum um nýbúa, innflytjendur, nýkomna.  Við ættum að draga úr slíkum samsteypuorðum og fara að tala um Thai-Íslendinga, Pólska Íslendinga, Kínverska Íslendinga og svo framvegis. Það væri í samræmi við það að Bandaríkjamenn tala um Afríkanska Ameríkana og vitna þá til þeirra sem eiga rætur sínar í Afríku. Og í framtíðinni verður væntanlega til mikið af Norskum Íslendingum eða íslenskum Norðmönnum hvernig sem við viljum hafa það.

Á næstunni mun ég skrifa um þau mörk sem þarf að setja.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.5.2011 - 11:45 - 6 ummæli

Hvað er í gangi hjá Fram fótboltafélagi?

Allt frá því að pabbi minn sagði mér að halda með Val þegar ég var fimm ára á Melavellinum hef ég haft taugar til Fram. Ég var reyndar í Val lengi vel vegna  búsetu en skipti formlega yfir uppúr  þrítugu og lagði Fram m.a. til ágætis leikmann upp í gegnum alla yngri flokkana.  Fram er hvorki pempíulegt KFUM lið eða auðvaldslið úr Vesturbænum heldur lið harðgerra stáka sem ólust upp á hörðum malarvellinum undir Sjómannaskólanum og lærðu m.a. fyrir tilstilli Ásgeirs heitins Elíassonar að spila skemmtilegan samspilsfótbolta og áttu í áraraðir brillíant lið og brillíant yngri flokka.  En hvað er nú að ske?  Með einni eða tveimur undantekningum höfum við legið við botninn á Úrvalsdeildinni síðastliðin tíu ár. Þegar best hefur gengið höfum við átt miðlungsúrvalsdeildarlið sem spilar engan sérstakan bolta og virðist ekki byggja á neinum sérstökum kjarna? Af hverju erum við ekki meðal þeirra allra bestu?  Af hverju er Framliðið ekki uppfullt af hæfileikaríkum strákum uppöldum í Safamýrinni sem láta boltann renna á milli sín í grasinu þangað til léttleikandi framherjinn sendir hann framhjá markverði andstæðinganna í netið og maður stekkur upp úr sæti sínum af einskærum fögnuði?  Okkar besti maður kemur úr Þorlákshöfn af öllum stöðum.  Eigum við svona fáa unga menn?  Erum við svona fátækir? Hvað er í gangi. Þetta verður að lagast áður en menn eins og ég ánetjast Breiðabliksliðinu sem spilar einfaldlega langskemmtilegasta boltann. Og við höfðum Ólaf Kristjánsson þjálfara þeirra eitt sumar og meira að segja hann gat ekki lappað upp á þetta Framlið. Ég er alveg að gefast upp.  Mér  líður eins og Liverpoolaðdáenda en það er ég sem betur fer ekki.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur